Spurning
Tímaás Evrópusambandsins, aðdraganda þess og umhverfis
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
1400-1914
Eftir að þjóðríki tóku að myndast í Evrópu á miðöldum háðu þau fjölmargar styrjaldir sín á milli um auð og völd, landamæri, trúarbrögð og fleira. Þetta á ekki síst við um England og þau ríki sem stóðu þar sem nú er Frakkland og Þýskaland.1648
Friðarsamningurinn í Westfalen, að loknu 30 ára stríðinu, leggur grunninn að ríkjaskipan Evrópu síðari alda sem er að talsverðu leyti byggð á þjóðríkjum en lengi vel tíðkuðust þó einnig keisaradæmi eða önnur fjölþjóða ríki.1914-1918
Fyrri heimsstyrjöldin. Aðilar annars vegar Þýska keisaradæmið, Austurrísk-ungverska keisaradæmið og Heimsveldi Ottómana en hins vegar Frakkar, Bretar, Rússar, Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir Bandamanna. Keisaradæmin liðu undir lok og þjóðríkjum í Evrópu fjölgaði verulega. Þjóðverjar guldu afhroð, töpuðu talsverðu af auðlindum sínum og áttu að greiða Bandamönnum miklar stríðsskaðabætur.1939-1945
Seinni heimsstyrjöldin. Þýskaland, Ítalía og Japan berjast gegn svonefndum Bandamönnum um allan heim. Í forystu Bandamanna voru Bretland, Sovétríkin og Bandaríkin, en Þjóðverjar hernámu Frakkland.1945
Evrópa öll var í rúst eftir stríðið, bæði í bókstaflegum skilningi og efnahagslegum.1945
Sameinuðu þjóðirnar (United Nations) stofnaðar 24. október. Stofnaðilar voru 51 ríki. Ísland gekk í samtökin í nóvember 1946 ásamt Svíþjóð og Afganistan.1945-1948
Kalda stríðið að hefjast.1947
Tilkynnt um aðstoð Bandaríkjanna við Vestur-Evrópu, sem kennd var við Marshall.1948
Beneluxlöndin, Belgía, Holland og Lúxemborg, gera með sér tollabandalag.1948
Átján Evrópuþjóðir setja á laggirnar Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (Organisation for European Economic Co-operation, OEEC), m.a. til að sjá um Marshall-aðstoðina. (Sjá 1961, OECD).1949
Atlantshafsbandalagið (North Atlantic Treaty Organisation, NATO) stofnað í Washington, D.C. Stofnendur voru 12 ríki: Bandaríkin, Belgía, Bretland, Danmörk, Frakkland, Holland, Ísland, Ítalía, Kanada, Lúxemborg, Noregur og Portúgal.1949
Þýska sambandslýðveldið (Vestur-Þýskaland) stofnað á fyrrverandi hernámssvæðum Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands. Síðar var Þýska alþýðulýðveldið (Austur-Þýskaland) stofnað á hernámssvæði Sovétríkjanna.1949
Evrópuráðið stofnað, en það er ESB óviðkomandi, gagnstætt því sem margir halda.1949
Efnahagsbandalag Austur-Evrópu (Council for Mutual Economic Assistance, COMECON, CMEA) sett á fót að frumkvæði Sovétríkjanna.1950
Schuman-yfirlýsingin um aukna samvinnu Vestur-Evrópuríkja.1950
Evrópusamþykkt um mannréttindi og grundvallarfrelsi undirrituð í Róm.1952
Kola- og stálbandalaginu hleypt af stokkunum í Lúxemborg. Aðilar voru í byrjun Þjóðverjar, Frakkar, Ítalir og Beneluxþjóðirnar. Tollabandalag um vörur sem skipta miklu í hernaði.1955
Vestur-Þýskaland gengur í NATO eftir talsverðan aðdraganda. Mikilvægt skref vegna sérstöðu Þjóðverja eftir stríðið.1955
Varsjárbandalagið (Warsaw Pact) stofnað að frumkvæði Sovétríkjanna; varnarbandalag með aðild átta kommúnistaríkja í Austur-Evrópu.1956
Súeskreppan. Bretar, Frakkar og Ísraelsmenn ráðast inn í Egyptaland vegna deilna um Súesskurðinn. Drógu sig síðan til baka vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum, Sovétmönnum og Sameinuðu þjóðunum.1957
Þjóðverjar, Frakkar, Ítalir og Beneluxlöndin undirrita Rómarsáttmálana um Efnahagsbandalag Evrópu (EBE; EEC) og Kjarnorkubandalagið (Euratom). Sáttmálarnir voru síðan um langa hríð grundvallarskjöl bandalagsins.1960
Fríverslunarbandalag Evrópu (European Free Trade Association, EFTA) stofnað til samkeppni við ESB. Upphaflega sjö þjóðríki: Austurríki, Bretland, Danmörk, Noregur, Portúgal, Sviss og Svíþjóð.1961
Efnahags- og framfarastofnunin (Organisation for Economic Co-operation and Development, OECD) tekur við af OEEC frá 1948. Bandaríkin og Kanada bætast í hóp aðildarlanda.1961
Bretar sækja um aðild að EBE í fyrsta sinn, ásamt Danmörku, Noregi og Írlandi. De Gaulle Frakklandsforseti beitti neitunarvaldi gegn umsóknunum tveimur árum síðar.1963
Evrópudómstóllinn úrskurðar að þegnar þjóðríkja geti beitt fyrir sig Evrópurétti fyrir dómstólum þjóðríkjanna (reglan um bein réttaráhrif).1964
Evrópudómstóllinn úrskurðar að lög EBE gangi framar löggjöf þjóðríkjanna þegar lög greinir á (reglan um forgangsáhrif).1965
„Kreppa auða stólsins“. De Gaulle Frakklandsforseti kallaði heim fulltrúa Frakka hjá EBE vegna ágreinings í landbúnaðarmálum og til að styrkja neitunarvald þjóðríkja í stofnunum bandalagsins.1965
Kola- og stálbandalaginu, EBE, og Euratom steypt saman í eina heild sem oft var nefnd Evrópubandalagið (EB; European Community eða EC á ensku).1965-1985
„Trénun Evrópu“ (Eurosclerosis) í kjölfar auða stólsins hægir á þróun til aukinnar samvinnu og samhæfingar.1967
Bretar, Danir, Norðmenn og Írar sækja um aðild að EB öðru sinni. De Gaulle beitir aftur neitunarvaldi, á sama ári.1968
Uppreisn námsmanna og verkamanna í París, veikir m.a. stöðu de Gaulle sem segir af sér árið 1969.1969
Þriðja umsókn Breta, Dana, Íra og Norðmanna. Íhaldsmaðurinn Edward Heath varð forsætisráðherra ári síðar og tók forystu í málinu af hálfu Breta.1970
Ísland gengur í EFTA.1971
Bandaríkjamenn leggja niður gulltryggingu dollarsins og slíta þannig Bretton Woods-kerfinu sem hafði gilt síðan 1944.1972
Norðmenn fella aðildarsamning í þjóðaratkvæði (53,5% á móti, 46,5% með), eftir að yfirgnæfandi meirihluti þjóðþingsins hafði samþykkt hann. Ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forystu Tryggve Bratteli segir af sér.1972
Danir samþykkja aðildarsamning í þjóðaratkvæði (63,4% með, 36,6% á móti). 70% Grænlendinga greiddu atkvæði gegn aðild en Grænland hafði þá ekki heimastjórn þannig að landið fylgdi Danmörku sjálfkrafa. Aðild Færeyja var ekki til umræðu enda tekið sérstaklega fram í Rómarsáttmála að þeir séu ekki aðilar.1973
Bretar, Danir og Írar ganga í EB í ársbyrjun. Fyrsta stækkun sambandsins, úr 6 í 9 þjóðríki. Írland var fyrsta og lengi vel eina aðildarríki bandalagsins sem var utan NATO. EFTA snarminnkar og breytist við þetta.1973
Olíuríki araba fjórfalda verð á olíu. Olíukreppan hefst.1975
Ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins undir forystu Harold Wilsons gerir nýjan samning við EB sem var samþykktur í þjóðaratkvæði (67,2% með, 32,8% á móti).1979
Fyrstu beinu kosningarnar til Evrópuþingsins sem sýnir síðan vald sitt með því að fella fjárlagafrumvarp sambandsins.1981
Grikkland gengur í EB eftir sex ár frá umsókn.1982
Grænlendingar ganga úr EB eftir þjóðaratkvæði (53,0% á móti aðild, 47% með).1985-1995
Franski sósíalistinn Jacque Delors formaður framkvæmdastjórnar, talinn öflugasti maðurinn í því sæti hingað til.1986
Spánn og Portúgal ganga í EB eftir níu ár frá umsókn.1987
Einingarlög Evrópu (Single European Act) taka gildi. Styrktu innri markaðinn, innleiddu heitið Efnahagsbandalag Evrópu formlega og lögðu grunn að samstarfi í utanríkis- og öryggismálum.1987
Tyrkland sækir um aðild.1989-1991
Kommúnistar tapa völdum í löndum Austur-Evrópu sem taka smám saman upp markaðshagkerfi og leita eftir samvinnu til vesturs. Þetta hefur mikil áhrif á EB, vöxt þess og stefnu.1989
Fall Berlínarmúrsins, sem hafði verið eitt af táknum kalda stríðsins í 28 ár.1990
Frakkland, Þýskaland og Beneluxlöndin samþykkja Schengen-samninginn.1990
Vestur- og Austur-Þýskaland sameinast.1991
Evrópudómstóllinn úrskurðar að beita megi aðildarríkin viðurlögum ef þau skirrast við að framfylgja lögum og tilskipunum sambandsins (reglan um ábyrgð ríkja).1991
Stríð brýst út í Júgóslavíu sem leysist smám saman upp í sex þjóðríki: Slóveníu, Króatíu, Serbíu, Bosníu og Hersegóvínu, Svartfjallaland og Lýðveldið Makedóníu, en auk þess er staða Kósovó óljós þegar þetta er skrifað 2011.1991
Sovétríkin liðast í sundur. Í Evrópuhluta þeirra verða til ríkin Rússland, Eistland, Lettland, Litháen, Hvíta-Rússland, Úkraína, Moldóva, Georgía, Aserbaídsjan og Armenía.1991
COMECON og Varsjárbandalagið lögð niður.1992
Samningur um Evrópusambandið (ESB), með nýju heiti, undirritaður í hollensku borginni Maastricht. Hann tók svo gildi ári síðar. Fól í sér nánara samstarf og breytingar í átt til sambandsríkis og leiddi síðar til upptöku evrunnar í flestum aðildarríkjum.1992
Samið um endurskoðun á landbúnaðarstefnu sambandsins (CAP, Common Agricultural Policy) en hún hefur staðið yfir allar götur síðan.1992
Danir fella Maastricht-samninginn í þjóðaratkvæði og svonefndur lýðræðishalli fer að birtast fyrir alvöru. Danir féllust svo á samninginn ári síðar eftir ívilnanir í öðrum atriðum.1992
Sviss hafnar aðild að Evrópska efnahagssvæðinu í þjóðaratkvæði, og þar með einnig aðild að ESB.1994
Norðmenn höfðu sótt um aðild öðru sinni 1992 en fella nú aftur aðildarsamning (52,2% á móti, 47,8% með).1995-1999
Schengen-svæðið tengist ESB traustari böndum. Nær allar þjóðir ESB gerast aðilar að Schengen ásamt Íslandi og Noregi.1995
Austurríki, Finnland og Svíþjóð ganga í ESB. Öll þessi ríki höfðu verið hlutlaus í kalda stríðinu og ekki haft áhuga á aðild þess vegna.1997
Amsterdam-sáttmálinn, jók völd Evrópuþingsins og lagði grunninn að Sameiginlegri stefnu í utanríkis- og öryggismálum (SSUÖ; Common Foreign and Security Policy, CFSP).1997
Þýski stjórnlagadómstóllinn úrskurðar að Evrópudómstóllinn geti ekki skorið úr um brot gegn fullveldi þjóðríkja.1999
Framkvæmdastjórn ESB segir af sér vegna ásakana um misferli.1999
Ellefu ESB-ríki taka upp evru eftir langan aðdraganda.1999
Ráðherraráð ESB viðurkennir Tyrkland sem tilvonandi aðildarríki.2002
Mynt og seðlar í evrum tekin upp í aðildarlöndum evrusamstarfsins, tólf að tölu.2003
Nice-sáttmálinn tekur gildi eftir að Írar höfðu samþykkt hann í annarri atrennu í þjóðaratkvæði. Endurbætti fyrri sáttmála verulega, til að undirbúa stækkunarlotuna sem var í vændum.2004
Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland ganga í ESB.2005
Frakkar og Hollendingar fella samning um stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslum. Aðrar leiðir koma síðar í staðinn, t.d. Lissabon-samningurinn.2007
Búlgaría og Rúmenía ganga í ESB.2008
Írar fella Lissabon-samninginn í þjóðaratkvæði en samþykkja hann svo ári síðar.2009
Lissabon-samningurinn tekur gildi; kemur í stað samnings um stjórnarskrá.2010
Viðræður um aðild Íslands hefjast.2010-
Ýmiss konar efnahagskreppur í Grikklandi, Spáni og Portúgal.2011
José Manuel Barroso, formaður framkvæmdastjórnar ESB, lýsir því yfir að Króatía geti orðið 28. aðildarríkið á árinu 2013.2013
Króatía gengur í ESB. Ísland gerir hlé á viðræðunum. Helstu heimildir:- Dinan, Desmond, 2010. Ever Closer Union: An Introduction to European Inegration, 4. útg. Houndmills, Basingstoke: Palgrave Macmillan.
- Warleigh-Lack, Alex, 2009. European Union: The Basics, 2. útg. London: Routledge.
- Ýmsar greinar á Wikipediu og víðar á Veraldarvefnum.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur22.6.2011
Flokkun:
Efnisorð
Tilvísun
Evrópuvefur. „Tímaás Evrópusambandsins, aðdraganda þess og umhverfis“. Evrópuvefurinn 22.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60000. (Skoðað 21.11.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela