Spurning

Hverjir eru möguleikar lögmanns, sem er menntaður á Íslandi, á að vinna innan Evrópska efnahagssvæðisins? Breytist það við inngöngu í ESB?

Spyrjandi

Sigvaldi Fannar Jónsson

Svar

Fyrir lögmann, sem er menntaður á Íslandi, eru tvær leiðir til að veita lögmannsþjónustu í öðru landi innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Annars vegar getur hann veitt lögmannsþjónustu í öðru aðildarríki (gistiríki) undir starfsheiti heimalands síns og hins vegar getur hann fengið leyfi til að nota lögmannstitil gistiríkisins. -- Þessar reglur eru gott dæmi um það hvernig svokallað fjórfrelsi birtist í verki, í þessu tilviki frelsið til viðskipta með þjónustu.

Réttur lögmanna til að veita þjónustu í gistiríki undir starfsheiti heimalands

Í fyrsta lagi geta lögmenn veitt tímabundna lögmannsþjónustu í öðru aðildarríki undir starfsheiti heimalands síns á grundvelli tilskipunar (nr. 77/249/EEC) um lögmannsþjónustu. Lögmaður getur þannig gætt hagsmuna málsaðila fyrir erlendum dómstóli hliðstæðum þeim sem hann hefur réttindi fyrir í heimalandi. Lögmanni ber að fara eftir siðareglum þess fagfélags sem hann tilheyrir í heimalandinu, að virtum þeim reglum sem gilda um starfsgrein hans í gistiríkinu.

Þjónustu sem lýtur að hagsmunagæslu fyrir dómstólum eða yfirvöldum ber að sinna í samræmi við þau skilyrði sem sett eru lögmönnum í gistiríki. Tekið er fram að reglur um heimilisfesti og skráningu í fagfélög taki ekki til lögmanna sem falla undir tilskipunina.

Aðildarríkin geta gert kröfu um að lögmaður, sem veitir þjónustu á þessum grunni, leggi fram gögn um að hann hafi réttindi til að starfa sem lögmaður í heimalandi sínu. Ennfremur er þeim heimilt að krefjast þess að lögmaður, sem gætir hagsmuna málsaðila fyrir dómstóli, starfi í þinghöldum með lögmanni sem hefur öðlast lögmannsréttindi í gistiríkinu og er þá ábyrgur gagnvart dómstólnum.



Frá réttarhaldi við dómstól Evrópusambandsins.

Í öðru lagi geta lögmenn veitt viðvarandi lögmannsþjónustu undir starfsheiti heimalands síns á grundvelli tilskipunar (nr. 98/5/EC) um staðfesturétt. Lögmönnum, sem hyggjast starfa á þessum grunni, ber að skrá sig hjá viðkomandi lögmannafélagi í gistiríkinu eða samskonar aðila. Þeim ber einnig að framfylgja siðareglum þess lögmannafélags eins og þeirra eigin félags.

Lögmaður sem veitir lögmannsþjónustu á grundvelli staðfesturéttartilskipunarinnar undir starfsheiti heimalands síns hefur heimild til að veita ráðgjöf varðandi réttarkerfi heimalandsins, réttarkerfi gistiríkis, Evrópurétt og þjóðarétt. Honum ber í öllum tilvikum að fara að gildandi málsmeðferðarreglum í gistiríki. Um hæfi gagnvart dómstóli og um samvinnu í þinghöldum við lögmann með réttindi í gistiríki gilda sömu ákvæði og áður voru nefnd.

Aðildarríkin geta sett sérstakar reglur sem lögmenn þurfa að fylgja til þess að öðlast réttindi til að flytja mál fyrir æðstu dómstólum landsins. Gistiríki getur ennfremur krafist þess að lögmaður, sem starfar á grundvelli staðfesturéttartilskipunarinnar, sýni fram á að hann hafi viðeigandi ábyrgðartryggingar eða, í sumum tilfellum, krafist þess að hann verði tryggður eftir kröfum gistiríkisins.

Réttur lögmanna til að öðlast lögmannstitil gistiríkis

Lögmenn hafa tvær leiðir til þess að öðlast lögmannstitil gistiríkis. Annars vegar eru reglur um viðurkenningu prófskírteina (tilskipun 2005/36/EC) sem gera lögmönnum kleift að gangast undir skriflegt og/eða munnlegt próf til að fá að nota lögmannstitil gistiríkis. Hins vegar gerir staðfesturéttartilskipunin lögmönnum kleift að stunda lögmannsstörf og nota lögmannstitil gistiríkis, án þess að gangast undir próf ef þeir hafa fengist við lög gistiríkis eða Evrópurétt og starfað þar við lögmennsku í þrjú ár. Ef lögmaður hefur stundað lögmennsku í þrjú ár í gistiríki en hefur ekki jafnlengi fengist við lög gistiríkis eða Evrópurétt, getur hann samt sem áður fengið lögmannstitil gistiríkis án þess að gangast undir próf, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Að lokum má nefna að í staðfesturéttartilskipuninni eru einnig ákvæði um rétt lögmanna til að reka lögmannsstofu í gistiríki. Ef gistiríki heimilar starfrækslu lögmannsstofa í félagaformi á lögmaður frá öðru aðildarríki rétt á að vera í slíku félagi, samkvæmt þessum ákvæðum. Þó er ein undantekning frá þessari reglu: Gistiríki getur bannað lögmanni, sem notar lögmannstitil heimalands síns, að stunda lögmannsstörf í gistiríki ef hann stundar lögmannsstörf í heimalandi sínu í félagi með öðrum starfsstéttum en lögmönnum.

Réttur lögmanna til þess að starfa tímabundið í öðru aðildarríki byggist á almennum rétti til frjálsra þjónustuviðskipta en réttur lögmanna til þess að starfa til frambúðar í gistiríki byggist hins vegar á staðfesturéttinum. Frjáls þjónustuviðskipti og staðfesturéttur eru hlutar af fjórfrelsinu svokallaða, sem innri markaður Evrópusambandsins byggist á og Ísland, Liechtenstein og Noregur eiga hlut að í gegnum ESS-samninginn. Hann grundvallast á frjálsum viðskiptum með vörur og þjónustu og frjálsum flutningum fjármagns og vinnuafls á milli aðildarríkja samningsins. Réttindi íslenskra lögmanna til þess að starfa í aðildarríkjum EES eru því byggð á traustum undirstöðum og breytast ekki með inngöngu Íslands í ESB.

Heimildir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur19.7.2011

Tilvísun

Jóhanna Katrín Magnúsdóttir. „Hverjir eru möguleikar lögmanns, sem er menntaður á Íslandi, á að vinna innan Evrópska efnahagssvæðisins? Breytist það við inngöngu í ESB?“. Evrópuvefurinn 19.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=53680. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Jóhanna Katrín Magnúsdóttirlögfræðingur, LLM í Evrópurétti

Við þetta svar er engin athugasemd Fela