Spurning

Hefur ESB gert eitthvað til þess að bókhald þess verði áreiðanlegra?

Spyrjandi

Hrafn Arnarson

Svar

Evrópusambandið hefur lengi verið gagnrýnt fyrir óáreiðanlegt bókhald sem valdi spillingu og óráðsíu í fjármálum sambandsins. Um það má lesa nánar í svari við spurningunni Hvers vegna hafa endurskoðendur ESB ekki viljað undirrita bókhald sambandsins?

Framkvæmdastjórn ESB, sem ber lagalega ábyrgð á bókhaldi sambandsins, hefur gripið til ýmissa ráða til að gera bókhaldið áreiðanlegra. Þar á meðal eru sérstakt stjórnunarkerfi, tilkynningarkerfi og aðgerðaáætlun.

***

Árið 2005 setti framkvæmdastjórn ESB sér það markmið að bókhald sambandsins yrði með öllu gallalaust árið 2009. Það markmið náðist þó ekki. Í viðleitni sinni til að auka áreiðanleika bókhaldsins kölluðu framkvæmdastjórnin og Evrópuþingið eftir því árið 2006 að hvert aðildarríki gæfi árlega út yfirlýsingu þess efnis að þau kerfi sem notuð væru heima fyrir til að hafa stjórn á útgjöldum sambandsins hefðu verið árangursrík það árið. Hugmyndin var að fjármálaráðherra hvers ríkis myndi undirrita þess konar yfirlýsingu. Aðildarríkin höfnuðu tillögunni.



Janusz Lewandowski, framkvæmdastjóri fjárlagagerðar ESB.

Í febrúar 2008 lagði framkvæmdastjórnin fram aðgerðaáætlun sem ætlað var að draga úr skekkjum í bókhaldi sem tengdist byggðastefnu sambandsins. Með áætluninni aukast líkur á að útgreiðslum verði frestað ef ástæða þyki til og að gerðar verði kröfur um leiðréttingar ef grunur leikur á að fé hafi verið illa varið. Eftirlit með stærstum hluta útgjalda, stuðningi við landbúnað, hefur verið stóreflt með sérstöku stjórnunarkerfi sem nefnist Integrated Administration and Control System. Á fjárhagstímabilinu 2007-2013 ber ríkisendurskoðun þeirra aðildarríkja sem óska eftir styrkjum úr byggðasjóðum sambandsins að gefa út vottorð um að bókhaldsreglum verði fylgt við framkvæmd viðkomandi verkefna (e. Certificate of Compliance).

Árið 2010 setti framkvæmdastjórnin á fót tilkynningakerfi (e. Irregularities Management System) þar sem aðildarríkjum var gert að tilkynna allar skekkjur sem þau yrðu vör við í bókhaldi ESB-styrktra verkefna heima fyrir og hvenær grunur væri um fjársvik. Aðildarríkin hafa aðgang að kerfinu beint á Netinu. Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar frá september 2011 kemur fram að kerfið hafi nú þegar skilað árangri, aðildarríki verði frekar vör við skekkjur í bókhaldi sem skili sér í betri endurheimtum á illa vörðu fé. Aðildarríkin hafa öll tekið kerfið í gagnið, nema Spánn, Frakkland og Írland.

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:
Bókhald ESB virðist ekki fært með viðurkenndum stöðlum. Einhverra hluta vegna vilja endurskoðendur ekki undirrita það. Um hvað snýst málið nákvæmlega?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 5.10.2011

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hefur ESB gert eitthvað til þess að bókhald þess verði áreiðanlegra?“. Evrópuvefurinn 5.10.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60808. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela