Spurning

Hvetur ESB til einkaframtaks með stuðningi við fyrirtæki?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Evrópusambandið leggur áherslu á að skapa hagstætt umhverfi á innri markaði fyrir einkaframtak og nýsköpun. Meðal annars tryggir löggjöf ESB smáfyrirtækjum aðgang að ríkisaðstoð og styrkjum, einkum í gegnum byggðastefnu Evrópusambandsins, en smá og meðalstór fyrirtæki eru 99% allra fyrirtækja í ESB og því afar mikilvæg fyrir atvinnulíf og hagvöxt í sambandinu.

***

Evrópusambandið hefur á síðastliðnum áratugum unnið að því að skapa hagstæð skilyrði á innri markaði fyrir smá og meðalstór fyrirtæki (e. small and medium-sized enterprises, SME) og þannig stutt við einkaframtak og nýsköpun. Innan Evrópusambandsins eru smá og meðalstór fyrirtæki 99% allra fyrirtækja. Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjórn ESB voru rúmlega 23 milljónir smáfyrirtækja starfandi á einkamarkaði innan sambandsins árið 2009. Þessi fyrirtæki veita tveimur þriðju hlutum fólks í einkageiranum atvinnu, skila yfir helmingi af öllum arði innan sambandsins og eru mikilvæg uppspretta nýsköpunar. Smá og meðalstór fyrirtæki hafa þar af leiðandi mikið vægi fyrir atvinnulíf og hagvöxt í ESB og er velgengni þeirra á innri markaðinum því forgangsmál.

Í regluverki ESB er litlum fyrirtækjum skipt upp í þrjá flokka eftir stærð: miðlungsfyrirtæki, smáfyrirtæki og örfyrirtæki, (reglugerð 2003/361/EB). Þrír þættir ráða flokkun fyrirtækis en þeir eru starfsmannafjöldi, árleg velta og stærð efnahagsreiknings fyrirtækisins. Fjöldi starfsfólks er sá þáttur sem vegur þyngst í flokkuninni. Fyrirtæki með starfsmenn á bilinu 50-250 talsins eru talin meðalstór, fyrirtæki með 10-49 starfsmenn teljast smáfyrirtæki og þau sem eru með færri en 10 starfsmenn eru flokkuð sem örfyrirtæki.

Flokkur Fjöldi starfsmanna Árleg velta fyrirtækis Efnahagsreikningur
Meðalstór fyrirtæki < 250 ≤ 50 millj. € ≤ 43 millj. €
Smáfyrirtæki < 50 ≤ 10 millj. € ≤ 10 millj. €
Örfyrirtæki < 10 ≤ 2 millj. € ≤ 2 millj. €

Flokkun fyrirtækja eftir stærð hjálpar rekstraraðilum þeirra að sækja um styrki og lán, sem sérstaklega eru ætluð smærri fyrirtækjum, og bera kennsl á réttindi sín í Evrópulöggjöfinni. Á sama hátt nýtist hún stjórnvöldum og stofnunum til þess að beita viðeigandi aðgerðum í þágu þessara fyrirtækja. Hægt er að fylla út nauðsynlegar upplýsingar um tiltekið fyrirtæki á þessari vefsíðu framkvæmdastjórnarinnar og finna út í hvaða flokk það fellur samkvæmt reglum ESB.

Samkeppnis- og ríkisstyrkjareglur ESB hafa að mestu leyti verið innleiddar hérlendis í gegnum EES-samninginn. Íslensk fyrirtæki búa því við svipað laga- og reglugerðaumhverfi og fyrirtæki annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Hlutfall lítilla fyrirtækja á Íslandi er ennfremur hið sama og í ESB. Samkvæmt skýrslu framkvæmdastjórnarinnar frá 2011 eru 35.585 smá og meðalstór fyrirtæki starfandi hér á landi og eru þau rúmlega 99% af öllum fyrirtækjum landsins. Þar af eru örfyrirtæki 32.600 talsins eða 91% af heildarfjölda íslenskra fyrirtækja. Meðalstór fyrirtæki eru alls 461 talsins eða 1,3% af heildarfjölda og smáfyrirtæki eru 2.524 eða 7,1% af heildarfjölda.

Lítil fyrirtæki innan ESB höfðu fyrr á tímum ekki sambærilegt aðgengi að fjármagni og lánum, einkum í tengslum við stofnunarkostnað, eða nýrri tækni og stærri fyrirtæki. Markmið ESB hefur því í auknum mæli snúist um að skapa smáum og meðalstórum fyrirtækjum hagstætt rekstrarumhverfi og þá sérstaklega í formi aukins aðgengis að fjármagni svo þau séu samkeppnishæf á markaði.


Lýsandi mynd af stöðu smárra fyrirtækja.

Löggjöf ESB tryggir smáfyrirtækjum aðgang að ríkisaðstoð en í reglugerð (nr. 994/98) er sérstaklega tekið fram að lítil fyrirtæki eiga rétt á ríkisaðstoð í formi áhættufjármagns. Árið 2007 styrktu aðildarríkin 27 iðnaðar- og þjónustufyrirtæki að andvirði 49 milljarða evra og ætla má að stór hluti þessarar fjárhæðar hafi farið til smáfyrirtækja. Auk þess voru smáfyrirtækjum veittir sérstakir styrkir upp á 4,7 milljarða evra. Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjórnarinnar fá smá og meðalstór fyrirtæki meiri styrki en stór fyrirtæki, eða því sem nemur 20% meira að meðaltali.

Smá og meðalstór fyrirtæki hafa einnig aðgang að fjármagni á formi styrkja frá stofnunum ESB, einkum í gegnum byggðastefnu (e. Regional Policy) Evrópusambandsins, öðru nafni samheldnistefnu (Cohesion Policy). Byggðastefnan hefur það meðal annars sem markmið að styrkja stofnun fyrirtækja og stuðla að þróun þeirra á sviði fjármála, rannsókna, nýsköpunar, tækni, upplýsinga og samskipta. Áætluð útgjöld á yfirstandandi fjárhagsáætlun byggðastefnunnar (2007-2013) sem úthlutað skal sérstaklega til smárra og meðalstórra fyrirtækja eru 27 milljarðar evra. Þessi upphæð nemur 7,9% af heildarfjárlögum byggðastefnunnar. Þessir styrkir eru að mestu greiddir í gegnum áætlanirnar JEREMIE ("Joint European Resources for Micro to Medium Enterprises initiative") og JASMINE ("Joint Action to Support Micro-finance Institutions in Europe").

Samkeppnis- og nýsköpunaráætlun ESB (e. Competitiveness and Innovation Framework Programme, CIP) og 7. Rannsóknaráætlun ESB (e. the 7th Research Framework Programme) veita einnig sérstaka styrki til smærri fyrirtækja. Markmið þessara áætlana er að stuðla að nýsköpun og þróun á atvinnumörkuðum og halda þær utan um undiráætlanir sem sérsniðnar eru að þörfum smærri fyrirtækja. Íslensk fyrirtæki hafa aðgang að þessum áætlunum á grundvelli EES-samningsins.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur16.3.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvetur ESB til einkaframtaks með stuðningi við fyrirtæki?“. Evrópuvefurinn 16.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60265. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela