Spurning

Hvað er embættismannakvóti Evrópusambandsins og hvaða reglur gilda um hann?

Spyrjandi

Georg Birgisson

Svar

Í spurningunni felst líklega skírskotun til umræðna sem áttu sér stað á Alþingi í byrjun nóvember þegar Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins spurði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra hver embættismannakvóti Íslands yrði við hugsanlega inngöngu í Evrópusambandið. Staðreyndin er þó sú að engar reglur eru til um sérstaka embættismannakvóta aðildarríkja. Meginreglan við ráðningar starfsmanna til stofnana Evrópusambandsins er að tekið sé mið af hæfni einstaklinga en ekki þjóðerni. Venjan er þó sú að heimilaðar séu tímabundnar undantekningar frá þessari reglu þegar ný aðildarríki ganga í sambandið.

***

Í reglum Evrópusambandsins um embættismenn og vinnuskilyrði annarra starfsmanna (nr. 62/31/EEC) segir að starfsmenn skuli ráðnir á eins breiðum landafræðilegum grunni meðal aðildarríkja sambandsins og mögulegt er (1. mgr. 27. gr.). Annars staðar í sömu reglugerð segir hins vegar að tilnefningaryfirvöld skuli aðeins skipa embættismenn með hagsmuni viðkomandi stofnunar að leiðarljósi og án tillits til þjóðernis (1.mgr. 7.gr.) og enn fremur að engar stöður megi taka frá fyrir þegna tiltekins aðildarríkis (3. mgr. 27. gr.). Þessar reglur hafa verið túlkaðar svo fyrir dómi að aðeins megi taka tillit til þjóðernis til að gera greinarmun á umsækjendum sem eru jafn hæfir. Almenna reglan er því sú að starfsmenn stofnana Evrópusambandsins skulu ráðnir á grundvelli hæfni en ekki þjóðernis. Aðildarríki eiga þar af leiðandi engan rétt á tilteknum fjölda starfsmanna af sínu þjóðerni (eða "embættismannakvóta") við stofnanir sambandsins.

Þegar ný aðildarríki ganga í Evrópusambandið eru þó jafnan gerðar undantekningar á þessum meginreglum með reglugerðum sem gilda í tiltekinn tíma. Við stóru stækkunina 1. maí 2004, þegar 10 ný aðildarríki gengu í sambandið, var til að mynda samþykkt undanþága sem gilti til loka ársins 2010 og heimilaði að umsækjendur frá nýju aðildarríkjunum yrðu teknir fram yfir aðra.

Framkvæmdastjórn ESB hefur jafnan sett sér sín eigin ráðningarmarkmið fyrir hvert nýtt aðildarríki á því tímabili sem undanþága er veitt frá almennu reglunum um ráðningar. Þannig mat hún það til að mynda svo að í kjölfar stækkunarinnar árið 2004 yrði þörf á 3.900 nýjum starfsmönnum, einkum til að tryggja að tungumálakunnátta og sérfræðiþekking frá viðkomandi löndum yrði til staðar innan stofnunarinnar. Sjálfviljug setti framkvæmdastjórnin sér því það markmið að af þessum 3900 starfsmönnum skyldu um það bil 3500 ráðnir frá nýju aðildarríkjunum.

Við ákvörðun ráðningarmarkmiða fyrir hvert nýtt aðildarríki notar framkvæmdastjórnin þrjú viðmið:

  1. Íbúafjölda, sem er hlutlægasta viðmiðið.
  2. Vægi atkvæða í ráðinu; og
  3. Fjölda sæta á Evrópuþinginu.

Starfsmannahlutfall hvers nýs aðildarríkis er þannig reiknað út frá hlutfallslegu vægi þess í sambandinu í heild miðað við þessa þrjá þætti. Í töflunni hér að neðan má sjá ráðningarmarkmið framkvæmdastjórnarinnar eftir löndum í þeim ríkjum sem gengu í sambandið 2004 og 2007 sem og í Króatíu, sem varð 28. aðildarríki sambandsins 1. júlí 2013.

Aðildarríki Ráðningarmarkmið
Malta 83
Kýpur 110
Eistland 117
Slóvenía 134
Lettland 155
Litháen 241
Slóvakía 279
Ungverjaland 489
Tékkland 492
Pólland 1341
Búlgaría 332
Rúmenía 645
Króatía 249

Á myndinni hér að neðan má sjá skiptingu starfsmanna framkvæmdastjórnarinnar eftir aðildarríkjum. Tölurnar eru frá árinu 2011 þegar heildarfjöldi starfsmanna framkvæmdastjórnarinnar var 23.812. Til samanburðar sýnir myndin einnig ráðningarmarkmið framkvæmdastjórnarinnar á undanþágutímabilum ríkjanna 12 sem gengu í Evrópusambandið árin 2004 og 2007 og Króatíu. Eins og sjá má þegar smellt er á myndina hafði markmiðunum alls staðar verið náð nema á Kýpur, í Póllandi og Tékklandi. Myndin sýnir einnig að því fer nokkuð fjarri að fjöldi starfsmanna framkvæmdastjórnarinnar frá hverju aðildarríki sé í hlutfalli við íbúafjölda þeirra. Þannig starfa fleiri Belgar, Frakkar og Ítalir í framkvæmdastjórninni heldur en Þjóðverjar þrátt fyrir að Þýskaland sé langfjölmennasta aðildarríkið. Að Belgar séu fjölmennastir skýrist að sjálfsögðu af því að höfuðstöðvar framkvæmdastjórnarinnar eru í Brussel höfuðborg Belgíu.


Fjöldi starfsmanna framkvæmdastjórnarinnar eftir aðildarríkjum árið 2011 og markmið framkvæmdastjórnarinnar um ráðningar frá nýjum aðildarríkja á undanþágutímabilum til samanburðar.

Þetta svar var uppfært 4. júlí 2013 í kjölfar inngöngu Króatíu í Evrópusambandið.

Heimildir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela