Spurning

Í Morgunblaðinu birtist nýlega frétt um að Evrópusambandið hefði bannað ensku fyrirtæki að greiða hærra tímakaup en lágmarkslaun. Er þetta rétt?

Spyrjandi

Andrés Pétursson

Svar

Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst er frétt Morgunblaðsins að mestu rétt. Á hinn bóginn er ekki alveg rétt farið með efni hennar í spurningunni hér að ofan. Þannig hafa engar fréttir verið sagðar af því að Evrópusambandið hafi bannað ensku fyrirtæki að greiða hærra tímakaup en lágmarkslaun heldur hafi bresk stjórnvöld varað við því að hugsanlega brjóti það í bága við löggjöf Evrópusambandsins að setja sem skilyrði í samninga um opinber innkaup að fyrirtæki borgi starfsmönnum sínum það sem kallað er lífvænleg laun.

***

Í spurningunni hér að ofan er vísað til fréttar sem birtist á vefsíðunni Mbl.is þann 5. nóvember síðastliðinn undir fyrirsögninni Hærri laun hugsanlega lögbrot. Fréttin hefst á þessum orðum:

Bresk stjórnvöld hafa varað Boris Johnson, borgarstjóra London, við því að stefna hans að greiða starfsmönnum borgarinnar laun í samræmi við það sem teljist mannsæmandi brjóti hugsanlega í bága við löggjöf Evrópusambandsins. Hafa þau lagt fram tvö lögfræðiálit þess efnis samkvæmt fréttavef Daily Telegraph.

Þetta er að mestu leyti í samræmi við það sem fram kemur í frétt á vefsíðu Daily Telegraph frá sama degi, að því undanskildu að í frétt Morgunblaðsins er öllu sleppt sem er ætlað að útskýra málavexti.


Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna, við mótmæli gegn lokun sjúkrahúsa í borginni.

Samkvæmt frétt Daily Telegraph snýst málið um fyrirkomulag Boris Johnson, borgarstjóra Lundúnaborgar, við opinber innkaup borgaryfirvalda (e. the Greater London Authority). Undanfarin tvö ár hafa yfirvöld sett það sem skilyrði að fyrirtæki sem þau semja við borgi starfsmönnum sínum svokölluð lífvænleg laun Lundúna (e. London Living Wage), það er að segja laun sem nægja til lífsframfæris í höfuðborginni.

Til útskýringar er rétt að taka fram að lífvænleg laun eru ekki það sama og lögbundin lágmarkslaun. Árið 1998 voru í fyrsta sinn samþykkt lög um lágmarkslaun í Bretlandi. Vegna þess hve lágmarkslaunin eru lág er hins vegar víða kallað eftir því að vinnuveitendur miði heldur við það að greiða starfsmönnum sínum laun sem raunverulega duga til að framfæra þeim. Frá árinu 2005 hafa borgaryfirvöld í Lundúnum skuldbundið sig til að greiða starfsmönnum sínum lífvænleg laun eftir föstum taxta sem er nokkuð hærri en lögbundin lágmarkslaun. Það er ekki rétt sem fram kemur í frétt Morgunblaðsins að gerðar hafi verið athugasemdir við þessar launagreiðslur heldur við þá ákvörðun borgarstjórans að setja lífvænleg laun sem skilyrði í samninga um opinber innkaup.

Johnson hefur kallað eftir því að ríkisstjórn Íhaldsflokksins og Frjálslyndaflokksins fari að fordæmi sínu og setji það sem skilyrði við opinber innkaup á vegum breska ríkisins að fyrirtæki sem samið er við greiði starfsmönnum sínum lífvænleg laun. Ed Miliband leiðtogi Verkamannaflokksins hefur tekið undir þetta. Í frétt Daily Telegraph eru bresk stjórnvöld sögð hafa látið vinna fyrir sig tvö lögfræðiálit um efnið. Vitnað er beint í annað álitanna og sagt að höfundar þess telji líklegt að það yrði álitið brjóta gegn frelsinu til að veita þjónustu, samkvæmt Evrópulögum, að þröngva því skilyrði upp á birgja breskra stjórnvalda að þeir greiði starfsmönnum sínum lífvænleg laun, það er laun umfram lögbundin lágmarkslaun.

Í álitinu er sagt frá úrskurði dómstóls Evrópusambandsins frá árinu 2008 um að reglur um lágmarkslaun á tilteknu svæði í Þýsklandi, sem ekki eru ósvipuð lífvænlegum launum að því leyti að ekki er kveðið á um þau í landslögum, brytu gegn evrópskum lögum um þjónustufrelsi. Þetta væri vegna þess að slíkar reglur gerðu það síður aðlaðandi fyrir fyrirtæki í öðrum aðildarríkjum, þar sem lágmarkslaun eru enn lægri, að semja á slíkum forsendum og hömluðu því samkeppni.

Í álitinu ku því jafnframt haldið fram að sérstök samningsskilyrði, svo sem kröfur um að greiða lífvænleg laun, sé aðeins hægt að setja í opinbera samninga ef þau tengjast framkvæmd samningsins með beinum hætti. Enn fremur að til þess að almennt sé hægt að setja skilyrði um greiðslu lífvænlegra launa í opinbera samninga þurfi að vera til staðar skilyrði í lögum um greiðslu slíkra launa sem gildi fyrir alla. Bæði Boris Johnson og Ed Miliband hafa vísað þessari gagnrýni á bug.

Það er sum sé ekki rétt sem haldið er fram í spurningunni að Morgunblaðið hafi sagt fréttir af því að Evrópusambandið hafi bannað ensku fyrirtæki að greiða hærra tímakaup en lágmarkslaun. Það er heldur ekki rétt sem fram kemur í fréttinni á Mbl.is að bresk stjórnvöld hafi varað Boris Johnson við því að það gæti strítt gegn Evrópulögum að greiða starfsmönnum borgarinnar lífvænleg laun. Eins og fjallað hefur verið um hér að ofan snýst málið um það lögfræðilega álitaefni hvort það samræmist Evrópulögum að borgaryfirvöld í Lundúnum setji sem skilyrði í samninga um opinber innkaup að fyrirtæki greiði starfsmönnum sínum lífvænleg laun. Um þetta er deilt, eins og lesa má um víða á Netinu, en enginn úrskurður hefur fallið enn.

Mynd:

Upprunaleg spurning:

Í Morgunblaðinu birtist nýlega frétt um að Evrópusambandið hefði bannað ensku fyrirtæki að greiða hærra tímakaup en lágmarkslaun. Þetta var vísun í frétt Daily Telegraph. Hvað getið þið sagt um sannleiksgildi þessarar fréttar?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur22.11.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Í Morgunblaðinu birtist nýlega frétt um að Evrópusambandið hefði bannað ensku fyrirtæki að greiða hærra tímakaup en lágmarkslaun. Er þetta rétt?“. Evrópuvefurinn 22.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63693. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela