Spurning
Barentsráðið
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Barentsráðið (e. Barents Euro-Arctic Council, BEAC) er vettvangur milliríkjasamstarfs um sameiginleg hagsmunamál Barentssvæðisins, þéttbýlasta svæðis á norðurslóðum með um 6 milljónir íbúa. Það var stofnað 11. janúar 1993 með Kirkenes-yfirlýsingunni. Meginmarkmið Barentsráðsins er að stuðla að sjálfbærri, efnahags- og félagslegri framþróun á Barentssvæðinu og vinna að friðsamlegri þróun á nyrsta svæði Evrópu. Samstarfið snýr einkum að efnahags- og viðskiptasamvinnu, umhverfis- og samgöngumálum, ferðamálum, heilbrigðismálum og vísinda- og tæknisamstarfi. Aðilar að Barentsráðinu eru sjö: Norðurlöndin fimm (Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð), Rússland og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Auk þeirra hafa níu ríki fengið stöðu áheyrnarríkis (e. observer status) hjá Barentsráðinu og eru það Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Holland, Ítalía, Japan, Kanada, Pólland og Þýskaland. Finnland, Noregur, Rússland og Svíþjóð skiptast á að fara með formennsku í Barentsráðinu í tvö ár í senn. Noregur gegnir formennsku í ráðinu til október 2013. Utanríkisráðherrar aðildarríkja Barentsráðsins funda á tveggja ára fresti í því ríki sem gegnir formennsku ráðsins hverju sinni. Milli funda er starfsemi ráðsins í höndum nefndar háttsettra embættismanna (e. Committee of Senior Officials, CSO). CSO-nefndin samanstendur af opinberum starfsmönnum sem eru í fyrirsvari fyrir stjórnvöld aðildarríkja Barentsráðsins og framkvæmdastjórn ESB. Fulltrúum áheyrnarríkjanna níu er einnig gefinn kostur á að taka þátt í starfsemi nefndarinnar. CSO-nefndin fundar fjórum til fimm sinnum á ári að meðaltali, oftast í því ríki sem fer með formennskuna. Fimm vinnuhópar og eitt viðbragðsteymi starfa hjá Barentsráðinu, undir eftirliti CSO-nefndarinnar. Starfsemi þeirra er skipt í eftirfarandi svið:- Efnahagsleg samvinna. Undir þann vinnuhóp heyrir:
- Tollasamvinna.
- Umhverfismál.
- Flutningar á Barentssvæðinu.
- Björgunaráætlanir og -samstarf.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur11.1.2013
Flokkun:
Efnisorð
Barentsráðið Barentssvæðið milliríkjasamstarf norðurslóðir Kirkenes-yfirlýsingin Norðurlöndin Rússland framkvæmdastjórn ESB áheyrnarríki formennska samvinna umhverfismál Norðurskautsráðið
Tilvísun
Evrópuvefur. „Barentsráðið“. Evrópuvefurinn 11.1.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64134. (Skoðað 21.11.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela