Spurning

Hvers vegna geta bankar krafist verðbóta af útlánum en þurfa ekki að greiða einstaklingum verðbætur á innlán?

Spyrjandi

Sigurður Heiðdal

Svar

Bankar og sparisjóðir bjóða bæði upp á verðtryggð og óverðtryggð inn- og útlán. Hér á Íslandi gildir almennt að það er samkomulagsatriði á milli lántakanda og lánveitanda hvort lán er verðtryggt eða óverðtryggt. Þó er óheimilt að verðtryggja lán til skemmri tíma en fimm ára og innstæður til skemmri tíma en þriggja ára. Þetta var ákveðið með reglum nr. 492 sem Seðlabankinn setti árið 2001. Reglurnar byggjast á 15. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38 frá sama ári (sjá Lagasafn Alþingis). Vegna þessara reglna eru meðal annars allar óbundnar innstæður í innlánsstofnunum óverðtryggðar og sömuleiðis öll skammtímalán, til dæmis yfirdráttur. Auk þess bjóða bankar og sparisjóðir upp á bæði út- og innlán í erlendri mynt en þau eru almennt óverðtryggð.

Að jafnaði verða innlánsstofnanir að halda góðu jafnvægi á milli verðtryggðra eigna sinna annars vegar og skulda hins vegar. Þetta þurfa þær að gera til að eiga ekki á hættu að verða fyrir verulegu tjóni ef verðbólga verður óvænt mun meiri eða minni en ætlað var. Verðtryggð útlán banka og sparisjóða þurfa því að vera nokkurn veginn jafnmikil á hverjum tíma og verðtryggð innlán og aðrar verðtryggðar skuldbindingar þessara fyrirtækja. Það hefur þó reynst erfitt að ná því markmiði og almennt eiga bankar á Íslandi nokkru meira af verðtryggðum eignum en nemur verðtryggðum skuldum.


Óheimilt er að verðtryggja lán til skemmri tíma en fimm ára og innstæður til skemmri tíma en þriggja ára.

Fáir á Íslandi eru reiðubúnir til að binda fé sitt með því að lána það út til langs tíma án verðtryggingar, nema þeir fái fyrir það hærri vexti en lántakendur eru reiðubúnir að greiða. Því er lítið um langtímalán, til dæmis til 25 ára, án verðtryggingar. Þeir sem vildu taka slík lán gætu það þó sjálfsagt ef þeir myndu ganga eftir því. Þeir þyrftu þá annaðhvort að greiða háa fasta vexti eða sætta sig við fljótandi vexti, sem breytast á hverjum tíma eftir því hvaða vextir bjóðast almennt.

Helsti gallinn við fljótandi vexti frá sjónarhóli lántakenda er að miklar sveiflur geta orðið í vaxtagreiðslum á lánstímanum. Verðtryggð lán hafa ekki þann galla. Að vísu hækka greiðslur af verðtryggðum lánum með verðlagi en þær breytingar verða hægt og sígandi. Þegar til lengdar lætur má gera ráð fyrir að greiðslugetan vaxi hraðar en afborganirnar, vegna þess að laun hækka almennt meira en verðlag.

Lán í erlendri mynt eru alla jafna óverðtryggð. Þau eru ýmist með föstum eða breytilegum vöxtum og geta því haft sömu galla og óverðtryggð lán í krónum, það er að vaxtagreiðslur geta breyst mikið á lánstímanum. Við bætist síðan sá galli frá sjónarhóli þeirra sem eru með tekjur í krónum að gengi krónunnar getur breyst og þar með greiðslur af lánunum í krónum talið. Áhættan af því, gengisáhætta, er helsti ókosturinn við erlend lán. Á móti vegur að vextir eru almennt mun lægri í erlendri mynt en í krónum.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur16.2.2007

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvers vegna geta bankar krafist verðbóta af útlánum en þurfa ekki að greiða einstaklingum verðbætur á innlán?“. Evrópuvefurinn 16.2.2007. http://evropuvefur.is/svar.php?id=6501. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Gylfi Magnússonprófessor í hagfræði við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela