Spurning

Er það rétt að auglýsingar á borð við „Veljum íslenskt“ verði bannaðar ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Guðjón Eiríksson

Svar

Nei, Evrópusambandið mun ekki banna auglýsingar eins og spyrjandi nefnir. Ástæðan er sú að slíkar auglýsingar á vegum íslenska ríkisins væru nú þegar óheimilar því að þær mundu brjóta gegn reglunni um frjáls vöruviðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu, sem Ísland tilheyrir nú þegar. Einkaaðilar eru hins vegar að jafnaði ekki bundnir af umræddu ákvæði og mega því, með aðild að Evrópusambandinu eða án hennar, standa fyrir auglýsingarherferðum eins og „Veljum íslenskt – og allir vinna“ eða „Íslenskt, já takk“.

***

Til þess að tryggja frjáls vöruviðskipti milli aðildarríkja Evrópusambandsins er lagt bann við magntakmörkunum á innflutningi svo og öllum ráðstöfunum sem hafa samsvarandi áhrif í 34. grein Sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (SSE). Hugsunin er sú að frjáls viðskipti séu allra hagur þegar til lengdar lætur og ekki sé hægt að leyfa einstökum ríkjum frávik frá reglum sem stuðla að þeim. Ísland er nú þegar bundið af samhljóða ákvæði á grundvelli 11. greinar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).


Fulltrúar EFTA-ríkjanna við undirritun EES-samningsins í Oporto í Portúgal 2. maí 1992. Með samningnum gengu reglurnar um fjórfrelsið í gildi á Íslandi.

Nokkur ljóst er hvað átt er við með magntakmörkunum í samningnum, til dæmis kvóta á innfluttar landbúnaðarvörur eins og Íslendingar kannast vel við. Ekki er jafn augljóst hvað felst í hugtakinu „ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif“ og kom það til kasta dómstóls Evrópusambandsins að skilgreina hugtakið og afmarka. Í úrskurði í máli sem kennt er við Dassonville frá árinu 1978 (mál C-8/78) skilgreindi dómstóllinn samsvarandi ráðstafanir sem allar viðskiptareglur settar af aðildaríkjunum, sem valdið geti hindrunum í viðskiptum milli ríkjanna, beint eða óbeint, í raun eða hugsanlega. Þessi skilgreining, svokölluð Dassonville-regla, hefur verið útfærð nánar í fjölda annarra dóma (svo sem Cassis de Dijon og Keck).

Á grundvelli Dassonville-reglunnar úrskurðaði Evrópudómstóllinn árið 1982 að markaðsátakið „Buy Irish“ (Kaupið írskt) væri ráðstöfun sem hefði samsvarandi áhrif og magntakmörkun á innflutning og því ósamræmanlegt Evrópulögum (mál C-249/81). Málavextir voru þeir að árið 1978 hafði ríkisstjórn Írlands hrundið af stað þriggja ára átaki til að bæta efnahagslega stöðu landsins. Í aðalatriðum snerist átakið um að fá neytendur til að kaupa innlendar vörur í stað vara frá erlendum keppinautum. Átakið fól meðal annars í sér auglýsingaherferð á vegum Írska vöruráðsins (Irish Goods Council), einkaréttarlegrar stofnunar, sem var fjármögnuð með opinberum styrkjum frá írsku ríkisstjórninni sem þar að auki skipaði stjórn ráðsins. Auglýsingaherferðin var ennfremur kostuð af írska ríkinu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taldi átakið brjóta gegn meginreglunni um frjáls vöruviðskipti og hóf málaferli gegn Írlandi fyrir brot gegn sáttmála sambandsins.


„Örugglega írskt“ (Guaranteed Irish) var slagorð írsku auglýsingaherferðarinnar.

„Buy Irish“-dómurinn þykir markverður fyrir þær sakir að ekki var um að ræða neina bindandi aðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar en að meginreglu eru það aðeins aðildarríkin en ekki einkaaðilar sem eru bundin af reglunum um fjórfrelsið. Dómstóllinn komst engu að síður að þeirri niðurstöðu að aðgerðir írska vöruráðsins væru annars vegar þess eðlis að geta haft áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna og hins vegar að persónuleg, fjárhagsleg og innihaldsleg tengsl milli Írska vöruráðsins og írsku ríkisstjórnarinnar væru af slíkum toga að ríkisstjórnin gæti ekki hlaupist undan ábyrgð á aðgerðum ráðsins.

Í rökstuðningi dómsins kemur fram að jafnvel þótt auglýsingaherferðin hafi ekki haft teljandi áhrif á verslun með innlendar vörur þá megi ekki líta framhjá því að aðgerðin var liður í átaki ríkisstjórnarinnar og var ætlað að auka verslun með innlendar vörur og draga um leið úr innflutningi sem myndi þýða minni viðskipti við önnur aðildarríki. Þar með uppfylltu málavextir Dassonville-skilgreininguna á samsvarandi ráðstöfun og var írska ríkið í kjölfarið dæmt fyrir að hafa brotið gegn 34. grein SSE.

Með dóminum mótaði Evrópudómstóllinn þá reglu að aðildarríki geti ekki skorast undan lögskyldum sínum með því að nýta sér einkaréttarlegt lögform (e. no escape into private law), það er með því að stofna fyrirtæki, eins og einnig var fjallað um í spurningunni Mætti ekki lengur bjóða upp á sértilboð fyrir Íslendinga í Bláa lónið ef Ísland gengi í ESB? Reglurnar um bann við magntakmörkunum á inn- og útflutningi og samsvarandi ráðstöfunum hafa verið túlkaðar mjög þröngt af Evrópudómstólnum enda eru þær ein meginforsenda raunverulegs frelsis í vöruviðskiptum milli aðildarríkjanna.

Með aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði ríkið bundið af 34. grein SSE á sama hátt og önnur aðildarríki. Vegna áðurnefndrar 11. greinar EES-samningsins yrði þó ekki mikil breyting á íslensku lagaumhverfi að þessu leyti. Munurinn fælist einkum í því að EES-samningurinn nær ekki til landbúnaðarvara og ekki er fullkomin fríverslun með sjávarafurðir auk þess sem undanþága Íslands frá 11. grein, um leyfi til að viðhalda magntakmörkunum á sópum og burstum, félli niður.


Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir hleypa af stað átakinu "Veljum íslenskt, og allir vinna" árið 2004.
Margir muna eflaust eftir auglýsingaherferðunum Íslenskt, já takk, frá árinu 1992, og Veljum íslenskt – og allir vinna frá 2004. Markmið þessara herferða var hið sama og „Buy Irish“-herferðarinnar – að efla kaup á innlendri framleiðslu og tryggja þannig atvinnu. Sá munur var hins vegar á íslensku herferðunum og þeirri írsku að íslensk stjórnvöld áttu ekki frumkvæði að þeim. Fyrra átakinu var ýtt úr vör af verkalýðsfélögunum í landinu og fyrir hinu seinna stóðu Samtök iðnaðarins, Bændasamtök Íslands og Alþýðusamband Íslands. Eins og áður sagði eru það ríkin en ekki einkaaðilar, eins og ofantalin samtök, sem eru bundin af fjórfrelsisreglunum. Þó er rétt að ítreka að hugtakið ríki hefur verið túlkað mjög rúmt í Evrópuréttinum og getur nægt að samtök séu að hluta til fjármögnuð af ríkinu til að falla undir hugtakið, samanber Buy Irish-dóminn sem lýst var hér á undan. Ennfremur komst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu í „Apple and Pear Development Council“-dóminum að lagaleg skylda ávaxtabænda til að borga umræddu ráði tiltekið gjald nægði til að ráðið teldist opinbert og þar með bundið af 34. grein SSE (mál C-222/82).

Á 138. löggjafarþingi Íslands, árið 2010, var borin fram tillaga til þingsályktunar um frumkvæði að almennu hvatningarverkefni til að efla innlenda framleiðslu og fjölga störfum. Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands um tillöguna segir að íslenska ríkið geti ekki lagt í átak sem hygli vörum einnar þjóðar umfram vörur annarrar því það stangist á við ákvæði EES-samningsins. Þingsályktunartillagan hefur ekki verið afgreidd.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Á vef Vinstrivaktarinnar gegn ESB segir að Evrópusambandið muni banna auglýsingar á borð við „Veljum íslenskt“ komi til aðildar. Er þetta rétt?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur15.11.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Er það rétt að auglýsingar á borð við „Veljum íslenskt“ verði bannaðar ef við göngum í ESB?“. Evrópuvefurinn 15.11.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61119. (Skoðað 22.11.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela