Spurning

Hvernig berið þið saman núverandi landbúnað á Íslandi og í ESB?

Spyrjandi

Haukur Logi Jóhannsson

Svar

Aðstæður til búskapar hér á landi eru að ýmsu leyti öðruvísi en í löndum ESB. Til dæmis má nefna sólargang, loftslag, gróðurfar og mikið óbyggilegt hálendi. Sumarbeit húsdýra er skammvinn, þörf er á mikilli heyöflun sem var lengi vel vinnufrek, kornrækt er erfið en skilyrðin þó batnandi, leggja þarf meira í útihús, bújarðir eru stórar og lítt ræktaðar en búin samt minni en í flestum nágrannalöndum okkar, og samgöngur hafa lengst af verið erfiðar. – Tæknivæðing hefur breytt sumum þessara atriða og jafnframt stuðlað að stækkun og fækkun búa eins og annars staðar. Fjölskyldubú teljast þó enn ríkjandi. – Skipulag í framleiðslu og vinnslu búvara hefur lengst af stuðlað að einsleitni en breytist nú ört í þá átt sem gömul hefð er fyrir í Evrópu þar sem upprunastaður vörunnar hefur oft orðið að vörumerki.

***

Íslenskur landbúnaður á furðu margt sameiginlegt með öðrum landbúnaði í Evrópu þótt aðstæður séu ólíkar. Þannig er náttúrufar hér býsna sérstakt með tilliti til landbúnaðar: Úthafsloftslag með mildum vetrum en stuttum sumrum, sól lágt á lofti vegna norðlægrar legu, mestur hluti landsins hálendi sem telst óbyggilegt til hefðbundins búskapar og nýtist í mesta lagi sem afréttur, og náttúrulegt gróðurfar fábreytt vegna sólargangs, hálendis og einangrunar. Eins og á öðrum úthafseyjum var dýralíf hér á landi fábreytt áður en menn komu til sögu. Forsögulegt dýralíf á meginlandi Evrópu byggðist á hinn bóginn á þróun tegunda í allri Evrasíu. Það var eftir því fjölbreytt og öflugt og bauð upp á þó nokkrar tegundir sem henta sem húsdýr, og höfum við notið góðs af því eftir að menn fluttust hingað frá Evrópu.


Kindur á leið á fjall, það er að segja á afrétt.

Allt þetta hefur meðal annars þau áhrif að sláturlömb fá stuttan tíma til sumarbeitar, sauðfé þarf að vera á húsi mikinn hluta ársins, heyöflun verður mikil og lengi vel vinnufrek, auk þess sem kal í túnum veldur truflunum. Hjá nágrönnum okkar á Írlandi getur fé hins vegar gengið sjálfala allt árið sem gerbreytir bæði vinnu og öðrum kostnaði. Víða um lönd er korn ríkjandi í fóðrun búfjár en skilyrði til kornræktar hafa lengst af verið erfið hér á landi og dýrt að draga að sér korn. Einnig þarf að leggja meira í útihús hér en þar sem veður eru hagfelldari og minna um næðing.

Vegna gróðurskilyrða og hálendis er landið strjálbýlt. Jarðir eru að jafnaði stórar en aðeins lítill hluti þeirra ræktað land (tún og kornakrar). Að öðru leyti er bújörðin úthagi enda eru grasbítar undirstaða búsins. Samgöngur hafa einnig verið erfiðar til skamms tíma og kostnaður við flutning aðfanga til bænda og búvöru til vinnslu og á markað því verulegur hluti af framleiðslukostnaði.

Tæknivæðing hefur dregið úr áhrifum sumra þeirra atriða sem hér voru nefnd. Vegna nýrrar tækni veldur heyöflun þannig nær engum vandkvæðum lengur, að kali undanskildu. Bættar samgöngur auðvelda flutninga, bæði á aðföngum og afurðum, og lækka kostnað miðað við það sem ella væri. Tæknivæðingin hefur auk þess stuðlað að fækkun og stækkun búa, einkum í kúabúskap, enda nýtist tæknin þá oft miklu betur, en sömu áhrifum má einnig oft ná með samvinnu bænda um nýtingu á dýrum tækjum. Þessi þróun er eitt af því sem íslenskur landbúnaður á sameiginlegt með öðrum löndum.


Tæknivæðingin hefur gert bændum miklu auðveldara að afla heyja.

Þó að evrópskur landbúnaður sé býsna sundurleitur og nái allt frá stórfyrirtækjum í franskri vínrækt til skógræktar í Finnlandi og frá sauðfjárrækt smábænda á grískum eyjum til nautgriparæktar á dönskum stórbúum, þá hefur hann samt tiltekin sérkenni ef borið er til dæmis saman við landbúnað Norður-Ameríku. Þannig hefur til skamms tíma verið mikið um smábændur og fjölskyldubú víðast hvar í Evrópu og er svo enn til dæmis víða í nýjum aðildarríkjum ESB, en slík bú teljast enn ráðandi í íslenskum landbúnaði eins og áður var sagt.

Það er fleira en náttúrufarið sem er eða hefur verið ólíkt með landbúnaði á meginlandi Vestur-Evrópu og á Íslandi. Í Evrópu er það gömul hefð að mismunur í náttúrufari, staðbundinni ræktun og vinnsluaðferðum er nýttur til að skapa fjölbreytni í vörum, samanber til dæmis mismunandi kynstofna búfjár, fjölda ólíkra osta og vína og svo framvegis. Oftar en ekki verður heiti upprunastaðar eða svæðis að vörumerki eða einkenni, samanber Galloway-naut, Emmental-ost, Bordeaux-vín og pilsner. Þessi fjölbreytni í evrópskum landbúnaði virðist vera heildinni til framdráttar þegar allt kemur til alls.

Þegar framleiðsla á búvörum fyrir markað fór að eflast hér á landi upp úr aldamótunum 1900 stofnuðu bændur og vinnsluaðilar öflug samtök um framleiðsluna (mjólkurbú, sláturfélög og svo framvegis). Slíkt var auðvitað eðlilegt á þeim tíma en leiddi síðar meir til samræmingar og einsleitni í markaðsvörum. -- Þó að íslenskt búfé sé að vísu tiltölulega einsleitt í arfgerð (erfðaeiginleikum) vegna blöndunar verður að ætla að svipgerðin (áunnir eiginleikar) sé eða geti verið mismunandi eftir svæðum og landshlutum, meðal annars vegna ólíks veðurfars og annarra skilyrða eftir svæðum. Þannig er til dæmis líklegt að lambakjöt og ull á þurrviðrissvæðinu norðan Vatnajökuls sé eða verði öðru vísi en á vestfirsku eða sunnlensku fé, að minnsta kosti eftir að áhrif niðurskurðar og fjárskipta fjara út. Ætla má að svipað eigi við um breytileika í nautgripastofninum þar sem hreyfanleiki innan hans er enn takmarkaðri.

Vegna smæðar stofna, takmarkaðs breytileika í náttúrufari og lítils markaðar náum við auðvitað ekki sömu fjölbreytni í framboði á landbúnaðarvörum og til dæmis Evrópa sem heild. Á síðustu áratugum hefur þó smám saman orðið viðhorfsbreyting í þessum efnum. Fjölbreytni íslenskra landbúnaðarvara á markaði hefur farið ört vaxandi, fyrst með því að einstakir vinnsluaðilar innan kerfisins hafa sett á markað sérstakar vörur undir sínu nafni (til dæmis „Húsavíkurjógúrt“) en síðar hafa einstakir bændur eða svæði fylgt í kjölfarið með ýmiss konar sérvörur sem hafa fengið góðar viðtökur hjá íslenskum neytendum (til dæmis vatnafiskur frá tilteknum stöðum, hangikjöt kennt við upprunastað, verkað ærkjöt ...). Jafnframt hefur færst mjög í vöxt að neytendur geti séð á vörunni hvaðan hún kemur. Með þessari þróun hefur íslenskur landbúnaður að þessu leyti færst nær því sem tíðkast í Evrópu og rakið var hér á undan.

Höfundur þakkar Ernu Bjarnadóttur og Þórhildi Hagalín yfirlestur og mikilsverðar athugasemdir sem hafa bætt svarið til muna.

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning var sem hér segir:

Hver hefur verið þróun landbúnaðar innan ESB-ríkja samanborið við þróun landbúnaðar á Íslandi? Hefur hagur bænda innan ESB vænkast við inngöngu í ESB?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur11.11.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig berið þið saman núverandi landbúnað á Íslandi og í ESB?“. Evrópuvefurinn 11.11.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60907. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Við þetta svar er engin athugasemd Fela