Spurning

Hver var niðurstaða skýrslu Seðlabankans um gjaldmiðilsmál með tilliti til þess hvort það sé hægt eða skynsamlegt að taka einhliða upp erlenda mynt?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Með tilliti til ofangreindrar spurningar var niðurstaða skýrslu Seðlabanka Íslands um gjaldmiðils- og gengismál sú að hægt er að taka einhliða upp erlenda mynt og það á frekar skömmum tíma. Hins vegar telja skýrsluhöfundar að einhliða upptaka annars gjaldmiðils sé ekki skynsamlegur valkostur fyrir Ísland.

***

Í skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum er meðal annars fjallað um möguleika Íslands á að taka upp erlendan gjaldmiðil. Um einhliða upptöku annars gjaldmiðils er fjallað í 19. kafla skýrslunnar. Það væri hægt að taka einhliða upp annan gjaldmiðil sem lögeyri á Íslandi á einfaldan og skjótan hátt, ólíkt inngöngu í myntbandalag sem tæki nokkur ár. Þó er varað við því í skýrslunni að taka upp annan gjaldmiðil án þess að hafa nokkurn aðdraganda að framkvæmdinni þar sem fjármálalegu öryggi landsins yrði annars teflt í tvísýnu.


Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og ritstjóri skýrslunnar, og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, við kynningu á skýrslunni 17. september 2012.

Tæknilega séð væri hægt að skipta um gjaldmiðil á tiltölulega skömmum tíma. Það þyrfti að skipta út öllu grunnfé fyrir nýjan gjaldmiðil og ákveða magn gjaldeyrisforða í hinum nýja gjaldeyri sem seðlabankinn þyrfti. Með upptöku annars gjaldmiðils mundi seðlabankinn hætta að vera til í hefðbundnu formi þar sem skuldir hans og eignir yrðu að skuldum og eignum ríkissjóðs. Hann mundi ekki lengur sjá um útgáfu eigin gjaldmiðils né móta innlenda peningastefnu. Hann gæti þó starfað áfram og sinnt flestum þeim hlutverkum sem hefðbundnir seðlabankar sinna. Frá og með þeim degi sem erlendi gjaldmiðillinn færi í almenna umferð þyrftu þjónustuaðilar og fyrirtæki að vera búin að verðmerkja allar vörur og þjónustu í nýja gjaldmiðlinum á verði sem væri sambærilegt því sem var fyrir gjaldmiðilsskiptin. Hægt væri að undirbúa breytinguna með tvöfaldri verðlagningu í einhvern tíma áður en eiginleg gjaldmiðilsskipti ættu sér stað.

Einhliða upptaka alþjóðlega viðurkennds gjaldmiðils við litla og stöðuga verðbólgu mundi leiða til þess að verðbólga og skammtímavextir á Íslandi löguðust að því sem gerist á því myntsvæði sem yrði fyrir valinu. Áhættuálag mundi að öllum líkindum lækka þótt ekki sé víst að innlendir vextir færu jafn lágt og vextir á kjarnasvæðinu. Viðskiptakostnaður mundi þar að auki lækka sem mundi að öllum líkindum leiða til aukinnar erlendrar fjárfestingar og aukinna utanríkisviðskipta fyrir Ísland.

Hins vegar mundi töluverður viðbótarkostnaður fylgja því að skipta út gamla gjaldmiðlinum fyrir þann nýja. Bankakerfið byggi þar að auki ekki lengur við lausafjárfyrirgreiðslu eigin seðlabanka og engin lánveitandi til þrautavara yrði heldur til staðar. Ótryggur aðgangur að gjaldmiðlinum sem tekinn yrði upp og án trúverðugs lánveitanda í neyð í viðkomandi gjaldmiðli mundi skapast hætta á að innlent fjármálakerfi yrði óvarið fyrir áhlaupum innlánseigenda og almennum fjármagnsflótta. Ein lausn við þeim vanda væri að bankakerfið á Íslandi samanstæði að mestu af erlendum bankaútibúum sem hefðu sinn eigin lánveitanda til þrautavara eða að innlendir bankar hefðu opnar lánalínur við erlenda banka til að mæta lausafjárfyrirgreiðslu. Ekki væri þó hægt að tryggja lausafjárfyrirgreiðslu í gegnum erlenda banka en hún gæti jafnframt reynst dýr.

Einhliða upptaka erlends gjaldmiðils mundi einnig gera það að verkum að Ísland hefði ekki lengur sjálfstæða peningastefnu og gæti því ekki jafnað sérstakar innlendar hagsveiflur. Aftur á móti benda rannsóknir til þess að sveigjanlegt gengi auki frekar á sveiflurnar en mildi þær og því gæti kjölfestan sem upptaka erlends gjaldmiðils veitir, eða þátttaka í myntbandalagi, reynst frekar kostur en galli.

Afstaða skýrsluhöfunda er frekar skýr varðandi það hvort skynsamlegt sé fyrir Ísland að taka einhliða upp annan gjaldmiðil. Við núverandi aðstæður fjármagnshafta og þar sem þjóðarbúið er töluvert skuldsett í erlendum gjaldeyri gæti upptaka annars gjaldmiðils verið mikið hættuspil. Þetta á sérstaklega við um einhliða upptöku evru, sem yrði þvert á vilja Evrópusambandsins. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er því ekki talin skynsamlegur valkostur fyrir Ísland.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.12.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hver var niðurstaða skýrslu Seðlabankans um gjaldmiðilsmál með tilliti til þess hvort það sé hægt eða skynsamlegt að taka einhliða upp erlenda mynt?“. Evrópuvefurinn 21.12.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63505. (Skoðað 23.11.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela