Svar
Beint framlag íslenska ríkisins til Evrópusambandsins eftir hugsanlega aðild að sambandinu yrði að öllum líkindum á bilinu 13-15 milljarðar íslenskra króna árlega. Erfitt er að meta hversu mikið Ísland fengi til baka í formi styrkja; það veltur aðallega á niðurstöðum aðildarviðræðna en einnig á frumkvæði Íslendinga við að sækja um styrki. Útreikningar og samanburður við framlög aðildarríkja ESB gefa til kynna að nettóframlag Íslands, það er greiðslur til ESB að frádreginni heildarfjárhæð styrkja, gæti orðið á bilinu 3-6 milljarðar íslenskra króna á ári hverju, sé miðað við vergar þjóðartekjur árið 2010. Til samanburðar má áætla að nettóframlag Íslands til EES-samstarfsins hafi verið um 2,9 milljarðar íslenskra króna árið 2010. Þetta mat er háð þó nokkurri óvissu og ber því að taka með fyrirvara. Hér er einungis um að ræða beinan kostnað og tekjur íslenska ríkisins af hugsanlegri aðild en ekki kostnað eða hagnað þjóðarbúsins í heild sinni.
***
Heildarútgjöld Evrópusambandsins á tímabilinu 2007-2013 eru áætluð 975.777 milljarðar evra, eða rúmir 156 þúsund milljarðar íslenskra króna á genginu í október 2011. Útgjöldin skiptast á milli málaflokka á eftirfarandi hátt:
Smellið á myndina til að stækka hana.
Sjá nánari upplýsingar um hvern málaflokk fyrir sig í svari við spurningunni
Í hvað er útgjöldum ESB varið?
Útgjöldin eru fjármögnuð með beinum framlögum aðildarríkja sem skiptast milli þeirra eftir umsömdum reglum og taka mið af fjórum gjaldstofnum: tollum, sykurframleiðslu, virðisaukaskatti og vergum þjóðartekjum, eins og sýnt er nánar í eftirfarandi töflu (miðað er við árið 2011):
Tekjustofn |
Hlutfall af gjaldstofni |
Hlutfall af tekjum ESB |
Vergar þjóðartekjur |
0,7821% |
75% |
Virðisaukaskattstofn |
0,3% |
11% |
Innheimtir tollar |
75% |
12,5% |
Gjald á sykurframleiðslu |
* |
0,5% |
Aðrar tekjur |
** |
1% |
*Sykurgjald felur í sér sérstaka álagningu á fyrirtæki sem framleiða sykur en gjaldið er notað til að fjármagna endurgreiðslur á útflutningi umframframleiðslu. Framkvæmdastjórn ESB ákveður árlega upphæð gjaldsins og byggir mat sitt á framleiðslumagni og neyslu sykurs innan ESB og meðaltali áðurnefndrar endurgreiðslu.**Hér er einna helst um að ræða skatta á laun starfsmanna stofnana ESB, framlög frá ríkjum utan ESB til ákveðinna áætlana sambandsins og sektir fyrir brot á samkeppnislögum.
Eins og sjá má í töflunni fer stærstur hluti tolltekna sem aðildarríkin innheimta í sameiginlega sjóði sambandsins. Fjórðungur verður eftir hjá ríkjunum sjálfum og er ætlað að standa undir kostnaði við innheimtuna.
Síðastliðin fimm ár hafa samanlögð framlög aðildarríkja til sambandsins verið að meðaltali 1,12% af samanlögðum vergum þjóðartekjum þeirra. Samkvæmt reglum ESB getur hlutfallið að hámarki verið 1,23%. Sé miðað við þjóðartekjur Íslands árið 2010, sem voru rúmir 1.200 milljarðar, yrði beint framlag Íslands samkvæmt þessum forsendum á bilinu 13-15 milljarðar íslenskra króna. Á móti félli niður beint framlag til framkvæmdar EES-samningsins, sem var 3,5 milljarðar árið 2010. Samkvæmt mati Evrópunefndar forsætisráðherra frá árinu 2007 (sjá að neðan) þykir ólíklegt að Ísland myndi verða í hópi þeirra aðildarríkja sem greiða mest til ESB sem hlutfall af vergum þjóðartekjum, þá einkum vegna hnattstöðu landsins, harðbýlis og strjálbýlis.
Erfiðara er að meta hversu stóra upphæð Ísland fengi til baka í formi styrkja, sem yrðu þá einna helst til landbúnaðar, dreifbýlisþróunar, atvinnu- og byggðaþróunar og rannsókna. Þetta veltur bæði á niðurstöðum aðildarviðræðna og eins á frumkvæði Íslendinga við að sækja um þá styrki sem í boði verða.
Síðastliðinn áratug hafa fjórar greiningar verið gerðar á kostnaði við hugsanlega aðild Íslands að ESB. Hér er um að ræða
greinargerð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2002,
skýrslu Deloitte & Touche fyrir utanríkisráðuneytið frá árinu 2003,
skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra frá árinu 2007 og
greinargerð utanríkisráðuneytisins frá árinu 2010. Í öllum skýrslunum er tekið fram að það kostnaðarmat sem lagt er fram sé háð mikilli óvissu og beri að taka með fyrirvara. Munurinn á mati þessara fjögurra aðila endurspeglar þessa staðreynd en hitt hefur einnig áhrif að greiningarnar voru unnar á mismunandi tímabilum. Í skýrslum Hagfræðistofnunar og Deloitte & Touche eru bæði settar fram greiningar á kostnaði Íslands fyrir og eftir stækkanir ESB til austurs sem þá voru fyrirhugaðar og urðu að veruleika árin 2004 og 2007, þegar fjöldi aðildarríkja fór úr 15 í 27. Hér verður aðeins skýrt frá þeim greiningum sem gerðu ráð fyrir stækkununum.
Beint framlag Íslands var hæst metið tæpir 15 milljarðar króna af utanríkisráðuneytinu árið 2010 en lægst um 7 milljarðar króna af Deloitte & Touche árið 2003. Nettóframlag Íslands var hæst metið rúmir 10 milljarðar af Hagfræðistofnun árið 2002 en lægst um 2,5 milljarðar af bæði Deloitte & Touche árið 2003 og Evrópunefnd forsætisráðherra árið 2007. Sjá nánari útlistingu á niðurstöðum greininganna fjögurra í eftirfarandi töflu.
|
Beint framlag |
Nettóframlag |
Hagfræðistofnun HÍ 2002 |
12,2-13,2 |
8,3-10,1 |
Deloitte & Touche 2003 |
7,2-9,2 |
2,4-5,6 |
Evrópunefnd forsætisráðherra 2007 |
10,5-12,1 |
2,5-5 |
Utanríkisráðuneytið 2010 |
14,9 |
3,0 |
- Upphæðir eru í milljörðum íslenskra króna og á verðlagi viðkomandi ára.
Evrópunefnd forsætisráðherra gerir ráð fyrir að nettóframlag Íslands sem hlutfall af vergum þjóðartekjum yrði um 0,25-0,5%, og miðar þar við greiðslur Finnlands og Svíþjóðar og áætlaðan meðaltalsgreiðslujöfnuð ESB-ríkja árin 2008-2013. Sé miðað við vergar þjóðartekjur Íslands árið 2010 mætti þannig gera ráð fyrir að nettóframlag Íslands til ESB yrði á bilinu 3,1-6,2 milljarðar íslenskra króna. Deloitte & Touche þykir hlutfallið 0,35-0,4% vera raunhæft, að teknu tilliti til íslenskra aðstæðna, samanburðar við greiðslujöfnuð þjóða ESB og stefnu ESB varðandi uppbyggingu á strjálbýlum svæðum með einhæft atvinnulíf. Samkvæmt því yrði nettóframlag Íslands 4,3-4,9 milljarðar króna ef miðað er við vergar þjóðartekjur árið 2010. Utanríkisráðuneytið miðar við útreikninga á framlagi Finnlands í áðurnefndri skýrslu Deloitte & Touche við mat sitt á nettóframlagi Íslands og Hagfræðistofnun styðst að mestu leyti við útreikninga frá ýmsum ESB-ríkjum, svo sem Danmörku, Þýskalandi, Ítalíu og Austurríki.
Í skýrslum Hagfræðistofnunar og Deloitte & Touche er ennfremur greint hvaða málaflokkum mótframlögin myndu beinast að og hver skipting þeirra yrði. Samkvæmt mati Hagfræðistofnunar myndu styrkir til landbúnaðar vera á bilinu 2,4-2,9 milljarðar íslenskra króna og styrkir til verkefna sem snúa að samkeppnishæfni og samheldni (e. cohesion) um 990 milljónir króna. Deloitte & Touche metur það hins vegar svo að styrkir til landbúnaðar yrðu 2,2-3 milljarðar, styrkir til verkefna sem snúa að samkeppnishæfni og samheldni 1,67-1,75 milljarðar og styrkir til innri málefna 470-940 milljónir króna.
Eins og áður sagði myndi framlag Íslands til EES-samstarfsins falla niður með aðild að Evrópusambandinu. Grundvöllur til þátttöku í samstarfsáætlunum á sviði rannsókna, mennta- og menningarmála, sem kom til með EES-samningnum, yrði sá sami eftir aðild en Ísland fengi aftur á móti fullan aðgang og þátttökurétt í stefnumótun og ákvörðunum um forgangsröðun og áherslur við mótun nýrra áætlana sem ekki hefur verið raunin til þessa. Enginn einn aðili hefur safnað tölfræði um þátttöku Íslands í helstu samstarfsáætlunum ESB frá því að EES-samningurinn tók gildi árið 1994, heldur hefur það verið í höndum þeirra sem sjá um framkvæmd einstakra áætlana. Ágúst H. Ingþórsson, forstöðumaður Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, metur það svo að heildarupphæð styrkja til íslenskrar þátttöku í verkefnum hafi numið um 150 milljónum evra eða um 10 milljörðum króna á tímabilinu 1995-2010. Það gera 625 milljónir króna á ári að meðaltali. Samkvæmt þessum útreikningum er hægt að áætla að nettóframlag Íslands til EES-samningsins hafi verið í kringum 2,9 milljarðar króna árið 2010. Rétt er að ítreka að hér er ekki um nákvæma útreikninga að ræða heldur gróflega áætlað mat.
Eins og fram kemur í skýrslu Deloitte & Touche má gera ráð fyrir að íslenska ríkið geri gagnráðstafanir til að mæta auknum útgjöldum ríkissjóðs og tekjutapi vegna aðildar, svo sem með lækkun framlaga til landbúnaðar, lækkun á framlögum til byggðaverkefna og hugsanlegri hækkun virðisaukaskatts á matvæli á móti lækkun tolla á landbúnaðarafurðir.
Að lokum er vert að benda á að þetta svar fjallar eingöngu um útgjöld, tekjur og hreinan kostnað íslenska ríkisins af hugsanlegri ESB-aðild. Kostnaður eða hagnaður þjóðarbúsins er enn annað mál og flóknara því að þá þarf meðal annars að meta hagnað og tap einkageirans og almennra borgara af greiðari aðgangi að mörkuðum, bæði í útflutningi og innflutningi.
Heimildir og mynd:
Draft General budget of the European Union for the financial year 2011 http://eur-lex.europa.eu/budget/data/DB2012/EN/GenRev.pdf
Upprunaleg spurning:
Er innganga Íslands mikilvæg fyrir ESB? Þjónar það mikilvægum hagsmunum þess? Hvaða hagsmunum og hvernig?