Spurning

Hver eru launakjör samninganefndar Íslands og samningahópa í aðildarviðræðunum við ESB?

Spyrjandi

Gunnlaugur Ingvarsson

Svar

Fulltrúar og starfsmenn í samninganefnd Íslands og samningahópum vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB fá „ekki sérstaklega greitt fyrir störf sín“. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi. Það þýðir ekki að starfsmannakostnaður íslenska ríkisins vegna aðildarviðræðnanna sé enginn heldur einungis að ekki sé um að ræða sérstakar þóknanir umfram þau laun sem þeir þiggja fyrir sín hefðbundnu störf. Til að svara því nákvæmlega hver sá kostnaður er þyrftu að liggja fyrir upplýsingar um launataxta og starfshlutfall umræddra aðila fyrir samninganefnd og hópana. Hin hefðbundnu störf þessara aðila hljóta enn fremur að liggja niðri, að meira eða minna leyti, eða dreifast á aðra starfsmenn á meðan þeir sinna störfum fyrir samninganefnd og hópana. - Í kostnaðarmati utanríkisráðuneytisins vegna aðildarviðræðnanna er starfsmannakostnaður ekki tilgreindur sérstaklega. Matið, sem var byggt á þeirri forsendu að viðræðunum mundi ljúka um mitt ár 2011 en hefur enn ekki verið uppfært, var gagnrýnt af fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins fyrir að vera mjög gróft og með víðum skekkjumörkum.

***


Stefán Haukur Jóhannesson.
Á grundvelli þingsályktunar nr. 1/137 frá árinu 2009 skipaði utanríkisráðherra samninganefnd Íslands og tíu samningahópa vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB. Í samninganefndinni eiga sæti formenn allra samningahópanna, Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður Íslands, sem stýrir nefndinni, auk sjö annarra nefndarmanna. Samningahóparnir eru skipaðir starfsmönnum stofnana og ráðuneyta og fulltrúum hagsmunaaðila og sérfræðinga, alls rúmlega 200 manns. Lista yfir meðlimi og starfsmenn samninganefndar og samningahópanna sem og upplýsingar um tilnefningaraðila er hægt að nálgast í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur alþingismanns um nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa.

Í svarinu kemur einnig fram að starfsmenn ríkisstofnana og ráðuneyta sem og fulltrúar sem tilnefndir eru af hagsmunaaðilum fá ekki sérstaklega greitt fyrir störf sín í samninganefnd eða í samningahópum. Það er að segja þeir fá enga sérstaka þóknun umfram þau laun sem þeir þiggja fyrir sín hefðbundnu störf. Ekki er hægt að segja til um hver sá launakostnaður er, enda er erfitt að áætla einhvers konar starfshlutfall umræddra aðila fyrir samninganefnd og hópana.

Að sjálfsögðu er þó hægt að leika sér með tölur. Ef um 200 manns sem hafa að meðaltali 500 þúsund í laun á mánuði, að meðtöldum launatengdum gjöldum, starfa að tileknu verkefni í 10% starfshlutfalli, þá væri launakostnaður við það verkefni 10 milljónir á mánuði. Ef starfhlutfall starfsmannanna er 70% yrði launakostnaðurinn 70 milljónir á mánuði, og svo koll af kolli. Það skal auðvitað áréttað að þetta er einfaldlega leikur að tölum sem ekkert er hægt að fullyrða um þar sem nauðsynlegar forsendur slíkra útreikninga liggja ekki fyrir.

Sjálfstætt starfandi sérfræðingar, sem og sérfræðingar frá háskólasamfélaginu, fá hins vegar greitt fyrir störf sín samkvæmt ákvörðun þóknananefndar. Þetta á við um sex meðlimi í samninganefnd og fá þeir á bilinu 150.000 til 300.000 kr. í mánaðarlegar greiðslur. Auk þessa ákvað þóknananefnd að þremur meðlimum í samningahópnum um utanríkismál, öðrum þremur úr samningahópnum um gjaldmiðilsmál og einum úr samningahópnum um lagamál skyldu greiddar 15.000 kr. fyrir hvern fund sem þeir sætu. Eitt erindi er enn í vinnslu hjá þóknananefnd en það varðar starfskjör varaformanns eins samningahópsins.

Í júlí 2009 skipaði utanríkisráðherra samráðshóp í tengslum við aðildarviðræðurnar við ESB sem mun starfa þar til viðræðunum lýkur. Í hópnum eru 24 einstaklingar en lista yfir meðlimi hans má nálgast á upplýsingasíðu utanríkisráðuneytisins um aðildarviðræður Íslands að ESB, viðræður.is. Hlutverk samráðshópsins er að eiga reglulega fundi með aðalsamningamanni og fulltrúum í samninganefnd Íslands þar sem veittar eru upplýsingar um framvindu viðræðnanna og samningsafstöðu Íslands í einstökum samningsköflum. Þessum upplýsingum er samráðshópnum ætlað að miðla til almennings og stuðla þannig að málefnalegri umræðu um hagsmuni Íslands í viðræðunum og áhrif mögulegrar aðildar Íslands að ESB. Þá getur samráðshópurinn kallað til frekara samráðs fulltrúa stjórnmálaflokka, félagasamtaka, hagsmunasamtaka og einstaklinga um efnisatriði sem tengjast samningaviðræðunum.


Formaður samráðshópsins Salvör Nordal ásamt varaformönnunum Ágústi Sigurðssyni og Guðna Th. Jóhannessyni.

Fulltrúar samráðshópsins fá enga sérstaka þóknun fyrir störf sín að undanskildum formanni og varaformönnum. Samkvæmt ákvörðun þóknananefndar fær formaðurinn greiddar 150.000 kr. og varaformennirnir tveir 100.000 kr. á mánuði.

Í kostnaðarmati utanríkisráðuneytisins vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB er reiknað með að beinn kostnaður utanríkisráðuneytisins og annara ráðuneyta verði samtals 400 milljónir króna á árunum 2009 til 2012. Matið byggðist á þeirri áætlun að aðildarviðræðunar mundu taka um það bil 18 mánuði og að þeim yrði lokið um mitt ár 2011. Það er því ljóst að gera þarf nýja áætlun vegna kostnaðar sem mun falla til eftir árslok 2012. Í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis 2011-2012 segir um kostnaðinn við samningaferlið að áætlunin sem slík hafi staðist en þó þannig að kostnaður hafi orðið minni á fyrri hluta tímabilsins en meiri á síðari hluta.

Í kostnaðarmatinu koma engar upplýsingar fram um áætlaða stærð einstakra kostnaðarþátta, svo sem starfsmannakostnaðar eða aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Í minnisblaði frá utanríkisráðuneytinu til utanríkismálanefndar Alþingis um kostnaðarmat vegna aðildarviðræðnanna er lögð á það áhersla að koma skuli í veg fyrir verulega aukningu starfsmannakostnaðar með hagræðingu og forgangsröðun verkefna í ráðuneytinu. Það var hins vegar niðurstaða yfirferðar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á kostnaðarmatinu strax árið 2009 að matið væri mjög gróft og með víðum skekkjumörkum og að mjög mikinn fjárhagsaga þyrfti til að það gæti staðist.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Hver eru launa- og starfskjör samninganefndar Íslands gagnvart ESB og undirnefnda? Þá á ég við heildarlaun með yfirvinnugreiðslum, og sundurliðuðum dagpeningum, risnu, bílahlunnindum og öðrum fríðindum. Einnig sérstaklega laun formanns og annarra samninganefndarmanna og undirnefnda sem starfa að einstökum málaflokkum.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur11.5.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hver eru launakjör samninganefndar Íslands og samningahópa í aðildarviðræðunum við ESB?“. Evrópuvefurinn 11.5.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62285. (Skoðað 22.11.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er ein athugasemd Fela athugasemd

Gunnlaugur Ingvarsson 12.5.2012

Jæja loksins eftir tveggja mánaða bið og eftirrekstur kom svarið frá ykkur við þessari spurningu minni.

Takk fyrir það svo langt sem það nær.

Þetta svar ykkar veldur mér gríðarlegum vonbrigðum því að í raun er þetta ekkert svar heldur aðeins langloka um ekki neitt.

En ykkur er náttúrulega vorkunn að eiga við þetta ógegnsæja og flókna felukerfi sem byggt hefur verið upp í pukri og felum í kringum þennan óskapnað til þess að ekki sé nokkur leið að finna út úr því hvað þessi ESB-umsókn kostar þjóðina í raun og sann.

Það er alveg makalaust hvernig hægt er pukrast svona með þetta og þagga niður og flækja hlutina í ógegnsæi.

Að þetta skuli vera sú opna og "gegnsæja" stjórnsýsla sem stjórnvöld voga sér að bjóða þjóðinni upp á, nú árið 2012.

Ætli sé ekki hægt að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á þessu og koma með þetta allt upp á borðið. Eða ætli að Ríkisendurskoðun gæti gert þetta?