Spurning

Hvernig er einfaldasta skýringin á verðbólgu og hvað er „mínus“-verðbólga?

Spyrjandi

Björn Ásbjörnsson

Svar

Eitt af hlutverkum peninga er að vera mælieining á verðmæti. Þessi mælieining hefur þó þann galla, ólíkt til dæmis mælieiningum metrakerfisins, að vera síbreytileg. Stundum er hægt að kaupa minna fyrir ákveðinn fjölda króna nú en áður. Þetta þýðir að mælieiningin hefur breyst og það er almennt kallað verðbólga. Einfaldasta skýringin á verðbólgu er að krónum í umferð fjölgar stundum hraðar en þeim vörum sem hægt er að kaupa fyrir þær.

Hagfræðingar tala yfirleitt ekki um „mínus“-verðbólgu heldur verðhjöðnun. Verðhjöðnun er velþekkt fyrirbrigði en sjaldgæfara en verðbólga. Skýringin á henni er eiginlega spegilmyndin af skýringunni á verðbólgu: Krónum fjölgar stundum hægar en þeim vörum sem hægt er að kaupa fyrir þær.

Þessar skýringar, þótt einfaldar séu, kalla þó sennilega á fleiri spurningar en þær svara. Hugum að nokkrum þeirra.

Oftast má að einhverju leyti rekja verðbólgu til þess að seljendur vöru og þjónustu geta hækkað verð á því sem þeir bjóða en samt selt jafnmikið og þeir eru vanir. Algengasta skýringin á því er að þeir sem kaupa vörur og þjónustu hafa meira fé á milli handanna en áður og það eykur kaupgleði þeirra. Hagfræðingar segja að verðbólgu af þessum orsökum megi rekja til meiri spurnar eftir vörum og þjónustu.



Stundum er hægt að rekja verðbólgu til þess að kostnaður við framleiðslu hefur vaxið. Ein skýring þess gæti verið að laun hafi hækkað en laun eru stærsti kostnaðarliðurinn í flestum fyrirtækjum. Þá eru framleiðendur ekki reiðubúnir að selja á sama verði og áður, þeir þurfa að hækka verð til að vera jafnvel settir og áður.

Hagfræðingar segja að verðbólgu af þessum orsökum megi rekja til minna framboðs af vörum og þjónustu.

Oft fer þetta saman. Ef laun hækka þá gerist til dæmis hvort tveggja: Framboð á vörum og þjónustu dregst saman vegna þess að kostnaður atvinnulífsins við að framleiða þær hefur aukist og launþegar hafa meira fé á milli handanna sem veldur því að spurn eftir vörum og þjónustu eykst.

Peningamagnið sem er í umferð í þjóðfélaginu skiptir höfuðmáli. Ef það er aukið, til dæmis þannig að ríki ákveður að auka útgjöld sín og greiða fyrir þau með peningum sem það lætur seðlabanka sinn búa til, annað hvort rafrænt eða á pappír, þá eykst spurn eftir vörum í þjóðfélaginu án þess að framboð breytist. Jafnframt skiptir máli hve mikið af peningum verður til annars staðar í bankakerfinu, það er utan seðlabankans, en í nútíma hagkerfum verður megnið af því sem við köllum peninga til í bönkum og sparisjóðum og birtist sem innstæður á reikningum í slíkum innlánsstofnunum.

Fyrirtæki bregðast við þessari auknu eftirspurn með því að hækka verð og auka framleiðslu sína. Til að auka framleiðsluna þurfa þau að ráða fleiri starfsmenn og þá hækka laun að öllum líkindum. Þegar laun hækka, eykst kostnaður fyrirtækja og ráðstöfunartekjur launþega og hvort tveggja ýtir undir verðhækkanir.

Mynd:


Svarið var lítillega uppfært 17.5.2019.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur23.2.2000

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvernig er einfaldasta skýringin á verðbólgu og hvað er „mínus“-verðbólga?“. Evrópuvefurinn 23.2.2000. http://evropuvefur.is/svar.php?id=140. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Gylfi Magnússonprófessor í hagfræði við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela