Spurning

Hvaða reglur gilda um fjárfestingar borgara frá ESB-ríkjum á Íslandi?

Spyrjandi

Ólafur Bjarni Halldórsson

Svar

Einstaklingar sem búsettir eru í ríkjum EFTA eða ESB og svonefndir lögaðilar sem stofnaðir eru samkvæmt lögum þessara ríkja, og hafa aðalstöðvar eða heimilsfesti í einhverju þessara ríkja, mega fara með eignarrétt á fasteignum hér á landi á grundvelli reglna EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga. Undanþegnar eru þó fjárfestingar í fiskveiðum og fiskvinnslu.

***

Í lögum (nr. 19/1966) um eignarrétt og afnotarétt fasteigna er að finna takmörkun á því hver má fara með eignarrétt á fasteignum hér á landi. Í 1. milligrein 1. greinar laganna segir að aðeins íslenskir ríkisborgarar eða aðili með lögheimili hér á landi megi öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi. Í tilviki lögaðila er gerð krafa um að félagsmenn eða eftir atvikum stjórnarmenn félaga skuli vera íslenskir ríkisborgarar eða hafa átt lögheimili á Íslandi samfellt í að minnsta kosti fimm ár.


Að meginreglu geta aðeins íslenskir ríkisborgarar öðlast eignarrétt yfir fasteignum hér á landi. Íbúar ESB- og EFTA-ríkja eru þó undanþegnir þeirri reglu að mestu.

Í sérstakri reglugerð nr. 702/2002 er kveðið nánar á um rétt aðila sem njóta réttinda samkvæmt EES-samningnum til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi. Í 1. grein reglugerðarinnar segir að þessir aðilar geti öðlast heimild yfir fasteign án leyfis ráðherra enda þótt þeir uppfylli ekki ofangreint skilyrði 1. greinar laganna. Þessi réttur byggir meðal annars á reglum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga samanber 4. grein reglugerðarinnar. Einstaklingar sem eru búsettir í EES- eða EFTA-ríki (þar með taldir ríkisborgarar ríkja ESB) og lögaðilar sem eru stofnaðir samkvæmt lögum þessarar ríkja og eru með aðalstöðvar eða heimilisfesti í ríkjunum, geta þannig öðlast heimild yfir fasteign hér á landi á grundvelli reglna um frjálsa fjármagnsflutninga.

Kveðið er á um frjálsa fjármagnsflutninga í 4. kafla III. hluta EES-samningsins. Í 40. grein samningsins segir að innan ramma ákvæða samningsins skuli engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum ESB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka við samninginn eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd greinarinnar, en viðaukinn tekur upp tilskipun nr. 88/361/EBE um frjálsa fjármagnsflutninga og er hún þannig hluti af íslenskum rétti. Meginreglan í íslenskum rétti er því sú að fjármagnsflutningar á Evrópska efnahagssvæðinu skuli vera frjálsir, þar á meðal fjármagnsflutningar tengdir fjárfestingum.

Undir vissum kringumstæðum er samningsaðilum þó heimilt að setja hömlur á frelsi til fjármagnsflutninga, samanber 43. grein EES-samningsins. Þetta á við ef:
  1. munurinn milli gjaldeyrisreglna aðildarríkja ESB og EFTA-ríkjanna verður til þess að menn, búsettir í einu þessara ríkja, færa sér í nyt rýmri yfirfærslureglur á yfirráðasvæði samningsaðila til þess að fara fram hjá reglum einhvers þessara ríkja um fjármagnsflutninga til eða frá þriðju löndum;
  2. fjármagnsflutningar leiða til röskunar á starfsemi fjármagnsmarkaðar í aðildarríki ESB eða EFTA-ríki;
  3. samningsaðili breytir gengisskráningu sinni þannig að það valdi alvarlegri röskun á samkeppnisskilyrðum;
  4. aðildarríki ESB eða EFTA-ríki á í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta er á að örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarójafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli ríkið hefur yfir að ráða.

Þá getur Ísland á sama hátt og ríki ESB takmarkað fjárfestingar á grundvelli allsherjarreglu og almannaöryggis. Slíkar takmarkanir verða þó ávallt að uppfylla kröfur um meðalhóf.


Íslendingar fengu undanþágu frá reglu EES-samningsins um frelsi til fjármagnsflutninga í tengslum við fjárfestingar í fiskveiðum og fiskvinnslu.

Í XII. viðauka er jafnframt að finna undanþágu Íslands varðandi fjárfestingar í fiskveiðum og fiskvinnslu. Nánari útfærslu á undanþágunni er að finna í lögum nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Í 4. grein laganna segir að fjárfesting erlendra aðila1 í atvinnurekstri hér á landi sé háð takmörkunum hvað varðar fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi. Erlendir aðilar geta þannig að öllu jöfnu ekki átt meira en 25% af hlutafé eða stofnfé lögaðila sem rekur fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða.

Hafa ber í huga að lögin kveða einnig á um að fjárfestingar erlendra aðila með búsetu eða lögheimili utan Evrópska efnahagssvæðisins séu háðar takmörkunum, til að mynda fjárfestingar þessara aðila í virkjunarréttindum vatnsfalla og jarðhita, nema til heimilisnota, og í fyrirtækjum sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Þá eru jafnframt settar hömlur á fjárfestingu aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins í íslensku atvinnufyrirtæki sem stundar flugrekstur hér á landi.

Rétt að benda á að vegna gjaldeyrishafta eru tímabundnar hindranir á fjárfestingum á Íslandi, til dæmis fjárfestingum í erlendri mynt. Gert er ráð fyrir því að þessar hömlur séu aðeins tímabundnar og eru þær því ekki teknar til sérstakrar skoðunar í þessu svari.

Tilvísun:

1Samkvæmt 2. grein laganna er hugtakið erlendur aðili skilgreint með eftirfarandi hætti:
Einstaklingur, búsettur erlendis, án tillits til ríkisfangs, félag, stofnun, sjóður eða annar lögaðili, sem á heimili erlendis, erlent ríki og ríkisfyrirtæki, svo og atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum. Einstaklingur telst búsettur erlendis ef hann á lögheimili erlendis eða á þar heimili samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga. Lögaðili telst eiga heimili erlendis ef hann er skráður til heimilis erlendis eða telur heimili sitt erlendis samkvæmt samþykktum sínum.

Myndir:

Upphafleg spurning:

Hvaða reglur gilda um fjárfestingar íbúa í aðildarlöndum Evrópusambandsins á Íslandi í dag og hvaða breytingum má gera ráð fyrir í þeim efnum ef við gerumst aðilar að sambandinu, sé tekið mið af núverandi regluverki þess?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.12.2011

Tilvísun

Helga Melkorka Óttarsdóttir. „Hvaða reglur gilda um fjárfestingar borgara frá ESB-ríkjum á Íslandi?“. Evrópuvefurinn 2.12.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60135. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Helga Melkorka Óttarsdóttirlögfræðingur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela