Spurning

Hversu hár er tollur ESB á vörur frá Bandaríkjunum og hve mikið mundu þær hækka hlutfallslega í verði ef Ísland gengi í ESB?

Spyrjandi

Brynjar Þór Þorsteinssson

Svar

Tollur sem Evrópusambandið leggur á vörur frá Bandaríkjunum er mishár eftir því um hvaða vörur ræðir. Þannig er lagður 15% tollur á ávaxtasafa en enginn tollur á snyrtivörur. Aðild Íslands að ESB og upptaka sameiginlegrar tollskrár sambandsins hefði ýmist í för með sér hækkun eða lækkun tolltaxta á innfluttar vörur frá þriðju ríkjum. Að hve miklu leyti sú hækkun eða lækkun mundi skila sér í vöruverð til neytenda er óvíst.

***

Evrópusambandið er tollabandalag. Það þýðir annars vegar að engir tollar eru á viðskipti með vörur á milli aðildarríkja sambandsins og hins vegar að sameiginleg tollskrá ESB (Combined Nomenclature) gildir gagnvart ríkjum utan sambandsins. Aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi þýða að tollalöggjöf ESB tæki gildi hér á landi og þyrfti að breyta íslenskri tollalöggjöf til samræmis við hana. Ennfremur mundi tollskrá ESB gagnvart þriðju ríkjum leysa íslensku tollskrána af hólmi.


Upplýsingar um tolltaxta í tollskrá eru miðaðar við ákveðnar vörur, eða vörulýsingar, en ekki tiltekin lönd. Í íslensku tollskránni gildir sami tolltaxti fyrir allar vörur óháð því frá hvaða landi þær eru fluttar inn (A-dálkur) en stundum gilda sérreglur um vörur sem fluttar eru inn samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (E-dálkur). Því er ekkert einhlítt svar til við því hversu hár tollur á vörur frá Bandaríkjunum er, hvorki innan ESB né Íslands. Tolltaxtinn veltur á þeirri vöru sem um ræðir og eru þær ærið margar sem til greina koma.

Í greinargerð um tollabandalag ESB, sem unnin var af samningahópi ríkisstjórnar Íslands um fjárhagsmálefni í aðildarviðræðunum við ESB, eru nefnd dæmi um mismunandi tolltaxta Íslands og ESB á nokkrum útvöldum neysluvörum, sem í verulegum mæli eru fluttar hingað til lands frá þriðju ríkjum. Þessar upplýsingar eru teknar saman í eftirfarandi töflu.

Neysluvörur Verðmæti innflutnings frá þriðju ríkjum 2009, m.kr. Íslenskur tollur ESB-tollur
Grænmeti 170 30 10,4%
Epli 110 0 1,016 evrur á kg
Morgunkorn 500 0 3,8-5,1% + magngjald
Frystur ávaxtasafi 50 0 15,2% + magngjald
Tómatsósa 354 0 7,7-10,2%
Fæðubótarefni 216 0 9-18%
Sígarettur 480 0 57,6%
Snyrtivörur 410 10 0
Flugeldar 220 10 6,5%
Leikjatölvur 145 10 0
Hjólbarðar 220 10 4,5%
Fatnaður 5000 15 8-12%

Eins og sjá má er nokkuð misjafnt hvort tolltaxti ESB er hærri eða lægri en sá íslenski. Samantekið má segja að aðild Íslands að ESB hefði í för með sér hærri tolla á epli, morgunkorn, ávaxtasafa, tómatsósu, fæðubótarefni og sígarettur. Lægri tollar yrðu hins vegar lagðir á grænmeti, flugelda, leikjatölvur, hjólbarða og fatnað. Af umræddum vörum er einkum flutt inn mikið magn af grænmeti, eplum, morgunkorni, ávaxtasafa, tómatsósu, sígarettum og hjólbörðum frá Bandaríkjunum.

Aðild Íslands að ESB og upptaka sameiginlegrar tollskrár ESB gagnvart þriðju ríkjum hefði í för með sér breytingar á núverandi tolltöxtum. Þessar breytingar yrðu ýmist til hækkunar eða lækkunar, eins og dæmin hér að ofan sýna. Þeim sem vilja bera saman tolltaxta Íslands og ESB á tilteknum vörutegundum er bent á tenglana í tollskrárnar hér að neðan.

Örðugt er að fullyrða að hve miklu leyti þessar breytingar mundu skila sér til hækkunar eða lækkunar vöruverðs til neytenda. Í því sambandi má minna á að fyrirséðu tekjutapi ríkissjóðs vegna niðurfellingar tolla á iðnaðarvörur, á grundvelli EES-samningsins, var mætt með aukinni innheimtu vörugjalda. Í athugasemdum við frumvarp til breytinga á lögum um vörugjöld, í tilefni EES-samningsins, kemur fram að:

Ísland hefur hingað til haft sérstaka undanþágu til að leggja fjáröflunartolla á vörur frá þessum samningsaðilum sínum á meðan vörur þessar eru ekki framleiddar hér á landi. Þessar undanþágur falla úr gildi með samningnum um EES. Hins vegar er ekkert í samningnum því til fyrirstöðu að í staðinn komi skattheimta er fullnægir skilyrðum samningsins og þá sérstaklega 14. gr. um að innlenda skatta megi ekki leggja af meiri þunga á framleiðsluvörur annarra samningsaðila en lagðir eru á sams konar innlenda framleiðslu.
Vörugjöld eru lögð til jafns á innlendar vörur og erlendar, ólíkt tollum sem aðeins eru innheimtir af innfluttum og þar af leiðandi erlendum vörum, og brjóta því hvorki gegn reglum EES né ESB um frjálst flæði vara.

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:

Hversu hár er tollur á vörur frá Bandaríkjunum innan ESB? Hversu mikið myndu Bandarískar vörur hækka hlutfallslega mikið ef Ísland gengi í ESB?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 6.1.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hversu hár er tollur ESB á vörur frá Bandaríkjunum og hve mikið mundu þær hækka hlutfallslega í verði ef Ísland gengi í ESB?“. Evrópuvefurinn 6.1.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60561. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar eru 4 athugasemdir Fela athugasemdir

Gunnlaugur Ingvarsson 6.1.2012

Þetta svar er svo sem ágætt svo langt sem það nær. Hér þyrfti þó að leggjast í miklu nánari rannsóknarvinnu. Það ætti til dæmis að taka allan vöruinnflutning frá Bandaríkjunum og öðrum löndum utan ESB og skoða nákvæmlega, miðað við vörumagn og vörutegundir, hver tollurinn yrði eftir hugsanlega ESB aðild og ef við myndum áfram standa utan ESB. Þetta á að vera hægt því að allar upplýsingar um þetta er að finna í innflutningsskýrslum íslenskra tollayfirvalda. Einhvern veginn grunar mig að svona úttekt yrði ESB aðild alls ekki í hag, heldur þvert á móti. En mér finnst að það sé ykkar, eða annarra óháðra aðila, að láta gera svona úttekt. Mér finnst þetta svar algerlega ófullnægjandi, loðið og loðmullulegt. Ég veit að þið reynið að vera hlutlaus í málunum og ég veit að þið reynið að láta hlutina líta þannig út, en samt stórefa ég að þið séuð það í raun. Mér finnst þið oftar en ekki draga taum ESB aðildar.

Þórhildur Hagalín 13.1.2012

Þakka þér fyrir athugasemdina Gunnlaugur.

Evrópuvefurinn er með fleiri svör í smíðum um þær breytingar sem aðild að ESB hefði í för með sér fyrir tolltaxta gagnvart þriðju ríkjum. Þau munu vonandi varpa skýrara ljósi á möguleg áhrif hugsanlegrar aðildar að ESB á utanríkisviðskipti Íslands.

Hlutverk Evrópuvefsins er að veita hlutlægar og trúverðugar upplýsingar með það að markmiði að efla málefnalegar umræður um Evrópusambandið. Athugasemdakerfið er mikilvægur liður í að tryggja að Evrópuvefurinn uppfylli hlutverk sitt. Þar geta lesendur meðal annars bent á tilvik þar sem þeim þykir umfjöllunin á síðum vefsins hvorki hlutlæg né trúverðug, sett fram önnur sjónarmið en þau sem fram koma í svarinu eða spurt um atriði sem þeim þykja óljós. Evrópuvefurinn fagnar öllum málefnalegum umræðum sem skapast um efni vefsins.

Ívar Páll Arason 27.1.2013

Sæl.

Mig langar að spyrja aðeins út í svarið. Þegar þið teljið upp tolla í tolladálki töflunnar er þá átt við tolla og vörugjöld eða eingöngu tolla?

Ef eingöngu er átt við tolla, þá er svarið mjög villandi því vörugjöld eru veruleg á suma vöruflokka en vörugjöld eru náttúrulega bara annað nafn fyrir skattheimtu (tolla).

Þórhildur Hagalín 28.1.2013

Sæll Ívar.

Tollar og vörugjöld mynda tvo megintekjustofna tollkerfisins en eru þó ekki einn og sami hluturinn. Tollur er gjald sem innheimt er af vöru samkvæmt tollskrá við innflutning en vörugjald er gjald sem leggst jafnt á innfluttar vörur og innanlandsframleiðslu, og mismunar vörum því ekki eftir uppruna.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu hefði í för með sér að íslenska tollskráin mundi víkja fyrir sameiginlegri tollskrá Evrópusambandsins, sem er svokallað tollabandalag. Íslenskir tollar (þriðji dálkur) yrðu afnumdir og í staðinn yrði lagður ESB-tollur (fjórði dálkur) á vörur innfluttar frá ríkjum utan Evrópusambandsins.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu hefði hins vegar engin áhrif á innheimtu vörugjalda. Eins og áður sagði, og fram kemur í svarinu, mismuna þau vörum ekki eftir uppruna og því yrði Íslendingum áfram heimilt að innheimta vörugjöld eftir íslenskum reglum.

Í töflunni hér að ofan er einungis reynt að sýna með örfáum dæmum hvaða áhrif innganga Íslands í ESB hefði á lagningu tolla á vörur frá þriðju ríkjum. Þar eð Evrópusambandsaðild hefði engin áhrif á innheimtu vörugjalda nær umfjöllunin ekki til þeirra.