Spurning
Hvernig hefur Evrópusambandið breyst frá stofnun?
Spyrjandi
Grímur Óli Grímsson f. 1993, Móeiður Ása Valssdóttir f. 1994
Svar
Frá 1952 voru sex þjóðríki í bandalögunum sem leiddu síðar til Efnahagsbandalags Evrópu og Evrópusambandsins: Frakkland, Vestur-Þýskaland, Ítalía, Belgía, Holland og Lúxemborg, en Bretland, Danmörk og Írland bættust í hópinn árið 1973, Grikkland árið 1981, og Spánn og Portúgal árið 1986. Síðan Evrópusambandið (ESB) var formlega stofnað árið 1993 hafa 15 ríki bæst í hópinn, það er Austurríki, Finnland og Svíþjóð árið 1995, Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland árið 2004 og loks Búlgaría og Rúmenía árið 2007. Aðildarríkin eru því 27 talsins þegar þetta er skrifað í júní 2011. Þá hafa fimm ríki formlega fengið stöðu umsóknarríkis (e. candidate status): Ísland, Makedónía, Svartfjallaland, Króatía og Tyrkland. Albanía, Bosnía og Hersegóvína og Serbía hafa stöðu mögulegs umsóknarríkis (e. potential candidate status). Evrópusamruninn hefur frá upphafi þróast á grundvelli sáttmála sambandsins (The Treaties of the European Union). Alls hafa níu sáttmálar verið gerðir frá árinu 1952 og hefur hver og einn þeirra lagt grunninn að breytingum og framþróun í starfi og eðli sambandsins.
Yfirlit yfir þróun sáttmála og skipulags ESB. Smellið til að stækka myndina
Í upphafi takmarkaðist samstarfið við sameiginlegan markað fyrir viðskipti með kol og stál samkvæmt Parísarsáttmálanum sem lagði grunninn að stofnun Kola- og stálbandalagsins (European Coal and Steel Community, ECSC). Markmiðið var að koma í veg fyrir hernað og draga úr spennu á milli aðildarríkja bandalagsins eftir seinni heimsstyrjöldina, enda kemur stál mjög við sögu í hernaði eins og kunnugt er og kola- og stálnámur höfðu oft verið bitbein í deilum aðildarríkjanna. Næst komu Rómarsáttmálarnir sem tóku gildi árið 1958 og lögðu grunninn að stofnun Efnahagsbandalags Evrópu (EBE; European Economic Community, EEC) og Kjarnorkubandalags Evrópu (European Atomic Energy Community, EURATOM). Helsta breytingin með Rómarsáttmálunum var sú að efnahagssamstarf aðildarríkjanna var aukið og átti ekki lengur einungis við um viðskipti með kol og stál. Árið 1967 var Brussel-sáttmálinn eða Samrunasáttmálinn (Merger Treaty) samþykktur en markmið hans var að færa bandalögin þrjú, EBE, EURATOM og Kola- og stálbandalagið, undir eina sameiginlega framkvæmdastjórn og eitt sameiginlegt ráðherraráð (eins og það hét þá). Árið 1986 var sáttmálinn um Einingarlög Evrópu samþykktur (Single European Act) en hann hafði það markmið að leggja grunninn að innri markaði sambandsins, sem felur í sér frjálst flæði á vörum, þjónustu, fjármagni og fólki milli ríkja EBE og síðar EB og ESB. Samningurinn stuðlaði einnig að endurbótum á stofnunum sambandsins, til að búa þær undir aðild Spánar og Portúgals, og lagði grunninn að skilvirkari og lýðræðislegri ákvarðanatöku, sem fól í sér aukið vægi Evrópuþingsins.

- Heimasíða Evrópusambandsins: Sáttmálar
- Dinan, Desmond, 2010. Ever Closer Union. Basingstoke: Palgrave Macmillan.
- Þórhildur Hagalín, 2011: Skýringarmynd af þróun og skipulagi Evrópusambandsins. Með hliðsjón af en.wikipedia.org - Template: EU evolution timeline.
- Mynd sótt af heimasíðu Foreign Policy Digest 28. júní 2011
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur28.6.2011
Flokkun:
Efnisorð
Tilvísun
Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvernig hefur Evrópusambandið breyst frá stofnun?“. Evrópuvefurinn 28.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=52653. (Skoðað 1.4.2025).
Höfundur
Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela