Spurning

Þjónar innganga Íslands mikilvægum hagsmunum ESB?

Spyrjandi

Hrafn Arnarson

Svar

Aðild Íslands að Evrópusambandinu þjónar ákveðnum hagsmunum sambandsins. Ísland er þó bæði lítið ríki og auk þess þegar í innri markaði ESB með EES-samningnum frá árinu 1994, og því má ætla að beinir efnahagslegir hagsmunir séu takmarkaðir. ESB gæti þó haft hag af aðild Íslands að Sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins (Common Fisheries Policy, CFP) – bæði af þekkingu Íslendinga á fiskveiðum og stýringu þeirra og eins af fjárfestingum í íslenskum sjávarútvegi. Þetta er þó háð niðurstöðum aðildarviðræðna. Einnig gætu ESB-ríki notið góðs af fullu frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur, en það veltur þó einnig á niðurstöðum aðildarviðræðna. Þá er einnig talið að reynsla Íslands á sviði endurnýjanlegrar orku gæti styrkt hlutverk ESB á sviði umhverfis- og orkumála. Loks er gert ráð fyrir að aðild Íslands að ESB gæti styrkt landfræðipólitíska stöðu ESB á Norðurslóðum, sem gæti haft efnahagsleg áhrif síðar meir.

***


Aðild Íslands að Evrópusambandinu gæti styrkt stöðu sambandsins á Norðurslóðum.

Aðildarríki Evrópusambandsins eru almennt jákvæð gagnvart inngöngu Íslands í sambandið. Það má meðal annars rekja til þess að Ísland uppfyllir að mestu leyti inngönguskilyrði ESB, öðru nafni Kaupmannahafnarviðmiðin. Þau eru:
  • Stöðugt stjórnarfar og stofnanir sem tryggja lýðræði, réttarríki, mannréttindi og vernd minnihlutahópa;
  • Virkt markaðshagkerfi sem hefur burði til að takast á við samkeppnina sem fylgir þátttöku á innri markaði ESB;
  • Geta og vilji til að samþykkja og innleiða regluverk ESB og grundvallarmarkmið sambandsins í stjórnmálum og efnahagsmálum.
Þá hefur Ísland átt í viðamiklu samstarfi við ESB síðastliðin 40 ár og er þannig að mörgu leyti betur búið undir aðild en fyrri umsóknarríki hafa verið. Með aðild að EES-samningnum hefur Ísland tekið nær fullan þátt í innri markaði ESB frá árinu 1994 en þar er átt við frjálst flæði á vörum, þjónustu, fjármagni og fólki milli ríkja ESB og EFTA-ríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Liechtenstein. Þátttaka í EES hefur gert það að verkum að Ísland hefur tekið upp stóran hluta löggjafar ESB eða um 60% þeirra kafla sem samið er um í aðildarviðræðunum (21 af 35).

Einnig hefur Ísland tekið þátt í þróun Schengen-samstarfsins frá árinu 1996 og beitt ákvæðum þess frá árinu 2001. Í því felst að Ísland hefur afnumið landamæraeftirlit gagnvart öðrum Schengen-ríkjum, og sameiginlegum reglum og málsmeðferð er beitt við vegabréfsáritanir til stuttrar dvalar og við eftirlit á ytri landamærum. Ísland tekur einnig þátt í umfangsmiklu samstarfi og samræmingu lögregluembætta og dómsmálayfirvalda innan Schengen-svæðisins. Loks á Ísland aðild að Dyflinnarreglugerðinni, sem snýr að viðmiðunum og aðferðum við meðferð hælisumsókna, sem og að Eurodac-upplýsingakerfinu sem er gagnasafn fyrir fingraför hælisleitenda.

ESB gerir ráð fyrir að aðild Íslands hefði takmörkuð áhrif á fjárlög sambandsins og miðar þar við stærð og þjóðartekjur landsins. Sökum smæðar hefði aðild þess ennfremur litlar breytingar í för með sér í daglegri starfsemi sambandsins. Framlög vel stæðra aðildarríkja til ESB eru hærri en þeirra sem lakar standa. Þjóðartekjur Íslands á mann eru hærri en meðaltal ESB-ríkja og mundi Ísland því að öllum líkindum greiða meira fé í sjóði ESB en landið fengi úr þeim. Samkvæmt Hagstofu ESB voru þjóðartekjur á mann á Íslandi 10% hærri en meðaltal ESB-ríkja árið 2010. Ísland leggur nú þegar sitt af mörkum til að draga úr félagslegu og efnahagslegu misræmi í Evrópu með fjárveitingum til EES-styrkja sem námu um 29 milljónum evra á tímabilinu 2004-2009.


Sjávarútvegsstefna ESB er nú til endurskoðunar, meðal annars með hliðsjón af reynslu Íslendinga.
Aðild Íslands að Sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins gæti haft jákvæð áhrif á önnur aðildarríki. Reynsla Íslands af umhverfisvænni og sjálfbærri fiskveiðistefnu gæti til að mynda nýst sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB, sem nú er í endurskoðun. Þá gæti aðild Íslands falið í sér aukin tækifæri til fjárfestinga í íslenskum sjávarútvegi. Samningaviðræður eiga þó enn eftir að leiða í ljós hvort aðild hefði í för með sér fullt fjárfestingafrelsi aðildarríkja ESB í sjávarútvegi, það er án nokkurra skilyrða.

Samningsmarkmið Íslands á sviði sjávarútvegsmála hafa ekki verið fullmótuð en í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn að ESB koma þó fram ákveðin meginmarkmið sem samninganefnd Íslands og samningahópi um sjávarútvegsmál er gert að hafa til grundvallar við mótun samningsafstöðu. Samkvæmt álitinu skal eitt af þeim markmiðum vera að halda í möguleikann á að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi, – eins og samið var um sérstaklega við gerð EES-samningsins. Í því sambandi er rætt um að ef til vill mætti setja ákvæði í lög um efnahagsleg tengsl milli útgerðar og vinnslu við heimahöfn skips, auk ákvæða sem binda heimildir til að fjárfesta í sjávarútvegi við búsetu.

Fullt frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur gæti eins verið ESB-ríkjum í hag, en íslenskur landbúnaður nýtur í dag mikillar tollverndar. Samkvæmt áliti meirihluta utanríkismálanefndar er eitt af markmiðum samninganefndar um landbúnaðarmál að leita allra leiða til að búa svo um hnúta að stuðningi við landbúnað verði sem minnst raskað.

Evrópusambandið lítur svo á að Ísland geti með reynslu sinni á sviði endurnýjanlegrar orku styrkt hlutverk sambandsins á sviði umhverfis- og orkumála. Í því sambandi er aðallega litið til reynslu Íslands á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, einkum að því er tekur til jarðvarmaorku, umhverfisverndar og baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.

Þá gæti Evrópusambandið haft hag af því í framtíðinni að orka frá íslenskum fallvötnum og jarðhita yrði flutt út til Evrópu með rafstreng. Til þess þyrfti þó ekki endilega aðild að ESB því að frjáls viðskipti með raforku felast meðal annars í EES-samningnum.

Talið er að aðild Íslands að ESB gæti styrkt landfræðipólitíska stöðu sambandsins á Norðurslóðum. ESB hefur markað sér skýrari stefnu í málefnum Norðurslóða á undanförnum árum. Í ályktun Evrópuþingsins frá febrúar 2011 kemur fram að aðild Íslands myndi styrkja stöðu ESB innan Norðurskautsráðsins (Arctic Council) og vera mikilvægt tækifæri fyrir ESB til að gegna virkara hlutverki og leggja sitt af mörkum til marghliða stjórnunar (e. multilateral governance) á Norðurskautssvæðinu. Að mati Evrópuþingsins myndi aðild Íslands einnig veita sambandinu stöðu strandríkis (Arctic coastal entity) á svæðinu sem myndi styrkja stöðu þess frekar. Í ályktun Evrópuþingsins frá júlí 2010 kemur ennfremur fram að aðild Íslands myndi greiða fyrir því að úrlausn fáist í sameiginlegum umhverfisverndarmálum á svæðinu og gæti aukið áhuga ESB á Norðurskautssvæðinu og verndun þess, á svæðisvísu og á heimsvísu.

Að lokum má nefna að ESB telur aðild Íslands geta styrkt hlutverk sambandsins á sviði mannréttindamála í heiminum, í ljósi þess að á Íslandi séu grundvallarréttindi virt og í íslensku samfélagi sé sterk vitund um mannréttindi.

Í þessu svari hefur megináherslan verið lögð á þau atriði sem ætla má að ESB myndi hafa hag af, án tillits til þess hvort eða að hvaða leyti þessi sömu atriði gætu einnig þjónað hagsmunum Íslendinga. Ekki er óalgengt í slíku samstarfi að aðilar hafi gagnkvæman hag af sama atriði.

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:
Er innganga Íslands mikilvæg fyrir ESB? Þjónar það mikilvægum hagsmunum þess? Hvaða hagsmunum og hvernig?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela