Spurning

Ég sat í veiðikofa um daginn eftir rólegan rjúpnadag og þá var fullyrt að við inngöngu í ESB mundu veiðar á rjúpu og svartfugli verða bannaðar. Er þetta rétt?

Spyrjandi

Haraldur Dean Nelson

Svar

Hugsanleg innganga Íslands í ESB mun engu breyta um veiðar á rjúpu hér á landi. Öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins er heimilt að leyfa veiðar á rjúpu á yfirráðasvæði sínu en aðildarríki hafa leyfi til að kveða á um strangari verndarákvæði. Íslensk stjórnvöld gætu þess vegna áfram ákveðið hvort og hvenær veiðar á rjúpu væru leyfðar. Þær tegundir svartfugla sem heimilt er að veiða á Íslandi eru alfriðaðar í Evrópusambandinu. Vilji stjórnvöld óbreytt fyrirkomulag veiða á þessum tegundum, ef til aðildar Íslands að sambandinu kæmi, þyrftu þau að semja um það í viðræðunum við ESB.

***


Rjúpa
Áður hefur verið fjallað um reglur Evrópusambandsins um vernd villtra fugla í svari við spurningunni Yrðu veiðar á lóu og spóa leyfðar hér á landi í kjölfar inngöngu í ESB? Eins og þar kemur fram er rjúpa (Lagopus mutus) ein þeirra tegunda sem öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins er heimilt að leyfa veiðar á samkvæmt viðauka II-A við svonefnda fuglatilskipun (nr. 2009/147).

Vegna slæmrar stöðu íslenska rjúpnastofnsins voru veiðar á rjúpu einungis leyfðar í níu daga árið 2011 (sjá reglugerð 920/2011). Ennfremur er í gildi sölubann á rjúpu og rjúpnaafurðum og ákveðið svæði á Suðvesturlandi er friðað fyrir veiði. Hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi ekki leiða til þess að slíkum ráðstöfunum til verndar rjúpnastofninum yrði aflétt, þar sem aðildarríkjum ESB er heimilt að kveða á um strangari verndarákvæði en fuglatilskipunin krefst, samanber 14. grein.

Svartfuglar eru strandfuglar sem lifa á opnu hafi, í Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi, og koma aðeins í land til að makast og verpa. Fimm tegundir af ætt svartfugla (Alcidae) má veiða á Íslandi. Þetta eru álka (Alca torda), langvía (Uria aalge), stuttnefja (Uria lomvia), teista (Cepphus grylle) og lundi (Fratercula arctica). Stór hluti evrópsks varpstofns þessara fimm tegunda verpir við Ísland en þær eiga einnig varpheimkynni á Grænlandi, Írlandi og Bretlandi svo og í Færeyjum, Noregi og Finnlandi en það er nokkuð mismunandi eftir tegundum. Lesa má nánar um þessar tegundir á Fuglavefnum.


Lundi
Engin þessara tegunda er nefnd í viðauka II-A við fuglatilskipunina í lista um þær tegundir sem öllum aðildarríkjum ESB er heimilt að leyfa veiðar á, og ekki heldur í viðauka II-B þar sem taldar eru upp þær tegundir sem sum aðildarríki geta leyft að veiða á sínu umráðasvæði. Þessar tegundir svartfugla eru því alfriðaðir í Evrópusambandinu samkvæmt tilskipuninni. Ef til þess kemur að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu þyrftu stjórnvöld því að semja um heimild til áframhaldandi veiða á svartfugli.

Hlutverk fuglatilskipunarinnar er að tryggja vernd allra fuglategunda sem eiga náttúruleg heimkynni á yfirráðasvæði aðildarríkja ESB. Ástæðan fyrir því að heimilt er að leyfa veiðar á rjúpu í ríkjum ESB er sú að þar er ástand stofnsins (stærð, landfræðileg dreifing og æxlunartíðni) almennt talið vera gott. Til að heimila áframhaldandi svartfuglsveiðar á Íslandi þyrfti framkvæmdastjórn ESB að horfa til ástands stofnanna hér við land, sem er annað en í ríkjum ESB sem flest eru fjarri náttúrulegum heimkynnum svartfugla.

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu kemur fram að við mótun samningsmarkmiða skuli meta hvernig halda megi opnum möguleikum á að halda áfram veiðum á tegundum eins og lunda með vísan til aldalangrar hefðar, þrátt fyrir friðun að öðru leyti í ESB. Telur meirihlutinn jafnframt mikilvægt að stefnt verði að því að forræði þessara mála verði sem mest í höndum íslenskra stjórnvalda.

Samkvæmt viðauka IV við fuglatilskipunina er ennfremur bannað að veiða fugla í net. Hér á landi er leyfilegt að nota háf við veiðar á svartfugli, það er lunda, álku, langvíu og stuttnefju, og fyrir því rík hefð á tilteknum landsvæðum sérstaklega við lundaveiði. Í greinargerð til aðalsamninganefndar um umhverfismál er tekið fram að fordæmi sé fyrir því að aðildarríki hafi fengið undanþágu vegna veiðiaðferða, til dæmis hafi Finnar og Svíar fengið undanþágu til að veiða fugla í snörur.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Ég sat í veiðikofa um daginn eftir rólegan rjúpnadag og var að ræða við félaga mína um ESB. Sjálfur er ég mjög hlynntur því að fá að kjósa um ESB aðild og því að aðildarviðræður við sambandið verði kláraðar. En eitt kom upp í þessum samræðum sem ég vil spyrja um. Þarna var fullyrt við mig að við inngöngu í ESB myndu allar veiðar á fuglum (rjúpu og svartfugli) verða bannaðar. Er þetta rétt?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 7.12.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Ég sat í veiðikofa um daginn eftir rólegan rjúpnadag og þá var fullyrt að við inngöngu í ESB mundu veiðar á rjúpu og svartfugli verða bannaðar. Er þetta rétt?“. Evrópuvefurinn 7.12.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61415. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Frank Franksson 9.12.2011

Hér er talað um að tegundir séu alfriðaðar og að sækja þurfi um heimild [undanþágu] til að fá að halda veiðum áfram.

Hvernig fer þetta fram? Er sótt um "varanlega" heimild við inngöngu? Eða er sótt um heimild, sem veitt er í ákveðinn tíma og síðan sótt um að hún verði framlengd? Er sótt um heimild til stofnunar eða hafa öll ríki eitthvað um þetta að segja? Geta til dæmis Bretar beitt synjunarvaldi gegn lundaveiðum af tilfinningalegum ástæðum?