Svar
Í hnotskurn hljóða svörin við spurningunum tveimur þannig: Nei, íslenska er ekki elsta tungumál í Evrópu. Íslensk málþróun er jafngömul byggð norrænna manna á Íslandi en íslenska og norska urðu ekki aðgreind tungumál fyrr en á 14. öld. Þó nokkur tungumál í Evrópu eru eldri en þetta, og eru þau nánar tilgreind í svarinu.
***
Íslenska er vesturnorrænt mál. Á víkingaöld (frá um 800 til 1050) greindist norræna, það er málið sem germanskar þjóðir töluðu á Norðurlöndum, í vestur- og austurnorrænu. Vesturnorræna var töluð í Noregi, austurnorræna í Svíþjóð og Danmörku. Ísland byggðist að mestu leyti úr Noregi. Flestir landnámsmenn komu frá suðvesturhluta landsins, af Hörðalandi, úr Sogni og Fjörðum. En sumir komu frá Bretlandseyjum og voru þeir bæði af norrænum og keltneskum uppruna. Þó hafa Keltar ekki haft merkjanleg áhrif á þróun íslenska málkerfisins. Keltnesk (gelísk) ummerki í málinu eru einskorðuð við tökuorð, mannanöfn og örnefni.
Íslensk málþróun hófst, þegar norrænir menn höfðu sest að á Íslandi. Á fyrstu öldum byggðar í landinu voru íslenska og norska enn vesturnorrænar mállýskur. Elstu handrit sýna að um miðja 12. öld var munur þeirra lítill. Þó hafði íslenska varðveitt nokkur einkenni, er norska hafði glatað, t.d.
h á undan
l,
n og
r í orðum eins og
hlutr,
hnefi og
hringr. Á 13. öld eykst munur þeirra, og um miðja 14. öld hafa þær aðgreinst svo mikið að þær geta vart talist mállýskur lengur. Frá þeim tíma er fremur um aðgreind tungumál að ræða.
Alkunna er að tungumálum er eðlilegt að breytast. Til dæmis er málið sem Íslendingar tala í dag ekki alveg eins og það var fyrir tíu eða tuttugu árum, svo að ekki sé farið lengra aftur í tímann. Málbreytingar sljóvga skilning manna á eldra málfari. Þær leiða oft til þess að menn skilja ekki lengur eldri texta á því máli sem þeir kalla móðurmál sitt. Þegar svo er komið, er réttmætt að spyrja, hvort um „sama“ tungumál sé enn að ræða. Vissulega er málfarið gjörbreytt. Hins vegar má líta svo á, að þrátt fyrir miklar breytingar séu tungumál „söm“, svo lengi sem þau varðveita ákveðin einkenni er aðgreina þau frá öðrum málum og mállýskumunur innan þeirra verður ekki svo mikill að þau klofni í ný tungumál.
Ef við skilgreinum aldur tungumála á þessa lund, er ljóst að íslenska getur ekki verið elsta tungumál í Evrópu. Meðal germönsku málanna væri til dæmis háþýska eldri. Hún er varðveitt í textum allt frá 8. öld. Þá má geta þess að gríska, sem tilheyrir indóevrópsku málaættinni eins og germönsk mál, hefur verið töluð í rúm 4000 ár. Elsta gríska málheimildin er talin vera frá um 1650 f. Kr. Annars eru elstu textar frá 14. og 13. öld f. Kr.
Nú kann að vera að með fyrri spurningunni sé í raun ekki átt við aldur íslensks máls, heldur það, hve fornlegt það sé í samanburði við önnur mál. Spurningin vísaði þá til þess að Íslendingar geta nánast fyrirhafnarlaust lesið fornbókmenntir sínar, sem ná aftur til 12. aldar. Það er vissulega einstakt. Þó væri mikill misskilningur að ætla að íslenskt mál hafi breyst lítið sem ekkert frá 12. öld til vorra daga. Hljóðkerfið hefur tekið miklum breytingum. Aftur á móti hafa beygingar, setningagerð og orðaforði varðveist betur. Reyndar á stafsetning drjúgan þátt í að auðvelda Íslendingum lestur fornbókmennta sinna. Í því sambandi ber að hafa tvennt í huga: Annars vegar eru fornmálsútgáfur ætlaðar almenningi prentaðar með samræmdri stafsetningu. Hins vegar er íslensk nútímastafsetning íhaldssöm og fylgir að miklu leyti samræmdri stafsetningu fornrita.
Ef íslenska er borin saman við skyld mál í Evrópu með tilliti til fornlegrar málbyggingar, kemur í ljós að baltnesk og slavnesk mál geta vel keppt við hana. Að mati margra málfræðinga er litháíska fornlegast indóevrópskra mála. Sem dæmi um forna málbyggingu slavneskra mála má geta þess að pólska hefur varðveitt sjö af átta föllum indóevrópska frummálsins og rússneska sex. Hins vegar hefur íslenska „aðeins" fjögur föll.
Í hnotskurn hljóða svörin við spurningunum tveimur þannig: Nei, íslenska er ekki elsta tungumál í Evrópu. Íslensk málþróun er jafngömul byggð norrænna manna á Íslandi. Hið sama gildir því um íslenskt mál.