Spurning

Verða jólin betri ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Haukur Ingi Ólafsson

Svar

Undanfarna mánuði hefur Evrópuvefurinn staðið fyrir kynningum á vefnum í framhaldsskólum og jafnframt tekið á móti spurningum um Evrópumál frá nemendum. Markmið þessara heimsókna er fyrst og fremst að ræða við nemendur um mikilvægi hlutlægra upplýsinga í tengslum við Evrópusambandið og aðildarviðræðurnar og benda þeim á hvar þær er að finna. Ofangreind spurning var eflaust lögð fyrir vefinn í hálfgerðu gríni en hún barst frá nemanda í Menntaskólanum við Sund. Spurningin hefur eflaust vaknað vegna umfjöllunar í fyrirlestrinum um gildishlaðin hugtök og hvernig hagsmunahópar beita þeim í Evrópuumræðunni málstað sínum í hag.

Þegar miklir hagsmunir eru í húfi verður orðræðan oft fremur slagorðakennd og getur einkennst af gildishlöðnum hugtökum. Þessi hugtök eru sérstaklega áhrifaríkt tæki í höndum hagsmunaðila til þess að móta afstöðu einstaklinga þar sem slík hugtök skapa samkennd meðal fólks sem hægt er að virkja í pólitískum tilgangi. Í tilviki Evrópusambandsumræðunnar hafa hugtök eins og fullveldi, lýðræði, efnahagsstöðugleiki og einangrun á alþjóðavettvangi verið mikið notuð. Boðskapurinn er einfaldur og almennur svo auðveldara sé fyrir sem flesta að samþykkja hann.


Jólatréð á Austurvelli árið 2005 sem Reykvíkingum var að venju gefið af Óslóarbúum.
Sagnfræðingurinn Iver B. Neumann, sem skoðaði orðræðuna í Noregi í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðildarsamninginn árið 1994, lýsti notkun hagsmunahópa á gildishlöðnum hugtökum með dæmisögunni um unga parið sem heldur jólin saman í fyrsta sinn. Bæði hafa þau ákveðnar hugmyndir um hvernig jólahald eigi að vera og telja sig vera sammála því þau líta svo á að jól séu ákveðið fyrirbæri. Þegar parið fer að undirbúa hátíðarhöldin myndast hins vegar átakalínur milli þeirra þar sem þau hafa alist upp við ólíkar jólahefðir. Þau geta til að mynda komist að því að þau eru ekki sammála um klukkan hvað skuli borða og hvað eigi að vera í jólamatinn. Einnig gæti það komið öðru þeirra á óvart að hitt sé ekki vant að fara í kirkju á aðfangadag eða að pakkarnir séu ekki opnaðir strax eftir kvöldmatinn.

Bæði hafa þau í raun einungis áætlað að hinn aðilinn í sambandinu hafi sömu hugmyndir um jólahald. Við nánari skoðun finna þau að í raun hafa þau mjög ólík gildi og viðmið um það hvernig skuli halda hátíðirnar. Neumann færði þessa jólasögu yfir á notkun gildishlaðinna hugtaka í Evrópuumræðunni í Noregi á sínum tíma.

Hið sama má segja um þau gildishlöðnu hugtök sem notuð eru í Evrópuumræðunni á Íslandi eins og þau sem nefnd voru hér að ofan. Með notkun slíkra hugtaka er umræðunni haldið almennri svo það sé auðvelt fyrir fólk að taka upp málstaðinn hver svo sem hann er. Því meira sem einstaklingar rýna í og kynna sér hugtökin þeim mun betur kemur í ljós hversu ólíkar skoðanir þeir hafa á þessum almennu hugtökum og hvernig þeir skilgreina þau sjálfir. Í raun áætlar fólk oft að hagsmunahóparnir hafi sömu hugmyndir og það sjálft um þessi hugtök en svo þarf ekki að vera.

Enn sem komið er hefur enginn hagsmunahópur haldið því fram að jólin verði betri eða verri komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu – sem betur fer. Við spurningunni um hvort jólin verði betri eða verri gangi Ísland í ESB er enda ekki til neitt einhlítt svar þar sem jólin eru ólík í hjarta hvers og eins. Hverju sem því líður óskar starfsfólk Evrópuvefsins lesendum sínum nær og fjær gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Gleðileg jól!

Heimild og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela