Spurning

Sjávarútvegssjóður Evrópu

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Sjávarútvegssjóður Evrópu (e. European Fisheries Fund, EFF) hóf starfsemi árið 2007. Samið var um stofnun hans við endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins árið 2002 en sjóðurinn tók við af svonefndri fjármögnunarleið við þróun í sjávarútvegi (e. Financial Instrument for Fisheries Guidance, FIFG).

Meginmarkmið sjávarútvegssjóðsins eru að bæta samkeppnishæfni sjávarútvegs í aðildarríkjum ESB og aðstoða við að gera hann umhverfislega, efnahagslega og félagslega sjálfbæran. Sjóðnum er enn fremur ætlað að styðja við almenn markmið sjávarútvegsstefnunnar, eins og þeirra er getið í 39 gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (SSE).

Styrkjum úr sjávarútvegssjóðnum er veitt á fimm forgangssviðum:
  • Til aðlögunar fiskiskipaflotans, einkum til að draga úr sóknargetu.
  • Til fiskeldis, veiða í ferskvatni, vinnslu og markaðssetningar sjávarfangs og fiskeldisafurða.
  • Til sameiginlegra verkefna, svo sem á sviði verndunar lífríkis hafsins, þróunar nýrra markaða, kynningarátaka og frumkvöðlaverkefna, sem eru víðtækari en svo að eitt fyrirtæki sjái sér hag í að fjármagna þau.
  • Til sjálfbærar þróunar sjávarbyggða, í þeim tilgangi að auka efnahagslega og félagslega hagsæld íbúa.
  • Til tækniaðstoðar til aðildarríkjanna til að stýra sjávarútvegssjóðnum.

Áður en sjóðurinn hóf starfsemi lögðu aðildarríkin fram landsáætlun (e. National Strategic Plan) á sviði sjávarútvegs til sjö ára þar sem greint var frá stöðu sjávarútvegs í aðildarríkinu og mat lagt á hvaða aðgerðir væru nauðsynlegar til að ná markmiðum sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Hvert aðildarríki fyrir sig ákveður hversu miklir, ef nokkrir, styrkir eru veittir á hverju sviði en ríkin hafa talsvert svigrúm til að móta styrkáætlanir sínar að því skilyrði uppfylltu að engir styrkir auki veiðigetu flotans.

Meginreglan er sú að ríki eða sveitarfélög þurfa að leggja jafn mikið fjármagn til verkefna og veitt er úr sjávarútvegssjóðnum en mótframlag styrkþega getur verið misjafnt eftir verkefnum og aðstæðum á þeim landsvæðum þar sem styrkurinn er veittur.

Á tímabilinu 2007-2013 hefur sjóðurinn haft 4,5 milljarða evra til ráðstöfunar, á verðlagi ársins 2012. Þau ríki sem mestan stuðning hafa fengið úr sjóðnum á tímabilinu eru Spánn og Pólland en yfirlit um úthlutanir úr sjóðnum er að finna á upplýsingablaði framkvæmdastjórnarinnar um sjóðinn.

Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram drög að stofnun nýs sjávarútvegssjóðs (e. European Maritime and Fisheries Fund, EMFF) sem hluta af yfirstandandi endurskoðun sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Nýja sjóðnum er ætlað að leysa núverandi sjóð af hólmi og verður starfræktur á tímabilinu 2014-2020. Samkvæmt tillögunum er sjóðnum ætlað víðtækt hlutverk við framkvæmd sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Endanlegrar útfærslu sjóðsins er hins vegar ekki að vænta fyrr en endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar hefur verið lokið.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela