Spurning

Sameinuðu þjóðirnar

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Sameinuðu þjóðirnar, SÞ, (e. United Nations, UN) voru stofnaðar í kjölfar loka seinni heimsstyrjaldarinnar. Stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður í San Francisco þann 26. júní árið 1945 og gekk í gildi 24. október sama ár. Markmið Sameinuðu þjóðanna eru:

  • að varðveita heimsfrið og öryggi,
  • að efla vinsamlega sambúð milli þjóða,
  • að koma á alþjóðasamvinnu um lausn alþjóðavandamála og gæta þess að mannréttindi allra séu virt án tillits til kynþáttar, kyns, tungu eða trúarbragða,
  • að vera miðstöð til samræmingar á aðgerðum þjóða til að ná þessum sameiginlegu markmiðum.

Helstu stofnanir Sameinuðu þjóðanna, sem vinna að þessum markmiðum, eru allsherjarþingið, efnahags- og félagsmálaráðið og öryggisráðið. Starfsemin fer fram víðs vegar um heiminn en höfuðstöðvarnar eru í New York. Alþjóðadómstóllinn í Haag er starfræktur á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna er aðalritari þeirra. Hann er skipaður af allsherjarþinginu samkvæmt tillögu öryggisráðsins til fimm ára í senn. Núverandi aðalritari er Ban Ki-moon, fyrrverandi utanríkisráðherra Suður-Kóreu, en hann er sá áttundi í röðinni. Ban Ki-moon tók við embættinu þann 1. janúar árið 2007 og var endurkjörinn með einróma samþykki árið 2011.

Stofnríki Sameinuðu þjóðanna voru 51 talsins en í dag eru aðildarríkin 193. Ísland hefur verið aðili að Sameinuðu þjóðunum frá 19. nóvember 1946.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela