Spurning

Hvers vegna er Cheerios bannað í sumum löndum?

Spyrjandi

Edda Rún Gunnarsdóttir, f. 1994

Svar

Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst er sala á Cheerios-morgunkorni hvergi bönnuð. Sú tegund af Cheerios sem Íslendingar þekkja best, í gula pakkanum (sjá vinstra megin á mynd), er hins vegar yfirleitt ekki í boði í verslunum í Evrópusambandinu. Þess vegna hefur sú sögusögn gengið manna á milli að sala á Cheerios sé bönnuð innan sambandsins. Af því hafa síðan sprottið getgátur um að Cheerios yrði ekki lengur til sölu hér á landi ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Hið rétta er að íslenskir innflutningsaðilar gætu áfram flutt inn og selt hefðbundið Cheerios í gulum pökkum frá Bandaríkjunum þó svo að Ísland gengi í ESB, en búast mætti við að söluverð hækkaði vegna aukinna tolla.

***

Evrópusambandið er tollabandalag, sem lýsir sér í niðurfellingu tolla milli ESB ríkja og sameiginlegum ytri tollum gagnvart ríkjum utan sambandsins. Þannig hafa einnig verið leiddar líkur að því að Cheerios sé ekki selt innan ESB vegna þess að framleiðslan sé bandarísk og svo háir tollar lagðir á hana að hún sé ekki samkeppnishæf á evrópskum mörkuðum. Staðreyndin er hins vegar sú að framleiðandi Cheerios í Bandaríkjunum, General Mills, á í samstarfi við evrópska matvælaframleiðandann Nestlé, sem framleiðir nú tvær tegundir af Cheerios og dreifir á evrópskum markaði.

Af einhverjum ástæðum framleiðir Nestlé hins vegar ekki hið hefðbundna Cheerios í gulu pökkunum sem Íslendingar kannast við, heldur annars vegar þá tegund af Cheerios sem nefnist Multi Grain Cheerios í Bandaríkjunum, en ber nafnið Nestlé Cheerios í Evrópu (sjá hægra megin á mynd), og hins vegar hunangs- og hnetu Cheerios (e. Honey Nut Cheerios). Í báðum tegundum er talsvert meira af sykri en í hefðbundnu Cheeriosi. Þetta hefur leitt til þess að Cheerios í gulu pökkunum fæst ekki í almennum verslunum innan ESB, en hægt er að nálgast það í bandarískum sérvöruverslunum, sem er meðal annars að finna í Bretlandi.



Hefðbundinn gulur Cheerios-pakki vinstra megin, Nestlé Cheerios sem selt er í ESB-ríkjum hægra megin.

Því hefur meðal annars verið haldið fram að Cheerios sé bannað innan ESB vegna þess að það sé unnið úr erfðabreyttu korni. Cheerios er vissulega erfðabreytt en þess konar matvæli eru hins vegar ekki bönnuð almennt innan sambandsins. Aðildarríki hafa þó heimild til að banna notkun og/eða sölu á erfðabreyttum matvælum, ef þau geta fært sterk rök fyrir því að viðkomandi matvæli feli í sér heilsufarslega eða umhverfislega áhættu.

Vöruframleiðendum innan ESB er hins vegar gert að merkja alla matvöru sem inniheldur erfðabreytt hráefni. Þeirri staðreynd hefur einnig verið fleygt fram sem ástæðu þess að Cheerios í gulu pökkunum er ekki selt innan ESB-ríkja. Þær tegundir af Cheerios sem eru seldar í ESB-ríkjum, Honey Nut Cheerios og Nestlé Cheerios, innihalda ekki erfðabreytt hráefni og því gæti skýringin legið þar. Þó er í því sambandi óljóst hvers vegna Nestlé framleiðir áðurnefndar Cheerios tegundir án erfðabreyttra hráefna en gerir ekki slíkt hið sama við hið upprunalega Cheerios í gulu pökkunum. Í því sambandi er einnig rétt að benda á að á Íslandi er engin löggjöf um erfðabreytt matvæli og þess vegna er ekki skylt að merkja þess konar vörur sérstaklega.

Því hefur einnig verið haldið fram að Cheerios sé ekki selt í ESB-ríkjum af því að það innnihaldi of mikið af viðbættu járni miðað við reglur ESB. Sambandið hefur hins vegar ekki sett nákvæmar reglur um hámarks- eða lágmarksmagn viðbættra vítamína og steinefna í matvörum, einungis almennar viðmiðanir. Sjá 5. grein í reglugerð nr. 46 frá árinu 2002 Því virðist magn viðbætts járns í hinu hefðbundna Cheerios ekki vera skýringin.

Af þessu má sjá að óljóst er hvers vegna hið upprunalega Cheerios í gulu pökkunum er ekki selt í ESB-ríkjum. Ein hugsanleg skýring er sú að það sé einfaldlega ekki markaður fyrir vöruna innan ESB. Þar gæti skipt máli að morgunverðarvenjur í mörgum ESB-ríkjum eru ólíkar þeim sem eru ríkjandi til að mynda í Bandaríkjunum og á Íslandi. Þá má einnig gera ráð fyrir að evrópskar tegundir af morgunkorni njóti vinsælda á kostnað þeirra bandarísku.

Hvað Ísland varðar yrði ennþá hægt að flytja inn og selja Cheerios þó svo að landið gengi í ESB. Tollar á kornvörur frá Bandaríkjunum eru hins vegar hærri í ESB en á Íslandi og af því leiðir að búast mætti við að söluverð hækkaði sökum hærri tolla ef hefðbundið Cheerios yrði áfram flutt inn til Íslands frá Bandaríkjunum. Hins vegar yrði hægt að flytja inn Nestlé Cheerios tollfrjálst.

Þetta svar er byggt á bestu heimildum sem við höfum getað aflað. Ef lesendur vita dæmi þess að Cheerios sé raunverulega bannað (og ekki bara ófáanlegt) í einhverju tilteknu landi eða svæði, þá viljum við gjarnan fá ábendingar um það, eða annað sem hér er við að bæta.

Bætt var við þetta svar 9.8.11 eftir athugasemdir frá lesendum.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur29.7.2011

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvers vegna er Cheerios bannað í sumum löndum?“. Evrópuvefurinn 29.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=51018. (Skoðað 23.11.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar eru 9 athugasemdir Fela athugasemdir

Helgi Jóhann Hauksson 6.8.2011

Eftir því sem ég veit best eru hafrar í USA almennt ekki erfðabreyttir með erfðatækni. Aðeins soya-baunir og maís eru erfðabreytt. Svo ef Cheerios inniheldur ekki soya eða mais frá USA er það ekki unnið úr erfðabreyttu korni (GMO).

Sjá t.d. hér: http://www.responsibletechnology.org/gmo-basics/gmos-in-food

Helgi Johann Hauksson 6.8.2011

Sjá má á lista GreenPeace yfir USA-framleiddar matvörur sem innihalda erfðabreytt hráefni, að þar er HoneyNut-Cheerios en ekki aðrar tegundir Cheerios. Það er í samræmi við það sem ég best veit að hafrar t.d. eru hvergi erfðabreyttir á neytendamarkaði.

Sjá listann hér: http://www.scribd.com/doc/2345138/Greenpeace-shoppers-guide-to-GMOFree-Food

Helgi Johann Hauksson 6.8.2011

Reyndar sé ég að á innihaldslýsingu Cheerios er „maís-sterkja“ í öðru sæti á eftir heilum höfrum. Svo ef að líkum lætur er maíssterkjan ábyrg fyrir staðhæfingum um að Cheerios innihaldi erfðabreytt hráefni, þ.e. erfðabreytta maís-afurð úr maís ræktuðum í USA.

Það getur skýrt að Nestle framleiðir (fyrir General Mills) öðruvísi Cheerios fyrir Evrópumarkað, þar sem þarf að merkja vöru sem inniheldur erðabreytt hráefni, en General Mills framleiðir fyrir Ameríkumarkað þar sem BANNAÐ er með lögum að merkja að vara sé ÁN erfðabreyttra afurða.

Óskar Sölvason 2.9.2011

Þið talið um að það sé hægt að nálgast það í bandarískum sérvöruverslunum í Bretlandi. Væruð þið til í að pósta nafni á einni svona verslun í Bretlandi, sem dæmi, hérna í athugasemdakerfinu.

Vilborg Ása Guðjónsdóttir 2.9.2011

Sæll Helgi. Við skoðuðum málið frekar og uppfærðum svarið í kjölfarið. Bandaríska Cheerios-ið inniheldur erfðabreytt hráefni en Cheerios-ið sem Nestlé framleiðir fyrir Evrópumarkað hins vegar ekki (Honey Nut og Nestlé Cheerios). Það er hugsanlegt að það hafi með skylduna til að merkja slíkar vörur innan ESB að gera eins og þú bentir á.

Vilborg Ása Guðjónsdóttir 2.9.2011

Sæll Óskar. Sjálfsagt mál. Samkvæmt heimasíðu verslunarinnar USA Food Store selur hún Cheerios frá General Mills, sjá http://www.usafoodstore.co.uk/aboutus.asp

Sama á við um Partridges http://www.partridges.co.uk/index.php/fuseaction/shop.category/categoryid/30 og Panzer´s http://www.panzers.co.uk/

Vona að þetta hjálpi.

Brynjar Þór Þorsteinsson 2.9.2011

Ég er búsettur í Kaupmannahöfn og langar að láta ykkur vita að þriðja tegundin af Cheerios er fáanleg hér í Danmörku. Það er hin hefðbundna tegund í gulu pökkunum sem flestir þekkja. Hún nefnist hér Havre Cheerios og er framleidd af Nestlé.

Vilborg Ása Guðjónsdóttir 5.9.2011

Sæll Brynjar og takk fyrir ábendinguna. Þú ert væntanlega að tala um þessa tegund af Cheerios: http://www.superbest.dk/produkt/havre-cheerios Þessi tegund inniheldur ekki sömu hráefni og hið hefðbundna Cheerios í gulu pökkunum frá General Mills, en hún kemst þó nær því en Multi Grain Cheerios og Honey Nut Cheerios. Sjá til samanburðar: http://www.cheerios.com/Products/Cheerios

Jón Frímann Jónsson 20.12.2011

Það má einnig benda á þessa útskýringu sem ég fann á Netinu:

http://everyjoe.com/work/no-cheerios-for-europe-390/