Spurning

Hvernig er samskiptum ESB og Kína hagað?

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Samskipti ESB og Kína byggja á viðskipta- og samstarfssamningi frá árinu 1985. Framan af var megináhersla lögð á viðskiptasamstarf en í seinni tíð hafa mennta- og menningarmál, umhverfismál, mannréttindamál sem og utanríkis- og öryggismál orðið stærri hluti af samstarfinu. Evrópusambandið er stærsti viðskiptaaðili Kína, sem er næststærsti viðskiptaaðili ESB á eftir Bandaríkjunum. ESB flytur þó mest inn af vörum frá Kína. Markmið stefnu Evrópusambandsins gagnvart Kína er meðal annars að stuðla að breytingum sem gætu leitt til opnara samfélags byggðu á lögum og reglum og virðingu fyrir mannréttindum. Þá hefur ESB einnig að markmiði að hvetja til aðlögunar Kína að hinu alþjóðlega efnahagskerfi og styðja við efnahags- og félagslegar endurbætur í landinu.

***

Evrópusambandið hóf formleg samskipti við Kína árið 1975 en í dag byggjast samskiptin á viðskipta- og samstarfssamningi frá árinu 1985 (e. EU-China Trade and Cooperation Agreement). Evrópusambandið er stærsti viðskiptaaðili Kína, sem er næststærsti viðskiptaaðili ESB á eftir Bandaríkjunum. ESB flytur þó mest inn af vörum frá Kína. Vöruviðskipti milli ESB-ríkja og Kína hafa farið vaxandi undanfarin ár en fjárfestingar hafa verið takmarkaðar í samanburði. Sjá nánar í svari við spurningunni Gætu kínversk fyrirtæki fjárfest á Íslandi án sérstakra undanþága ef við göngum í ESB?


Sendinefnd Kínverja á leiðtogafundi ESB og Kína í Brussel í október 2010.

Leiðtogar ESB og Kína hittast á árlegum leiðtogafundum en einnig eiga sér reglulega stað skoðanaskipti um stjórnmál, viðskipti og efnahagsmál. Þar á meðal eru samræður um 50 ólíka málaflokka á sviði umhverfismála, iðnaðarstefnu og mennta- og menningarmála. Mannréttindi eru bæði rædd á reglulegum pólitískum umræðufundum og eins á sérstökum umræðufundum um mannréttindi, sem hafa verið haldnir á hálfs árs fresti frá árinu 1995. Árið 2010 tóku ESB og Kína upp tvíhliða samskipti á sviði utanríkis- og öryggismála sem og á sviði alþjóðlegra áskorana, þar á meðal loftlagsbreytinga og enduruppbyggingar alþjóðlega efnahagskerfisins.

Þegar þetta er skrifað í janúar 2012 var síðasti leiðtogafundur ESB og Kína haldinn í Brussel í október 2010. Í sameiginlegri yfirlýsingu lýstu leiðtogarnir yfir áhuga á að hefja nýtt tímabil í samskiptum ESB og Kína. Meðal annars var samþykkt að auka viðræður um hvernig væri hægt að styrkja tvíhliða vöruviðskipti og beina fjárfestingu milli ESB og Kína. Þá voru leiðtogarnir sammála um að þróa áfram samstarf sitt á sviði loftlagsbreytinga og orkumála. Í því sambandi skal sérstök áhersla lögð á endurnýjanlega orku, orkunýtingu, orkunet og hreina kolatækni. Loks lýstu leiðtogarnir yfir stuðningi við verkefnið ESB og Kína fyrir ungt fólk 2011 (EU-China Year of Youth 2011) en markmið verkefnisins var að stuðla að umræðum milli menningarheimanna tveggja og styrkja gagnkvæman skilning og vináttu milli ungra Kínverja og Evrópubúa.


Frá opnunarfundi samstarfsverkefnis ESB og Kína fyrir ungt fólk - EU-China Year of Youth 2011.
Meginmarkmið stefnu Evrópusambandsins gagnvart Kína er að styrkja samstarf þeirra á milli með auknum pólitískum samræðum, bæði á grunni tvíhliða samskipta og eins á alþjóðavettvangi. Sambandið vill hvetja til aðlögunar Kína að hinu alþjóðalega efnahagskerfi með því að stuðla að því að Kína verði fullgildur aðili að alþjóðlega viðskiptakerfinu. Einnig vill ESB stuðla að breytingum í Kína, sem gætu leitt til opnara samfélags sem væri byggt á lögum og reglum og virðingu fyrir mannréttindum. Þá hefur ESB það markmið að styðja við efnahags- og félagslegar endurbætur í landinu. Loks vill ESB styrkja stöðu sambandsins í Kína.

Stefna ESB gagnvart Kína fyrir tímabilið 2007-2013 er tilgreind nánar í sérstöku áætlunarskjali, EU-China Country Strategy Paper. Þar eru meginatriði samstarfs ESB og Kína sett fram en um er að ræða fjárhagslegan stuðning ESB við málaflokka sem umræðufundir ESB og Kína taka til. Þar á meðal eru tvíhliða viðræður um vöruviðskipti, viðskipti almennt, efnahags- og félagslega þróun í Kína og stuðning við innri þróun landsins. Þá er fjárhagslegum stuðningi einnig varið til málefna sem tengjast loftlagsbreytingum og umhverfis- og orkumálum. Loks er stuðningur veittur til þróunar mannauðs í Kína. Meðal annarra verkefna má nefna verkefnið Understanding China, sem ætlað er að dýpka þekkingu evrópskra fyrirtækja á Kína.

Í fyrri áætlun Evrópusambandsins gagnvart Kína, fyrir tímabilið 2005-2006, var lögð sérstök áhersla á stuðning við borgaralegt samfélag í Kína, vernd hugverka, styrkingu kínversks regluverks, þjálfun stjórnenda í viðskiptum og þróun á grundvelli jafnræðis.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.1.2012

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvernig er samskiptum ESB og Kína hagað?“. Evrópuvefurinn 13.1.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61666. (Skoðað 23.11.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela