Spurning

Dómstóll Evrópusambandsins

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Dómstóll Evrópusambandsins (e. Court of Justice of the European Union, CJEU), áður kallaður Evrópudómstóllinn (e. European Court of Justice, ECJ), er æðsta dómsvald ESB og hefur aðsetur í Lúxemborg. Dómstólnum var komið á fót árið 1952 með Parísar-sáttmálanum sem hluti af Kola- og stálbandalagi Evrópu.

Tuttugu og átta dómarar sitja við dómstólinn þar sem sérhvert aðildarríki ESB skipar eina dómarastöðu við hann. Hver dómari gegnir embættinu í sex ár í senn, en getur verið endurskipaður. Stjórnvöld aðildarríkjanna tilnefna eigin dómara. Átta lögsögumenn (e. Advocates-General) aðstoða dómarana við störf sín. Vassilios Skouris frá Grikklandi hefur gegnt hlutverki forseta dómstólsins frá árinu 2003.

Stofnanir ESB, aðildarríki, einstaklingar og lögaðilar innan ESB geta átt aðild að málum dómstólsins. Þá geta landsdómstólar aðildarríkjanna beðið um forúrskurð frá dómstólnum og er hann bindandi. Dómari getur beðið um forúrskurð ef vafi leikur á hvernig eigi að túlka tiltekin ákvæði ESB-löggjafar sem geta haft áhrif á niðurstöðu málsins. Dómstóll ESB tekur þó ekki afstöðu til málsins sjálfs og lætur landsdómstólnum eftir að dæma í málinu. Niðurstaðan verður að vera í samræmi við túlkun Dómstóls ESB á viðkomandi ákvæði ESB-laga.

Túlkun Dómstóls Evrópusambandsins á Evrópurétti er bindandi fyrir aðildarríkin og eru fordæmi hans því afar mikilvæg réttarheimild. Dómstóllinn hefur oft kveðið upp úrskurði um grundvallaratriði í starfi sambandsins og þannig haft mikil áhrif á þróun þess. Þá kemur fram í 3. og 6. gr. EES-samningsins að EES-ríkin skuldbindi sig til að skýra og beita ákvæðum samningsins í samræmi við úrskurði og dóma Dómstóls ESB og EFTA-dómstóllinn vísar nær alltaf til fordæma Dómstóls ESB í niðurstöðum sínum.

Til að geta leyst úr þeim gríðarlega fjölda mála sem koma fyrir dómstólinn tekur svokallaður almennur dómstóll (e. General Court) að sér mál er varða einstaklinga og lögaðila auk samkeppnismála.

Málsmeðferð

Allir aðilar máls senda í upphafi skriflega greinargerð til þess dómara Dómstóls ESB sem fékk málinu úthlutað. Dómarinn skrifar útdrátt úr greinargerðunum og um atvik málsins. Málið er síðan flutt munnlega frammi fyrir Dómstól ESB og dæma ýmist 3, 5 eða 13 dómarar í hverju máli, eftir því hversu yfirgripsmikil þau eru. Í kjölfar málflutningsins gefur lögsögumaður álit sitt á málinu og að því loknu fellur dómur í málinu. Dómarar þurfa ekki að taka mið af áliti lögsögumannsins. Einfaldur meirihluti ræður niðurstöðunni og dómsorðið er lesið upp á opinberum áheyrnarfundi.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.10.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Dómstóll Evrópusambandsins“. Evrópuvefurinn 25.10.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60053. (Skoðað 25.4.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela