Svar
Inngangur
Genfarsáttmálinn eða
Genfarsamningarnir öðru nafni eru í raun fjórir alþjóðasamningar sem samþykktir voru árið 1949 með tveimur frekari viðbótum árið 1977. Þetta eru alþjóðleg mannúðarlög sem hafa það að markmiði að vernda þá sem ekki taka beinan þátt í ófriði fyrir afleiðingum átakanna. Er hér aðallega átt við óbreytta borgara, særða og sjúka hermenn, stríðsfanga og starfsfólk hjálparsamtaka. Athugið að töluverður munur er á alþjóðlegum mannúðarlögum og mannréttindareglum. Þau fyrrnefndu gilda einungis á ófriðartímum og er ætlað að tryggja fórnarlömbum átaka lágmarks réttindi. Mannréttindareglur gilda hins vegar einnig á friðartímum.
Lykilorð samninganna eru „virðing“ og „vernd“ til handa þeim er taka ekki beinan þátt í hernaði. Þessi hugtök eru skilgreind á eftirfarandi máta:
Virðing: hvorki má gera mönnum miska, ógna þeim né taka líf þeirra og alltaf beri að koma réttlátlega fram við þá og virða sem manneskju.
Vernd: hlífa [ber] mönnum fyrir hættu eða þjáningum sem gætu ógnað þeim og að koma þeim til verndar, hjálpar og stuðnings.
[Heimild: Genfarsamningarnir sóttir af Vefsíðu Rauða kross Íslands 28. febrúar 2005.]
Upphafið
Hugmyndin að alþjóðlegu mannúðarstarfi kviknaði hjá Jean-Henri Dunant (1828-1910) þegar hann varði vitni að Heljarslóðaorrustu. Hún átti sér stað 25. júní 1859 við Solferínó á Ítalíu. Þetta var síðasta orrusta seinna frelsisstríðs Ítalíu þar sem herir Austurríkis og sameinaðir herir Frakka og Piedmont áttust við. Á þessum eina degi féllu og særðust um 40 þúsund manns. Dunant beitti sér fyrir hjálparstarfi á vígvellinum undir kjörorðunum „tutti fratelli“ sem þýðir allir eru bræður.
Jean-Henri Dunant eyddi megninu af lífi sínu í fátækt eftir að hafa orðið gjaldþrota 1867. Hann var fyrsti handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 1901 ásamt Frédéric Passy.
Dunant ritaði bókina
Minningar frá Solferínó árið 1862 þar sem hann lýsti því er hann sá í Heljarslóðaorrustu. Ári síðar var stofnuð í Genf „Alþjóðanefnd til hjálpar særðum hermönnum“ sem síðar varð að Alþjóða Rauða krossinum og 22. ágúst 1864 var fyrsti Genfarsamningurinn fullgerður. Öll helstu stórveldi Evrópu staðfestu samninginn innan þriggja ára.
Fyrsti Genfarsamningurinn var útfærður nánar árið 1906 og að auki voru mannúðarsjónarmið hans látin ná til sjóhernaðar með öðrum Genfarsamningnum í Haag 1899 og 1907. Þriðji Genfarsáttmálinn árið 1929 tók svo á málefnum stríðsfanga.
Vegna brota hernaðaraðila á Genfarsáttmálunum í síðari heimsstyrjöld beitti Alþjóða Rauði krossinn sér fyrir ráðstefnu í Stokkhólmi 1948 til að endurskoða sáttmálana, ítreka markmið þeirra og móta nýjan samning til verndar óbreyttum borgurum. Ári síðar voru Genfarsamningarnir fjórir samþykktir í Genf. Vegna sjálfstæðisbaráttu nýlendna og þjóðernishreyfinga næstu áratugina þótti nauðsynlegt að endurbæta og útfæra skilgreiningu mannúðarlaga og því voru tvær viðbætur gerðar árið 1977.
Danmörk var á meðal fyrstu ríkja sem undurrituðu fyrsta samninginn. Því má segja að Ísland, sem þá var í konungssambandi við Danmörku, hafi verið aðili að Genfarsamningnum frá upphafi. Rauði kross Íslands var svo stofnaður 10. desember 1924. Fyrsti formaður var kosinn
Sveinn Björnsson og var stofnunin viðurkennd af ríkisstjórninni 9. mars ári síðar. Ísland samþykkti síðar Genfarsamningana frá 1949 10. febrúar 1966 og bókanirnar 10. október 1987.
Í árslok 2003 höfðu næstum öll ríki heims eða 191 ríki gerst aðili að Genfarsamningunum. Aðilar að fyrri viðbótinni voru 161 og 156 að annarri bókun.
Efni samninganna
Genfarsamningarnir kveða á um að öllum þátttakendum ófriðar sé skylt að taka tillit til ákvæða samninganna. Þeir greina á milli alþjóðlegra átaka, sem eru átök milli tveggja ríkja, annars vegar og innanlandsófriðar, sem er ófriður á yfirráðasvæðis eins ríkis, hins vegar. Einungis 3. grein samninganna, sem er þeim öllum sameiginleg, og 2. viðbótarbókun frá 1977 ná til innanlandsófriðar.
Genfarsamningarnir kveða á um að stríðandi aðilar megi ekki beina hernaðaraðgerðum gegn óbreyttum borgurum, særðum og sjúkum hermönnum og stríðsföngum, hjúkrunarliði, eða öðrum hjálparaðilum. Fangar eiga að njóta mannúðlegrar meðferðar og reynt er að hindra þær hernaðaraðferðir og –leiðir sem líklegar eru til að valda óviðkomandi skaða.
Sem fyrr segir er talað um fjóra mismunandi samninga sem hver hefur sína sérstöðu. Sá fyrsti fjallar um bætta meðferð særðra og sjúkra hermanna, það skuli komið fram við þá af virðingu, byggingum og búnaði sem notaður er til að hlúa að þeim skuli hlíft og sömuleiðis hjálparstarfsmönnum.
Annar samningurinn nær til átaka á hafi og kveður á um bætta meðferð særðra, sjúkra og skipreika hermanna. Starfsfólk hjálparstofnanna nýtur meiri verndar, sem dæmi má nefna að hvorki má hertaka sjúkraskip né halda þeim. Einnig kveða sér ákvæði á um að hernumdum skipsáhöfnum skuli komið hið fyrsta á land þar sem ákvæði fyrsta sáttmálans nái til þeirra.
Þriðji samningurinn kveður á um að ekki megi lífláta stríðsfanga og hvernig vernd, meðferð og aðbúnaði skuli háttað. Einnig hvernig varðhald skuli endað og að hjálparsamtök megi kanna aðbúnað fanganna og upplýsa þá um réttindi þeirra.
Síðasti samningurinn er mikilvægastur þeirra og einnig umsvifamestur. Hann tekur til verndar óbreyttra borgara og bannar að fólk sé beitt ofbeldi eða svipt mannlegri reisn. Jafnframt kveður hann á um aðbúnað í fangelsum og fangabúðum, ekki megi mismuna fólki eftir kynþætti, litarhætti, þjóðernisuppruna, trúarbrögðum, skoðunum, kynferði né félagslegri stöðu. Þá er hvorki leyfilegt að taka fólk sem gísla, reka það úr landi, beita það refsingum né taka af lífi án dóms og laga.
Eins og áður sagði voru tvær viðbótarbókanir gerðar árið 1977. Hernaður hafði breyst töluvert og ný tækni komið til sögunnar. Því þótti rétt að bregðast við breyttum aðstæðum til að vernda fórnarlömb ófriðar enn betur. Fyrri bókunin inniheldur mjög ítarleg ákvæði um hernaðaraðferðir og –leiðir og vernd gegn afleiðingum þeirra. Sérstaklega var kveðið á um að hvorki almenningur né einstakir borgarar mættu vera skotmörk hernaðaraðgerða.
Seinni bókunin tekur sérstaklega til innanlandsófriðar sem fyrr segir og var verið að útfæra áðurnefnda sameiginlega 3. grein samninganna. Þetta var fyrsti alþjóðasamningur sinnar tegundar og tók meðal annars til árása skæruliða á almenna borgara.
Dómstólar vegna brota á ákvæðum Genfarsamninganna
Aðildarríkjum Genfarsamninganna ber skylda til að sækja til saka og dæma þá sem brjóta gegn ákvæðum samninganna og tryggja að lagaumhverfi styðji slíka saksókn. Einnig að framselja skuli grunaða, ákærða eða sakfellda einstaklinga sé farið fram á það. Eftir endalok kalda stríðsins hafa verið háð nokkur borgarastríð þar sem skilin á milli hernaðar milli ríkja og innanlandsófriðar eru afskaplega óljós. Sömuleiðis hefur verið óljóst hvaða lög eigi að ná yfir þá sem grunaðir eru um brot á ákvæðum Genfarsamninganna. Má hér nefna Júgóslavíu og Rúanda sem dæmi.
Í framhaldi af því var alþjóðlegum dómstólum um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu og glæpi í Rúanda komið á laggirnar. Síðar var Alþjóðlegi sakadómstóllinn stofnaður 1998 með Rómarsamþykktinni. Hann hefur lögsögu til að dæma í málum er varða brot í milliríkjaátökum og stríðsglæpum, þar á meðal brotum gegn ákvæðum Genfarsamninganna. Þessir alþjóðlegu dómstólar veittu alþjóðasamfélaginu tækifæri til að ákæra og dæma grunaða einstaklinga fyrir glæpi jafnvel þótt að þeir færu huldu höfði eða héldu til í ríkjum sem ekki væru aðilar að Genfarsamningunum.
Það veikir þó stöðu dómstólsins að Bandaríkin, Rússland og Kína hafa neitað að viðurkenna Alþjóða sakadómstólinn. Bandaríkin krefjast þess enn fremur að þegnar þess jafnt sem hermenn séu undanþegnir ákærum dómstólsins.
Rauði kross Íslands hefur gefið Genfarsamingana út í heild sinni samanber heimildaskrá hér að neðan.
Heimildir og mynd:- Encyclopædia Britannica. Sótt af Encyclopædia Britannica Online 28. febrúar 2005:
- Genfarsamningarnir. Umsjón með útgáfu og þýðingu: Gestur Hrólfsson, Hjörtur Bragi Sverrisson og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir. Bókaútgáfan Hólar. (Ak. 2004).
- Genfarsamningarnir. Sótt af Vefsíðu Rauðakross Íslands 3.6.2010.
- Britannica.com. Sótt 3.6.2010.