Spurning

Hver eru samningsmarkmið Íslands í landbúnaðarmálum?

Spyrjandi

Jón Baldur Lorange

Svar

Samningsmarkmið Íslands á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar í samningaviðræðum við Evrópusambandið hafa ekki verið fullmótuð. Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn að ESB koma þó fram ákveðin meginmarkmið sem samninganefnd Íslands og samningahópi um landbúnaðarmál er gert að hafa til grundvallar við mótun samningsafstöðu.

***

Utanríkisráðherra skipaði samningahóp um landbúnaðarmál í nóvember 2009 en hlutverk hópsins er að annast undirbúning viðræðna við ESB um málefni landbúnaðar og dreifbýlisþróunar. Í því felst einkum innri greining regluverks ESB af Íslands hálfu svo og sameiginleg greining með ESB, undirbúningur tillagna um samningsafstöðu Íslands, viðræður við ESB um samningsafstöðuna og nánari mótun hennar eftir því sem viðræðunum vindur fram og tilefni er til. Hópurinn skal vera samninganefnd Íslands í viðræðunum og aðalsamningamanni til ráðgjafar meðan á aðildarviðræðum stendur.



Samningsmarkmið Íslands í landbúnaðarmálum í viðræðum við ESB hafa ekki verið fullmótuð.

Samningahópurinn er skipaður embættismönnum, öðrum starfsmönnum stjórnkerfisins og fulltrúum hagsmunaaðila sem taka almennan þátt í starfi hópsins en eiga þó ekki beina aðild að sjálfum samningaviðræðunum (sjá heimasíðu samningahóps).

Í erindisbréfi samningahópsins kemur fram að samkvæmt áliti meirihluta utanríkismálanefndar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu skulu eftirtalin meginmarkmið, sem lúta að landbúnaðarmálum og dreifbýlisþróun, sett í samningaviðræðunum:

  • Að stuðla að matvæla- og fæðuöryggi.
  • Að leggja áherslu á sjálfbærni um matvæli (sem hluti af sjálfbærri þróun).
  • Að stuðningi við landbúnað verði sem minnst raskað þrátt fyrir ákveðnar breytingar í uppbyggingu styrkjakerfisins.
  • Að kerfið stuðli að hefðbundnum landbúnaði og að skýr stuðningur við mjólkurframleiðslu, sauðfjárbúskap og annan hefðbundinn búskap haldi áfram.
  • Að stuðlað verði að varðveislu hins íslenska fjölskyldubús.
  • Að hagsmunir vistvænnar og lífrænnar landbúnaðarframleiðslu verði hafðir að leiðarljósi.
  • Að landbúnaðinum verði skapað svigrúm til aðlögunar með tilliti til ólíks styrkjakerfis og hnattrænnar stöðu.
  • Að skoðað verði hvort nauðsyn beri til að útvíkka gildandi reglur ESB til að ná fram heimildum fyrir Ísland til að tryggja sem best stöðu íslenskra bænda.
  • Að skapa grundvöll til að styrkja íslenskan landbúnað umfram sameiginlegu landbúnaðarstefnuna, til dæmis með framleiðslutengdum styrkjum, og nýta í því sambandi fordæmi í aðildarsamningi Finnlands.
  • Að byggðastuðningur miðist til dæmis við núverandi starfssvæði landshlutasamtaka sveitarfélaganna.
  • Að Ísland verði allt skilgreint sem svæði norðurslóðalandbúnaðar.
  • Að kannað verði til hlítar hvort sérákvæði stofnsáttmála ESB um eyjar og héruð sem eru í mikilli fjarlægð frá meginlandi Evrópu geti átt við um stöðu Íslands.

Þá skal haft samráð við samningahópa um byggða- og sveitarstjórnarmál og EES I að því er varðar matvælaöryggi, annars vegar, og byggðaþróun í dreifbýli, hins vegar.

Íslensk stjórnvöld hafa gefið Evrópusambandinu til kynna að þau muni ekki gera breytingar á stefnu, stjórnsýslu eða löggjöf á sviði landbúnaðarmála nema aðild að ESB sé samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau hafa hins vegar sagt að allur nauðsynlegur undirbúningur muni eiga sér stað til að skilvirk aðlögun að regluverki ESB geti farið fram á sem stystum tíma fari svo að aðild verði samþykkt. Sjá yfirlýsingu formanns samningahóps um landbúnaðarmál.

Evrópusambandið birti rýniskýrslu um landbúnað og dreifbýlisþróun á Íslandi í september 2011. Í skýrslunni eru ræddar þær meginbreytingar sem Ísland mundi þurfa að ráðast í ef aðild yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þær eru meðal annars upptaka beingreiðslukerfis ESB (e. direct payment scheme) og uppsetning sérstakrar stofnunar sem bæri ábyrgð á útgreiðslu landbúnaðar- og dreifbýlisþróunarstyrkja. Þá þyrfti Ísland að móta heildstæða stefnu fyrir byggðaþróun í dreifbýli.

Rýniskýrslunni fylgdi bréf frá fastafulltrúa Póllands hjá ESB, en Pólland fór með formennsku í ráði sambandsins frá 1. júlí til 31. desember 2011. Í bréfinu segir að ESB líti svo á að Ísland sé ekki nægilega vel undirbúið til að hefja samningaviðræður um landbúnað og dreifbýlisþróun. Nauðsynlegt sé að lagðar verði fram tímasettar aðgerðaáætlanir um hvernig Ísland ætli að innleiða lög og reglur ESB á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamning hefur farið fram en áður en til formlegrar aðildar kæmi ef niðurstaða atkvæðagreiðslunnar yrði jákvæð. Sú vinna fer nú fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Bændasamtök Íslands hafa sett fram af sinni hálfu ítarlega lýsingu á ákveðnum lágmarkskröfum í samningaviðræðum Íslands við ESB. Að mati samtakanna eru ofangreindar athugasemdir ESB um áætlanagerð kröfur um aðlögun að landbúnaðarstefnu sambandsins og ganga þær þvert á lágmarkskröfur Bændasamtakanna. Samtökin krefjast þess að stjórnvöld setji fram skýrar lágmarkskröfur í viðræðunum við ESB.

Þetta svar var uppfært 5.12.2011

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela