Spurning

Málsmeðferð í nefndum

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Málsmeðferð í nefndum er þýðing á enska hugtakinu comitology procedure (eða committee procedure) og vísar til þess ferlis þegar framkvæmdastjórnin setur gerðir.

Lagagerðir ESB eru oftast settar á grundvelli tillagna frá framkvæmdastjórninni sem síðan þurfa samþykki ráðherraráðsins og Evrópuþingsins til að öðlast lagagildi. Þetta er kölluð almenn lagasetningarmeðferð. Með lagagerð er einnig hægt að framselja framkvæmdastjórninni vald til að samþykkja sjálf gerðir (291. grein sáttmálans um starfshætti ESB). Slíkar gerðir snúast oftast um tæknileg atriði til útfærslu á stærri stefnumarkandi málum.

Til að koma í veg fyrir að framkvæmdastjórnin öðlaðist of mikil völd við mótun slíkra framkvæmdargerða, eins og þær eru kallaðar, voru þróaðir ákveðnir starfshættir þar sem framkvæmdastjórnin er undir eftirliti nefnda opinberra starfsmanna frá aðildarríkjunum sem eru skipaðir af ráðinu. Öll stefnumarkandi mál og tæknileg mál sem eru umdeild að einhverju leyti, og ekki næst samstaða um í nefndunum, eru send áfram til ráðsins og Evrópuþingsins til meðferðar. Þótt þær ákvarðanir sem teknar eru í gegnum þetta ferli snúist yfirleitt um tæknileg atriði fremur en stefnumarkandi mál þá geta gerðir sem unnar eru í málsmeðferðum nefnda framkvæmdastjórnarinnar verið umdeildar og áhrifamiklar.

EFTA/EES-ríkin hafa ráðgefandi stöðu innan þessara nefnda og geta því tekið þátt í þeim umræðum sem þar fara fram en hafa ekki atkvæðisrétt í nefndunum. Í sumum tilvikum fá þau þó eingöngu að taka þátt í vinnuhópum sem sjá um undirbúningsvinnu nefndanna.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.5.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Málsmeðferð í nefndum“. Evrópuvefurinn 25.5.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62673. (Skoðað 9.5.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Frekara lesefni á Evrópuvefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela