Spurning

Hversu margir þingmenn sitja á þingi Evrópusambandsins?

Spyrjandi

Sigrún Brynjarsdóttir, f. 1993

Svar

Í sáttmálanum um Evrópusambandið er kveðið á um að þingmenn á Evrópuþinginu skuli ekki vera fleiri en 750, auk forseta. Formlega eru þingsætin því samtals 751. Á grundvelli tímabundinnar aðlögunar að Lissabon-sáttmálanum auk aðildar Króatíu að sambandinu verða þingsætin þó 766 til loka yfirstandandi kjörtímabils, árið 2014. – Leiðtogaráðið og Evrópuþingið ákveða sameiginlega skiptingu þingsætanna milli aðildarríkja en í sáttmálanum segir að hlutfall fulltrúa borgaranna skuli fara stiglækkandi eftir því sem íbúafjöldinn er meiri. Það þýðir að fámennari aðildarríkin fá úthlutað hlutfallslega fleiri þingsætum en þau fjölmennari.

***

Evrópuþingmenn eru kosnir til starfa í beinni kosningu í heimaríkjum sínum á 5 ára fresti og eru þannig fulltrúar rúmlega 500 milljóna Evrópubúa. Til þess að teljast kjörgengur til setu á Evrópuþinginu verður frambjóðandi að vera ríkisborgari Evrópusambandsríkis. Þá verður hann að bjóða sig fram í því ríki sem hann er búsettur í, sem þarf ekki að vera þar sem hann á ríkisborgararétt. Dregið hefur úr þátttöku í kosningum til Evrópuþingsins jafnt og þétt síðan þær fóru fyrst fram árið 1979 en fyrir þann tíma voru þingmenn útnefndir af þjóðþingum aðildarríkja. Nánar er fjallað um þróun kjörsóknar í kosningum til Evrópuþingsins í svari við spurningunni Hver hefur þróun kjörsóknar í kosningum til Evrópuþings verið frá upphafi?

Þingsalur Evrópuþingsins í Strassborg.

Á meðal breytinganna sem gerðar voru á sáttmálanum um Evrópusambandið árið 2009, með samþykkt Lissabon-sáttmálans, var að hámarksfjöldi Evrópuþingmanna skyldi framvegis vera 751 í stað 736 (2. mgr. 14. gr.). Fjöldi þingmanna frá hverju ríki veltur á íbúafjölda þess en þó ekki með beinu hlutfalli því hlutfall fulltrúa borgaranna fer stiglækkandi eftir því sem íbúafjöldinn er meiri. Fámennari aðildarríkin fá því úthlutað hlutfallslega fleiri þingsætum en þau fjölmennari. Í sáttmálanum er kveðið á um að lágmarksfjöldi þingmanna frá hverju aðildarríki skuli vera sex og hámarksfjöldi 96, en leiðtogaráðið og Evrópuþingið ákveða sameiginlega skiptingu þingsætanna milli aðildarríkja.

Þegar síðast var kosið til Evrópuþingsins, sumarið 2009, hafði Lissabon-sáttmálinn ekki öðlast gildi og var því kosið eftir eldri reglum. Heildarfjöldi þingmanna eftir kosningarnar var þar af leiðandi áfram 736. Árið 2011 var þingmönnunum fjölgað um þá 18 sem samtals skyldu bætast við samkvæmt Lissabon-sáttmálanum, en þeir skiptust á milli 12 aðildarríkja. Á hinn bóginn var ákveðið að bíða með það til loka yfirstandandi kjörtímabils að fækka þýskum Evrópuþingmönnum úr 99 í 96, en Þýskaland var eina aðildarríkið sem tapaði þingmönnum við breytingarnar. Til að heimila tímabundna fjölgun Evrópuþingmanna úr 751 í 754 var gerð breyting á sáttmálanum um Evrópusambandið, í samræmi við einfaldaða endurskoðunarmeðferð. Hinn 1. júlí 2013 fékk Króatía formlega inngöngu að Evrópusambandinu og fjölgaði Evrópuþingmönnum um tólf. Á Evrópuþinginu sitja því núna samtals 766 þingmenn en þeim mun fækka í 751 eftir næstu kosningar til þingsins árið 2014.

Skipting Evrópuþingmanna eftir aðildarríkjum, 2011 til 2014:

Þýskaland 99 Holland 26 Austurríki 19 Litháen 12
Frakkland 74 Belgía 22 Búlgaría 18 Lettland 9
Bretland 73 Grikkland 22 Danmörk 13 Slóvenía 8
Ítalía 70 Portúgal 22 Finnland 13 Eistland 6
Spánn 54 Tékkland 22 Slóvakía 13 Kýpur 6
Pólland 51 Ungverjaland 22 Írland 12 Lúxemborg 6
Rúmenía 33 Svíþjóð 20 Króatía 12 Malta 4

Þingmenn Evrópuþingsins skiptast í fylkingar eftir stjórnmálastefnu en ekki ríkjum. Þannig eru sjö þinghópar að störfum á Evrópuþinginu kjörtímabilið 2009-2014, allir með þingmenn frá mismunandi aðildarríkjum innanborðs. Lágmarksfjöldi þingmanna í hverjum fullgildum þinghópi er 25 og einnig verður hver þinghópur að vera með þingmenn frá minnst 6 aðildarríkjum.

Þinghópar Evrópuþingsins kjörtímabilið 2009-2014 eru:
  • Kristilegir demókratar með 274 þingmenn (Group of the European People's Party).
  • Sósíaldemókratar með 195 þingmenn (Group of the Progressive Alliance of Socialists and Democrats in the European Parliament).
  • Frjálslyndir demókratar með 84 þingmenn (Group of the Alliance of Liberals and Democrats for Europe).
  • Græningjar með 58 þingmenn (Group of the Greens/European Free Alliance).
  • Íhaldsmenn með 56 þingmenn (European Conservatives and Reformists Group).
  • Sameinaðir vinstrimenn og græningjar með 35 þingmenn (Confederal Group of the European United Left - Nordic Green Left).
  • Frelsis- og lýðræðisflokkurinn með 33 þingmenn (Europe of Freedom and Democracy Group).

Þá geta þingmenn einnig staðið utan þinghópa og eru þeir þá skilgreindir sem óháðir (e. non-attached members). Á kjörtímabilinu 2009-2014 eru óháðir þingmenn alls 30 talsins.

Ef Ísland gengi í Evrópusambandið mætti gera ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn ætti samleið með þinghópi Kristilegra demókrata, Samfylkingin með þinghópi Sósíaldemókrata, Vinstri grænir með þinghópi Vinstri manna og græningja, og Framsóknarflokkurinn með þinghópi Frjálslyndra demókrata. Þá er alltaf sá möguleiki að standa utan þinghóps og vera óháður þingmaður.

Þetta svar var uppfært í mars 2013, einkum tölur um fjölda þingmanna og skiptingu þeirra.

Þetta svar var uppfært í júlí 2013 í kjölfar inngöngu Króatíu í Evrópusambandið.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.6.2011

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hversu margir þingmenn sitja á þingi Evrópusambandsins?“. Evrópuvefurinn 21.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=51985. (Skoðað 20.4.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela