Spurning

Myndi ESB veita styrki til jarðganga eða brúarsmíði hér ef til aðildar kæmi?

Spyrjandi

Jónas Guðmundsson

Svar

Tæpum þriðjungi af uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins er varið til að bæta samgöngur í aðildarríkjunum á tímabilinu 2007-2013. Ef Ísland gerðist aðili að sambandinu má gera ráð fyrir að stuðningur til slíkra verkefna fengist einnig hér á landi. Ákvörðun um hvaða verkefni hlytu stuðning, jarðgöng, brúarsmíði, almenningssamgöngur eða annað, yrði í flestum tilfellum tekin af íslenskum stjórnvöldum í samræmi við forgangsatriði byggðastefnu ESB, leiðbeiningar framkvæmdastjórnarinnar og aðstæður á Íslandi.

***

Samanlagt renna 28% úr uppbyggingarsjóðunum til samgöngumála eða tæpir 77 milljarðar evra á tímabilinu 2007-2013. Tæp 19% sjóðanna (50 milljarðar evra) eru þar að auki eyrnamerkt umhverfismálum en samgönguverkefni sem hafa bætt áhrif á umhverfið geta einnig fallið í þann flokk. Langstærstur hluti framlaganna úr uppbyggingarsjóðunum rennur til fátækustu svæða sambandsins (rúm 80%) en um skiptingu sjóðanna á milli svæða má lesa í svari við spurningunni Hver er byggðastefna Evrópusambandsins?



Kortið sýnir skiptingu aðildarríkjanna í svæði. Appelsínugulu svæðin eru fátækust, þar er verg landsframleiðsla á mann undir 75% af ESB-meðaltali. Bláu svæðin eru þau sem hafa náð 75% þröskuldinum. Smellið á kortið til að stækka það.

Styrkir til samgöngumála eru veittir úr tveimur af þremur uppbyggingarsjóðum byggðastefnunnar:
  • Byggðaþróunarsjóði Evrópu (European Regional Development Fund, ERDF). Úr honum eru meðal annars veittir styrkir til þróunar og endurskipulagningar atvinnuskilyrða og til uppbyggingar nýrra atvinnuvega í iðnaðarhéruðum þar sem hnignunar gætir (176. gr. sáttmálans um starfshætti ESB). Styrkirnir eru veittir á öllum svæðum sambandsins.
  • Samheldnisjóðnum (Cohesion Fund). Úr honum eru eingöngu veittir styrkir í aðildarríkjum þar sem þjóðartekjur eru undir 90% af ESB-meðaltali (reglugerð 1083/2006, 5. gr.) og aðeins til umhverfis og grunnvirkja fyrir samevrópsk flutninganet (TEN-T) (177. gr. sáttmálans um starfshætti ESB).

Þar eð þjóðartekjur á Íslandi liggja yfir ESB-meðaltali ættu Íslendingar ekki tilkall til styrkja úr Samheldnisjóðnum þótt landið gerðist aðili að ESB. Hins vegar myndu Íslendingar fá úthlutað úr Byggðaþróunarsjóðnum undir markmiðinu „samkeppnishæfni svæða og atvinna“, sem nær yfir öll svæði þar sem landsframleiðsla á mann er yfir 75% af ESB-meðaltali og eftir atvikum undir markmiðinu um „samvinnu milli svæða“ (sjá nánar í svari við spurningnni Hver er byggðastefna ESB?).

Byggðaþróunarsjóður Evrópu er langstærsti uppbyggingarsjóður sambandsins með 201 milljarð evra eða tæp 58% af heildarfjármagni uppbyggingarsjóðanna til ráðstöfunar fyrir tímabilið 2007-2013. Á meðal forgangsatriða við veitingu fjár úr Byggðaþróunarsjóðnum, undir markmiðinu um „samkeppnishæfni svæða og atvinnu“, er aðgangur að samgönguþjónustu. Þar er einkum átt við styrkingu annars stigs samgöngukerfa (e. secondary transport networks) með því að bæta tengingar við samevrópska flutninganetið (TEN-T), styrkingu svæðisbundinna járnbrautamiðstöðva, flugvalla og hafna eða fjölþættra brautarpalla (e. multimodal platforms), stuðning við svæðisbundar skipgengar vatnaleiðir (e. inland waterways) og flutning á stuttum sjóleiðum (e. short-sea shipping) (reglugerð 1080/2006, 5. gr.).

Eins og fjallað er um í svari við spurningunni Hvernig er byggðastefna ESB framkvæmd? er það í valdi hvers aðildarríkis að ákveða, í samræmi við leiðbeiningar ESB, hvaða verkefni hljóta styrk úr uppbyggingarsjóðunum. Um öll slík verkefni gildir að aðildarríkin þurfa að leggja til mótframlag, sem er misjafnlega hátt eftir því undir hvaða markmið byggðastefnunnar viðkomandi svæði fellur. Almenna reglan er að Evrópusambandið fjármagni helming verkefnis á móti aðildarríki en hlutur ESB getur verið hærri á fátækari svæðum.

Samandregið má segja að staða byggðar og efnahags á hverju svæði séu forsendur þess hve há framlög viðkomandi svæði fær úr uppbyggingarsjóðum ESB. Um arðsemi fjárfestinga í samgöngugrunnvirkjum segir í leiðarvísi ESB um samheldnismarkmið (Community Strategic Guidelines on Cohesion) að hún er mikil þegar skortur er á grunnvirkjum og grunnnet eru ófullkomin en er líkleg til að minnka þegar ákveðnu stigi hefur verið náð. Af þessu þurfi að taka mið til að hámarka ávinning slíkra fjárfestinga.

Ennfremur gilda sérstakar reglur um svokölluð stórverkefni (e. major projects) þar sem heildarkostnaður er yfir 50 milljónum evra, eða 25 milljónum evra þegar verkefni snúa að umhverfismálum. Þessi verkefni þarf að tilgreina sérstaklega í framkvæmdaáætlunum (Operational Programs) aðildarríkja um notkun framlaga úr uppbyggingarsjóðum ESB. Áður en framkvæmdastjórnin tekur ákvörðun um veitingu fjár til slíkra stórverkefna þurfa meðal annars að liggja fyrir fjárhags- og tímaáætlun, niðurstöður arðsemiskönnunar, kostnaðar- og nytjagreining auk greiningar á umhverfisáhrifum (reglugerð 1083/2006, 40. gr.).

Um stuðning Byggðaþróunarsjóðs við grunnvirki sem skapa tekjur (e. revenue-generating projects) með því að gjöld eru lögð á notendur, til dæmis með vegtollum, gildir að aðstoðarhæfur kostnaður (e. eligible expenditure) megi ekki vera hærri en fjárfestingarkostnaður að frádregnum þeim hreinu tekjum sem gert er ráð fyrir að skapist á ákveðnu viðmiðunartímabili (reglugerð 1083/2006, 55. gr.).

Í gagnagrunni yfir verkefni sem hafa hlotið styrk úr uppbyggingarsjóðum ESB má finna ýmis dæmi um stuðning við byggingu samgöngumannvirkja í aðildarríkjunum. Hér verða nefnd þrjú dæmi um stuðning við svæði sem falla undir markmiðið „samkeppnishæfni og atvinna“, hið sama og gert er ráð fyrir að nái yfir Ísland:
  • Háhraðalest frá Madrid til Miðjarðarhafs, Spáni: Verkefnið felur í sér lagningu 221 kílómeters langra brautarteina með 24 kílómetra löngum jarðgöngum auk brúa. Þar með verður ferðatíminn milli Madrídar og Valencia styttur um rúman helming. Heildarkostnaður verkefnis: 1.122.895.800 evrur. Þar af styrkur úr Byggðaþróunarsjóði: 725.839.800 evrur.
  • Vegabætur kringum Hamborg, Þýskalandi: Tveimur nýjum köflum bætt við A26 hraðbrautina með það fyrir augum meðal annars að lækka flutningskostnað, stytta ferðatíma bæta öryggi og þannig draga úr útblæstri og mengun. Heildarkostnaður verkefnisins: 85.712.100 evrur. Þar af styrkur frá Byggðaþróunarsjóði: 52.200.000 evrur.
  • „Pöntunarsamgöngur“ (e. transport on demand) í Austur-Skotlandi: Þróun sveigjanlegrar samgönguáætlunar á dreifbýlasta svæði Skotlands til að auka samnýtingu farartækja, minnka notkun einkabílsins og draga þannig úr kostnaði og mengun. Heildarkostnaður verkefnisins 378.767 evrur. Þar af styrkur frá Byggðaþróunarsjóði: 186.921 evrur.

Heimildir og mynd:

Spurningin í heild var sem hér segir:

Er einhvern stuðning að hafa frá Evrópusambandinu eða úr sjóðum þess til að byggja upp ný samgöngumannvirki á Íslandi, t.d. jarðgöng eða brýr ef Ísland gerist aðili að sambandinu? Sé svo hvaða skilyrði þarf að uppfylla um t.d. arðsemi mannvirkisins, stöðu byggðar á svæðinu, eigið framlag, gjaldtöku (veggjöld), stöðu ríkissjóðs viðkomandi ríkis o.s.frv. Hafi styrkir verið veittir til gerðar samgöngumannvirkja í einstökum ríkjum sambandsins væri vel þegið að fá einhvern fróðleik um það, t.d. skilyrði sem þurfti að uppfylla, lánakjör, og annað sem máli kann að skipta?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur29.8.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Myndi ESB veita styrki til jarðganga eða brúarsmíði hér ef til aðildar kæmi?“. Evrópuvefurinn 29.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60476. (Skoðað 28.1.2025).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela