Spurning

Af hverju er haldið upp á Evrópudaginn 9. maí?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Hinn 9. maí árið 1950 lýsti Robert Schuman, þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, því yfir að Frakkar vildu byggja upp nýja Evrópu samstöðu og friðar. Þetta ætluðu Frakkar að gera ásamt V-Þýskalandi og öðrum þeim Evrópulöndum sem vildu taka þátt. Schuman lagði til að stofnuð yrðu yfirþjóðleg samtök sem færu með forræði allra kola- og stálauðlinda í aðildarlöndunum og kom þar með á framfæri hugmynd franska embættismannsins Jean Monnet. Schuman-yfirlýsingin, sem síðan hefur verið kölluð svo, er jafnan talin marka upphaf samrunaþróunarinnar í Evrópu og mætti því kalla fæðingarstund Evrópusambandsins. Um stofnun ESB er fjallað í nokkrum svörum á Evrópuvefnum eins og sjá má hér til hliðar.


Evrópudeginum 2011 fagnað á Möltu.

Á fundi leiðtogaráðs Evrópubandalaganna árið 1985 var ákveðið að halda Evrópudaginn hátíðlegan þann 9. maí á ári hverju og minnast þannig Schuman-yfirlýsingarinnar. Ákvörðunin var tekin að tillögu svonefndrar nefndar fyrir Evrópu borgaranna sem hafði verið falið það verkefni að leggja fram tillögur um hvernig mætti færa bandalögin nær borgurunum.

Frá því árið 1986 hefur Evrópudagurinn verið tilefni margvíslegra samkoma og viðburða í aðildarríkjunum en upplýsingaskrifstofur helstu stofnana ESB, Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnarinnar, sem reknar eru í öllum aðildarríkjum sambandsins, eru jafnan í fararbroddi við skipulagningu dagskrárinnar. Megintilgangur Evrópudagsins er að ná til borgara aðildarríkjanna og upplýsa þá um með hvaða hætti ákvarðanir Evrópusambandsins hafa áhrif á daglegt líf þeirra og hvernig þeir geta haft áhrif á ákvarðanir ESB.

Annar Evrópudagur er haldinn hátíðlegur þann 5. maí en það er Evrópudagur Evrópuráðsins, sem var stofnað þennan dag árið 1949 og hefur verið fagnað á hverju ári frá því 1964.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.5.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Af hverju er haldið upp á Evrópudaginn 9. maí?“. Evrópuvefurinn 9.5.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62576. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela