Spurning

Ríkir efnahagslegur stöðugleiki í Evrópusambandinu?

Spyrjandi

Jakob Steinn

Svar

Nei, það ríkir ekki efnahagslegur stöðugleiki í Evrópusambandinu sem stendur. Ekki er þó útilokað að slíkur stöðugleiki náist á ný en til þess verður að ráðast í víðtækar breytingar á uppbyggingu hagkerfis sambandsins.

***

Með skilgreiningu orðsins „stöðugleiki“ (e. stability) í huga (sjá meðal annars Snöru Vefbókasafn og The Free Dictionary) má skilgreina hugtakið „efnahagslegan stöðugleika“ á eftirfarandi hátt:

  1. Hagkerfið er stöðugt, áreiðanlegt og staðfast.
  2. Færist hagkerfið úr jafnvægi skal það leita sjálfkrafa aftur til baka á þá braut sem það var á.

Í skilgreiningunum felast ákveðin huglæg viðhorf. Ef við notumst við fyrri skilgreininguna og reynum að svara spurningunni „er efnahagurinn/hagkerfið í Evrópusambandinu áreiðanlegt/staðfast?“ veltur allt á því við hvað við ætlum að miða. Ef við miðum við atvinnuleysi þá mætti ef til vill svara spurningunni neitandi í ljósi þess hve hátt atvinnuleysið er í sumum löndum Evrópusambandsins. Ef við miðum við gengi gjaldmiðla í Evrópusambandinu – fyrst og fremst evrunnar – þá mætti svara spurningunni játandi, allt eftir því við hvaða mynt gengi evrunnar væri borið saman. Þannig mætti áfram telja.


Frá umræðum á Evrópuþinginu um nýjar ESB-reglur varðandi vogunarsjóði og hlutabréfasjóði.

Þótt huglæg viðmið vegi þungt í þessu samhengi er óþarfi að láta það aftra okkur alfarið frá því að svara spurningunni. Í fyrsta lagi má spyrja að því hvort núverandi efnahagsástand í Evrópusambandinu sé „stöðugt“? Í öðru lagi má spyrja hverjar líkurnar séu á því að hagkerfi Evrópusambandsins leiti aftur á þá efnahagslegu braut sem það var á fyrir árið 2008, án þess að breytingar þurfi til.

Hvernig er efnahagsástandið í Evrópusambandinu?

Síðan árið 2009 hefur efnahagsástandið í Evrópusambandinu – sérstaklega á evrusvæðinu – verið alvarlegt. Skýrslur þar að lútandi hafa hrannast upp og flestar þeirra undirstrika alvöru málsins. Árið 2012 var það til dæmis álit Efnahags- og framfarastofnunarinnar að „þörf væri á djarfri áætlun um kerfisbreytingar“. Á meðal þeirra atriða sem stofnunin lagði áherslu á voru kerfisbreytingar sem styddu við nýsköpun, styrkingar á innri markaði Evrópusambandsins sem og endurskipulagning innlends regluverks í einstökum aðildarríkjum. Þá var kallað eftir samhæfðari stefnum meðal ríkjanna.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sá, í apríl síðastliðnum, sömuleiðis fram á stöðnun í efnahagslífi Evrópu og að þar yrði hagvöxtur langtum lægri en í öðrum heimsálfum. Í skýrslu sinni um fjármálalegan stöðugleika, sem einnig kom út í apríl, minntist sjóðurinn meðal annars á að þótt dregið hafi úr bráðum vanda ætti bankakerfi álfunnar í verulegum vandræðum, sem mundu draga úr stöðugleika hagkerfis Evrópu ef ekkert yrði að gert.

Í ljósi þessa er erfitt að halda því fram að núverandi ástand hagkerfis Evrópusambandsins sé „stöðugt“, „áreiðanlegt“ eða „staðfast“. Það má því segja að það ríki ekki efnahagslegur stöðugleiki í Evrópusambandinu sem stendur þótt vissulega hafi ástandið batnað, líkt og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á.

Mun efnahagsástandið í Evrópu þróast aftur í þá átt sem það var fyrir árið 2008?

Þótt efnahagsástandið í Evrópu sé bágborið um þessar mundir er ekki þar með sagt að það geti ekki batnað og jafnvel komist aftur í sama horf og áður en efnahagsvandræðin hófust fyrir alvöru fyrir fjórum árum. Það væri þá í samræmi við seinni skilgreiningu hugtaksins „efnahagslegur stöðugleiki“ hér að ofan.

Um þetta atriði eru mjög skiptar skoðanir. Sumir hagfræðingar telja að nóg sé að skera niður opinber útgjöld og forðast það sem kallað er „ruðningsáhrif“ (e. crowding-out effects). Það þýðir að í stað þess að takmarkaðir sjóðir séu notaðir til að fjármagna rekstur opinberra aðila eigi frumkvöðlar og aðrir afkastamiklir einkaaðilar að nota sjóðina til fjárfestinga og eigin reksturs. Með því eigi efnahagsástandið í Evrópu að skána til mikilla muna.

Aðrir hagfræðingar halda því fram að þetta gangi ekki upp og benda á að þess séu raunar merki að kapítalísk hagkerfi – ekki bara hagkerfi Evrópu – með þróaðan fjármálamarkað hafi innbyggðan óstöðugleika; þau einkennist af óreiðu (e. chaos) en ekki reglu og stöðugleika. Opinber útgjöld þurfi til að veita einkaaðilum þær tekjur og sjálfstraust sem þeir þurfa til að fjárfesta á ný og halda þar með hagkerfinu gangandi.

Flestir hagfræðingar eru sammála um að til þess að efnahagslegur stöðugleiki komist aftur á í Evrópu þurfi að breyta umgjörð hagkerfisins líkt og Efnahags- og framfarastofnunin talaði um á síðasta ári. Í því sambandi er vert að horfa sérstaklega til þeirrar staðreyndar að evrusvæðið er líklega ekki hagkvæmt myntsvæði, að minnsta kosti er það fjær því en Bandaríkin og Kanada (sjá til dæmis Eichengreen (1990) og Geza og Vasilescu (2011)). Til að evrusvæðið verði hagkvæmt myntsvæði þarf hreyfanleiki vinnuafls að verða meiri, viðskipti innan svæðisins að aukast, verð- og launabreytingar að verða auðveldari, efnahagsbreytingar að verða samræmdari milli svæða og/eða taka þarf upp sameiginlega stefnu í ríkisfjármálum.

Ljóst er að engin af þessum breytingum mun eiga sér stað á svipstundu. Þess má þó geta að José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur kallað eftir stofnun „sambandsríkis þjóðríkja“ (e. federation of nation states) meðal aðildarríkja sambandsins. Nánari samruni af því tagi mundi að öllum líkindum ýta undir efnahagslegan stöðugleika innan sambandsins þar sem hann fæli í sér að á tímum efnahagslegs óstöðugleika öxluðu aðildarríkin efnahagslegar byrðar í auknum mæli sameiginlega, meðal annars með samþættari ríkisfjármálum en raunin er í dag. Stofnun sambandsríkis þjóðríkja krefðist þó breytinga á sáttmálum sambandsins sem aðeins er hægt að gera með samþykki allra aðildarríkja. Á þessari stundu verður að teljast ólíklegt að slíkt allsherjarsamþykki fáist í bráð.

Mynd

Við þetta svar er engin athugasemd Fela