Spurning
Alþjóðabankinn
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Alþjóðabankinn (e. World Bank) var stofnaður árið 1944, ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, í kjölfar Bretton Woods fundarins þar sem 49 af ríkustu löndum heims komu sér saman um leikreglur í alþjóðaviðskiptum. Endurskipurleggja þurfti fjármálakerfi heimsins og tryggja heilbrigð viðskipti á milli þjóða á grundvelli frjáls og trausts gjaldeyriskerfis. Hlutverk Alþjóðabankans var að stuðla að efnahagslegri uppbyggingu í Evrópu með lánveitingum til opinberra framkvæmda en hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var að stuðla að stöðugu gengi gjaldmiðla og greiða fyrir frjálsum gjaldeyrisviðskiptum. Hlutverk Alþjóðabankans í dag er að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu í þróunarlöndum. Bankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim aðstoð í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Bankinn starfar þó einnig á öðrum sviðum svo sem með tryggingar. Alþjóðabankinn samanstendur af fimm stofnunum:- Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar (e. International Bank for Reconstruction and Development, IBRD).
- Alþjóðaframfarastofnunin (e. International Development Association, IDA).
- Alþjóðalánastofnunin (e. International Finance Corporation, IFC).
- Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (e. Multilateral Investment Guarantee Agency, MIGA).
- Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna (e. International Center for Settlement of Investment Disputes, ICSID).
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 7.9.2012
Flokkun:
Efnisorð
Alþjóðabankinn Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn Bretton Woods Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar Alþjóðaframfarastofnunin Alþjóðalánastofnunin Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna
Tilvísun
Evrópuvefur. „Alþjóðabankinn“. Evrópuvefurinn 7.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63186. (Skoðað 21.11.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela