Spurning

Almenni dómstóllinn

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Almenni dómstóllinn (e. General Court, EGC) tilheyrir Dómstól Evrópusambandsins og hefur aðsetur í Lúxemborg. Dómstólnum var komið á fót árið 1989 og hét hann þá fyrsta stigs dómstóllinn (e. Court of First Instance) en skipti um nafn við gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009.

Tuttugu og átta dómarar sitja við dómstólinn þar sem sérhvert aðildarríki ESB skipar eina dómarastöðu við hann, auk dómritara. Hver dómari gegnir embættinu í sex ár í senn, en getur verið endurskipaður. Stjórnvöld aðildarríkjanna tilnefna eigin dómara með samhljóða samþykki. Mark Jaeger frá Lúxemborg hefur verið forseti dómstólsins frá árinu 2007.

Mál eru dæmd af ýmist einum, þremur eða fimm dómurum. Ef mál eru talin sérstaklega flókin eða mikilvæg getur það komið fyrir að 13 dómarar dæmi í málum. Í 80% tilvika dæma þrír dómarar í málum.

Dómstóllinn dæmir einkum í málum er varða einstaklinga og lögaðila auk samkeppnismála.

Málsmeðferð

Í upphafi fær dómstóllinn kæru frá öðrum málsaðilanum. Helstu atriði hennar eru birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á öllum opinberum tungumálum. Lesa má meira um opinber tungumál ESB í svari Evrópuvefsins við spurningunni Hver eru opinber tungumál Evrópusambandsins? Þeim sem kæran beinist að er gefinn frestur til að skila greinargerð í málinu. Kærandi má svara greinargerðinni sem kærði getur skilað gagnsvari við.

Hver, sem sýnt getur fram á hagsmuni að því er varðar niðurstöðu máls sem kært hefur verið til dómstólsins, getur gerst meðalgönguaðili við rekstur málsins. Þetta geta verið einstaklingar, lögaðilar, stofnanir ESB eða aðildarríki sambandsins.

Að þessu loknu hefst munnleg málsmeðferð þar sem lögmenn málsaðila flytja málið og dómarinn eða dómararnir geta spurt spurninga. Dómsorðið er lesið upp á opinberum áheyrnarfundi.

Við þetta svar er engin athugasemd Fela