Svar
Laun á Íslandi hafa þegar lækkað niður að því sem gengur og gerist í Evrópu. Rannsóknum á því hvort upptaka evru hefur leitt til minnkandi launamunar á evrusvæðinu ber ekki saman. Ýmislegt bendir til þess að nafnlaunamunur sé að jafnast út en meiri vafi er um hvort það gildi einnig um raunlaun.
***
Laun í Evrópusambandinu og á evrusvæðinu eru mjög mismunandi. Eftirfarandi línurit er unnið úr gögnum frá
Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Tilraun er gerð til að vinna samsvarandi gögn fyrir Ísland með því að notast við gögn
Hagstofu Íslands um laun fullvinnandi launamanna á almennum vinnumarkaði. Meðalgengi evrunnar gagnvart krónu á hverju ári er notað til að finna samsvarandi upphæð í evrum. Því er gerður fyrirvari um að þessi aðferðafræði sé samanburðarhæf við gögn Eurostat. Upphæðirnar eru á verðlagi hvers árs.
Ef þessi mynd er í grófum dráttum rétt má í raun svara spurningunni sem svo að laun á Íslandi hafi nú þegar lækkað töluvert frá árinu 2007 og séu í samræmi við það sem gengur og gerist víða í Evrópu.
Heildarlaun (fyrir skatta) í þúsundum evra á verðlagi hvers árs. Gögn frá Eurostat, Hagstofu Íslands og Seðlabanka Íslands. Útreikningar eru höfundar. |
Þar með er þó ekki öll sagan sögð því eftir stendur spurningin um hvað muni gerast í framtíðinni. Mun launamunur á evrusvæðinu jafnast út?
Samkvæmt kenningunni um
hagkvæmt myntsvæði er von til þess að flutningur vinnuafls til hálaunasvæða frá láglaunasvæðum jafni út launamismun milli landa sem eiga í myntstarfi ef samstarfið er í raun hagkvæmt fyrir þátttökuríkin. Ef myntsvæði er hins vegar ekki hagkvæmt er allt eins líklegt að launamismunur milli landa aukist þar sem sameiginleg mynt getur, í slíkum tilvikum, verið ógn við fjármálalegan stöðugleika og jafnvel gert illt verra. Verði tiltekin lönd til að mynda fyrir staðbundnum efnahagsáföllum, hvort sem er vegna innri eða ytri áhrifa, sem ekki er hægt að draga úr með breytingum á nafngengi gjaldmiðils, er allt eins líklegt að sameiginleg mynt verði til þess að nafnlaunamunurinn aukist enn frekar.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvort launamunurinn á evrusvæðinu sé að minnka (e. converge). Þannig komst Pichelmann að þeirri niðurstöðu árið 2001 að munurinn á bæði
nafnlaunum (laun í krónum talin) og
raunlaunum (kaupmáttur launa) væri að minnka. Mora, López-Tamayo og Suriñach (2005) færðu rök fyrir svipaðri þróun og Pichelmann en tóku þó fram að svo virtist sem munurinn á raunlaunum og framleiðni væri ekki að dragast saman. Ennfremur virtist munurinn hafa verið til staðar allt frá árinu 1997 og sameiginleg mynt því engin áhrif hafa haft.
Ramskogler (2010) fann síðar út að þrátt fyrir að þróun nafnlauna í framleiðslugeiranum (e. manufacturing) liti út fyrir að vera svipuð á öllu evrusvæðinu þá virtist hún einkum ráðast af þróuninni í Þýskalandi. Þá gilti það ekki um þróun heildarlaunakostnaðar sem var mjög mismunandi milli landa, en helst væru það Austurríki, Frakkland, Þýskaland og Holland sem fylgdust að hvað þá þróun varðaði.
Vernengo og Pérez-Caldentay (2012) héldu því svo fram að vegna innri uppbyggingar evrusvæðisins, einkum því að viðskiptaafgangur einstakra landa er ekki jafnaður út til landa sem eru með viðskiptahalla, verði ríki á jaðri evrusvæðisins (e. periphery countries) að þrýsta launakostnaði niður á við í samanburði við ríkin í kjarna svæðisins til að viðhalda samkeppnishæfni. Slíkt eykur að lokum launamismuninn en dregur ekki úr honum.
Samandregið má því segja að það sé ennþá vafamál hvort innleiðing evrunnar dragi úr launamun milli evruríkjanna. Ýmislegt bendir til þess að nafnlaunamunur sé að jafnast út en meiri vafi er um hvort það gildi einnig um raunlaun.
Rétt er að minna á að efnahagsleg velferð þjóða fer fyrst og fremst eftir tvennu: getunni til að framleiða og veita þjónustu, án þess að um of sé gengið á takmarkaðar náttúruauðlindir, og getunni til að koma viðkomandi framleiðslu og þjónustu í verð. Kaupmáttur launa fer eftir mörgum staðbundnum þáttum á borð við skuldabyrði í formi afborgana og vaxta af lánum sem og skattastefnu stjórnvalda. Samanburður á heildarlaunum milli landa, eins og hér hefur verið gerður, gefur því ófullkomna mynd af velferð launamanna í ólíkum hagkerfum. Sú mynd er í reynd mun stærri og flóknari.
Heimildir:
- Gögn um laun frá Eurostat.
- Gögn um laun á Íslandi.
- Meðalgengi evru: Seðlabanki Íslands.
- Ramskogler, P. (2010). The State of Wage Convergence in the European Monetary Union. Department of Economics Working Paper Series, 130.
- Pichelmann, K. (2001). Monitoring Wage Developments in EMU. Empirica, 28(4).
- Mora, T., López-Tamayo, J. og Suriñach, J. (2005). Are wages and productivity converging simultaneously in Euro-area countries? Applied Economics, 37(17).
- Vernengo M. og Pérez-Caldentey, E. (2012). The euro imbalances and financial deregulation: A post Keynesian interpretation of the European debt crisis. Real-World Economics Review, 59.