Spurning

Hver er stefna ESB varðandi ríkisstyrki til einkafyrirtækja?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Reglugerðir Evrópusambandsins banna alla ríkisstyrki sem geta haft áhrif á viðskipti milli aðildarríkja með því að ívilna ákveðnum ríkjum eða svæðum, fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara. Markmiðið er að stuðla að virkri samkeppni á innri markaði ESB. Ákveðnar undanþágur eru þó veittar ef inngrip ríkisins er talið nauðsynlegt til að tryggja skilvirkt og sanngjarnt hagkerfi. Þetta á til dæmis við um aðstoð af félagslegum toga, aðstoð vegna náttúruhamfara, eða aðstoð til nauðstaddra svæða innan sambandsins. EFTA/EES-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein eru þátttakendur í innri markaðnum með EES-samningnum og því gilda reglur um ríkisstyrki og aðrar samkeppnisreglur ESB líka hér á landi. Samkeppnisreglur um sjávarútveg og landbúnað eru þó undanskildar, utan almennra ákvæða um ríkisstyrki í sjávarútvegi.

***

Um ríkisaðstoð innan ESB er fjallað í 107.-109. grein Lissabon-sáttmálans (samsteyptrar útgáfu um starfshætti Evrópusambandsins), sem á sér samsvörun í 61.-63. grein EES-samningsins. Á Evrópuvefnum er einnig fjallað um ríkisstyrki í svörum við spurningunum:

Samkvæmt EES-samningnum er samkeppnisreglum ætlað að skapa einsleitt og öflugt samkeppnisumhverfi á EES-svæðinu. Hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki ESB eða EFTA veitir og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, er óheimil að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Styrkir veittir einstaklingum eða almennar ráðstafanir sem standa öllum fyrirtækjum á innri markaðinum til boða flokkast ekki sem ríkisaðstoð og eru því undanskilin samkeppnisreglunum.

Þó svo að reglugerðir ESB taki almennt fyrir ríkisaðstoð þá er inngrip ríkisins stundum talið nauðsynlegt til að tryggja skilvirkt og sanngjarnt hagkerfi. Þannig er ríkisaðstoð leyfð í ákveðnum tilvikum, eins og fram kemur í 61. grein EES-samningsins (málsgreinar 2 og 3). Þar segir að eftirtalin aðstoð samrýmist (atriði 1-2) eða geti talist samrýmast (atriði 3-6) reglum EES-samningsins:

  • Aðstoð af félagslegum toga sem veitt er einstökum neytendum enda sé hún veitt án mismununar með tilliti til uppruna viðkomandi framleiðsluvara.
  • Aðstoð sem veitt er til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða.
  • Aðstoð til að efla hagþróun á svæðum þar sem lífskjör eru óvenjubágborin eða atvinnuleysi mikið.
  • Aðstoð til að hrinda í framkvæmd mikilvægum sameiginlegum evrópskum hagsmunamálum eða ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi aðildarríkis ESB eða EFTA.
  • Aðstoð til að greiða fyrir þróun ákveðinna greina efnahagslífsins eða ákveðinna efnahagssvæða enda hafi hún ekki svo óhagstæð áhrif á viðskiptaskilyrði að stríði gegn sameiginlegum hagsmunum.
  • Aðstoð af öðru tagi sem sameiginlega EES-nefndin kann að tiltaka í samræmi við VII. hluta EES-samningsins.

Ofangreindar undanþáguheimildir eru nánar útfærðar í leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð.

Ef aðstoð fellur undir þau skilyrði sem sett eru í reglugerðum um hópundanþágur (e. block exemption regulation) er hún ekki tilkynningarskyld. Þær reglugerðir sem hér um ræðir varða aðstoð til menntunar, svokallaða lágmarksaðstoð, ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, tímabundnar varnarráðstafanir fyrir skipasmíðaiðnaðinn og ríkisaðstoð til eflingar atvinnu. Sjá nánar á heimasíðu fjármálaráðuneytisins.

Stjórnarsvið framkvæmdastjórnar ESB fyrir landbúnað, sjávarútveg og samkeppnismál hafa eftirlit með því að ríki ESB fylgi samkeppnisreglum. Eftirlitsstofnun EFTA hefur samsvarandi eftirlit með EFTA/EES-ríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein. Eftirlitsaðilar framfylgja takmörkunum á ríkisaðstoð, meta hvort aðstoð er í samræmi við framkvæmd innri markaðarins og geta krafist þess að ólögmæt ríkisaðstoð sé endurgreidd. Þeir geta tekið mál upp að eigin frumkvæði eða vegna kvörtunar frá einhverju EES-ríkjanna, stofnunum ESB eða frá einkaaðilum. Telji eftirlitsstofnanirnar að brotið hafi verið gegn sáttmálum ESB eða EES-samningnum geta þær hafið áminningarferli. Það getur leitt til þess að höfðað verði mál fyrir dómstólum – dómstól Evrópusambandsins ef ríkið er í ESB en ella EFTA-dómstólnum.

Lesendum er enn fremur bent á svar okkar við spurningunni Hvaða mál er varða hugsanleg brot íslenskra stjórnvalda á ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins eru nú til umfjöllunar hjá eftirlitsstofnun EFTA?

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning:

Hvetur ESB til framleiðslustyrkja til einkafyrirtækja, það er fyrir utan landbúnað? Bannar ESB opinbera styrki til einkafyrirtækja?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.8.2011

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hver er stefna ESB varðandi ríkisstyrki til einkafyrirtækja?“. Evrópuvefurinn 9.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60266. (Skoðað 26.12.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela