Spurning
Upplýsingatækni og beint lýðræði
Spyrjandi
Ritstjórn
Svar
Gerir upplýsingatækni beint lýðræði mögulegt eða æskilegt? Er fulltrúalýðræðið, þar sem fulltrúar á Alþingi kjósa um málefni borgaranna, óþarft í heimi tölvuvæðingar og mikillar almennrar menntunar? Nýlega var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi um milliliðalaust lýðræði (þingskjal 144) og sáu meðlimir á 34. landsfundi Sjálfstæðisflokksins sérstaka ástæðu til að lýsa sig andsnúna hugmyndum um að hætta að nota kjörseðla við almennar alþingis- og sveitarstjórnarkosningar. Umræðan um innleiðingu upplýsingatækni er að mínu mati á miklum villigötum og til að færa rök fyrir því er vænlegt að móta staðleysuímynd fyrir hönd fylgismanna beins lýðræðis á Netinu í þágu rökræðunnar sem er eitthvað á þessa leið:Stjórnskipan lýðveldisins verði með þeim hætti að um öll mál verði kosið í beinum kosningum á Netinu. Þeir fáu sem ekki hafa enn aðgang að tölvum á heimili sínu, í skóla eða vinnustað skulu hafa tækifæri til þess að kynna sér fyrst málefnin og síðan kjósa á þar til gerðum upplýsingamiðstöðvum sem geta verið t.d. bókasöfn eða aðrar tölvuvæddar opinberar upplýsingalindir. Reglulega skal fyrst kynna einstök mál fyrir kjósendum og síðan bera þau undir atkvæði. Við lok atkvæðagreiðslu liggur fyrir niðurstaða sem viðeigandi embættismenn skulu hrinda í framkvæmd.Rökin með þessari staðleysuhugmynd skulum við fá lánuð frá höfundum þingskjals 144.
- Almenn og góð menntun, mikil tölvueign, meiri frítími en nokkurn tíma áður kallar á að fólk hafi miklu meira um hagi sína að segja en áður.
- Netið færir borgarana nær málefnunum og verða fulltrúar almennings því óþarfir milliliðir.
- Ef almenningur kýs beint um málefnin er minni hætta á að fjársterkir hagsmunaaðilar nái að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna heldur en þegar fulltrúar almennings fara með völdin.
- Netið býður upp á möguleika til að auka stórum milliliðalaust lýðræði og gera það að veruleika án þeirra galla sem fylgja tíðum þjóðaratkvæðagreiðslum, þar sem kjósendur þurfa að fara á kjörstað til að greiða atkvæði.
Núverandi högun kosninga er byggð á langri reynslu og eru alls kyns kosningatæknileg öryggisatriði innbyggð í ferlið. Þessi öryggisatriði fara kannski framhjá okkur þegar við komum á kjörstað en tryggja samt örugga og snurðulausa framkvæmd kosninga. Í þessu samhengi er vert að vekja athygli á þremur atriðum sem mikilsvert er að tryggja við framkvæmd kosninga á kjörstað:
- Að vel sé staðið að málum við framkvæmd kosninganna. Að ljóst sé hverjir séu í framboði, hverjir hafi kosningarétt og að tryggt sé að kjósandinn sé sá sem hann segist vera þegar hann kemur til að greiða atkvæði. Til þess að tryggja þetta er haldin kjörskrá og framboð auglýst með góðum fyrirvara.
- Að meðhöndlun og talning atkvæða fari fram eftir skýrum reglum og að innbyggðir séu öryggisventlar í framkvæmdina þannig að ekki sé hægt að efast um niðurstöðu talningarinnar. Einnig að tryggt sé að ekki sé hægt að tengja saman kjósanda og atkvæði á neinn hátt. Innra og ytra eftirlit skiptir hér höfuð máli.
- Að kjósandi geti greitt atkvæði á þann hátt að á því leiki enginn vafi að hann gangi óþvingaður til kosninga. Vegna þessa er afar mikil áhersla lögð á leynd kosninga og er t.d. í lögum um kosningar til bæði sveitarstjórna og Alþingis skýrt kveðið á um að kjörseðil skuli ógilda láti kjósandi sjá hvað er á seðli hans. Ennfremur er kveðið á um að heimilt sé að beita kjósanda sektum í slíkum tilvikum.
- Í rafrænum kosningum er hægt að tryggja að kjósandinn sé sá sem hann segist vera. Það er hægt að gera með samblandi af rafrænum lyklum, rafrænum skilríkjum (PKI) og lykilorðum sem auðkenna notandann. Þessi verkfæri eru útbreidd í rafrænum viðskiptum og standast að fullu þær öryggiskröfur sem bankakerfið gerir. Einnig þarf að tryggja að samskipti (tengingar) milli tölvu kjósendanna og miðlægu kosningakerfanna séu tryggð. Það er hægt að gera með dulkóðun tenginganna á svipaðan máta og gert er í heimabönkum. Rafræn kjörskrá þyrfti alltaf að vera ótengd kosningakerfinu til að hægt væri að uppfylla skilyrði um að enginn rekjanleiki væri á atkvæðum.
- Í rafrænu kosningakerfi væri hægt að tryggja að framkvæmd færi fram eftir settum reglum með vottun kosningahugbúnaðar líkt og gert er með vogir og rafræn afgreiðslukerfi. Skoðunarmenn með tilhlýðilega vottun geta skoðað kosningahugbúnað og einnig eru til staðlar á borð við ISO 17799 öryggisstaðalinn sem hægt er að styðjast við í slíku verkefni.
- Ef kosið er rafrænt á kjörstað þá er aðeins verið að skipta út kjörseðli úr pappír fyrir ný verkfæri. Talning atkvæða yrði einfaldari og minni hætta á því að kjósandi skili af sér ógildu atkvæði eða atkvæði sem vafi léki á um. Á kjörstað er tryggt að kjósandinn geti greitt atkvæði eftir eigin sannfæringu og án allra þvingana. En er hægt að tryggja að í netkosningum gangi kjósandinn til kosninga án þvingana og hafi ekki möguleika á að selja atkvæði sitt? Hér vandast málið. Ekki eru í sjónmáli aðferðir til að tryggja að þetta ákvæði sé uppfyllt. Auðvelt er að sjá fyrir sér að ráðríkir foreldrar eða makar beiti þrýstingi á sínu heimili! Einnig eru tækifæri fyrir alls konar kosningamisferli á borð við að borga fyrir atkvæði eða þvinga menn til að kjósa þóknanlega t.d. á vinnustað o.s.frv.
Hafa þá verið einhverjir annmarkar á núverandi lýðræðishefð sem ekki hefur verið hægt að leysa án upplýsingatækninnar? Er upplýsingatæknin kannski að leysa vandamál sem er ekki til? James Madison, einn höfunda sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna, færði sannfærandi rök fyrir muninum á fulltrúalýðræði og beinu lýðræði:
[Við] iðkun beins lýðræðis hittist fólkið og hefur í hendi sér stjórnvaldið í eigin persónu; í lýðveldi stjórnar fólkið gegnum fulltrúa sína og erindreka. Beint lýðræði mun af þeim sökum vera bundið við lítið svæði. Lýðveldi er hægt útvíkka yfir stærri svæði. (The Federalist Paper, no. 14 bls. 80)Ef við reynum að draga almennar ályktanir út frá þessum greinarmun sést að spurningin um menntun og upplýsingu borgaranna er ekki ásteytingarsteinninn heldur frekar umfang og stærð þess samfélags sem stjórna á. Ísland er fámennt land en víðfemt þannig að á Alþingi til forna hefur það talist mikil fyrirhöfn að sækja þingið. Á þeim tíma hefur líklega verið nægjanlegt að safnast saman einu sinni á ári í nokkra daga til að ráða ráðum sínum og kannski taka einn og einn misindismann af lífi í leiðinni. Þjóðfélagsgerðin kallaði líklega ekki á að oftar væri þingað en einu sinni á ári. Ferðalagið á Þingvelli hefur væntanlega verið talið ánægjulegt og milli þinga hafa menn getað stundað sín daglegu störf og lifað í samræmi við þau einföldu lög sem giltu. Eftir því sem fólki fjölgar og lífshættirnir verða flóknari má álykta að erfiðara verði að ástunda beint lýðræði. Þá er tvennt til ráða. Annars vegar að brjóta samfélagið niður í viðráðanlegar einingar sem hver um sig hefur sjálfsákvörðunarrétt í sínum málum og þannig streitast á móti þróuninni. Hins vegar að fela kjörnum fulltrúum það verkefni að sjá um að sinna þeirri yfirlegu sem nauðsynleg er til að skynsamlegar ákvarðanir verði teknar. Flest ríki aðhyllast nú hina síðari leið með örfáum undantekningum. En er þessi greinarmunur svo hreinn og klár? Á Íslandi skiptum við viðfangsefnum stjórnmálanna í tvennt og felum Alþingi þau verkefni sem augljóslega varða alla íbúana en önnur verkefni felum við sveitarstjórnum. Aðgreiningin er ekki klippt og skorin og hafa sum mál á borð við skólamál t.d. flakkað á milli eftir því hvar peninga til framkvæmda er að finna. Ég held að klárlega megi segja að verkefni Alþingis ættu öll að vera þess eðlis að þau hefðu almenna skírskotun og vonandi lengri líftíma en eitt kjörtímabil. Þau verkefni sem eru á höndum sveitarstjórna standa hverjum og einum einstaklingi nær og varða kannski frekar staðbundna þjónustu við borgarana. Af þessu má ráða að málefni má flokka eftir viðfangi þeirra og gefa borgaranum sjálfum kost á því að taka ákvarðanir beint og milliliðalaust í málefnum sem augljóslega varða hann einan eða hans nánasta umhverfi. Þess vegna má reyna að nálgast viðfangsefnið með því að skoða hvaða málefni varða borgarann beint og hvaða aðferðir eru bestar til að raungera vilja einstaklingsins. Þjóðaratkvæðagreiðslur
Það að vísa málefni til úrskurðar þjóðarinnar er valkostur sem ekki hefur verið notaður á Íslandi frá 1944. Víða annarsstaðar eru haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur, líklega tíðast í svissnesku kantónunum en sjaldnar og af meira tilefni annarsstaðar. Innan Norðurlandanna eru þjóðaratkvæðagreiðslur tíðastar í Danmörku og má rekja það til ákvæða í dönsku stjórnarskránni, sem komu til sögunnar, þegar danska þingið breyttist í eina málstofu. Deildaskiptingin var upphaflega hugsuð sem öryggisventill þegar konungur var að afsala sér valdi en þegar deildaskiptingin var aflögð bar Dönum gæfa til að skila hluta valdsins til þjóðarinnar í formi þjóðaratkvæðagreiðslu við tilteknar aðstæður. Þó svo að að í stjórnarskrá lýðveldisins standi að forseti geti neitað að samþykkja lög sem verði þá sjálfkrafa borin „undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar“ hafa fræðimenn ekki verið sammála um hvort forseta sé heimilt að neita því að samþykkja lög án atbeina ráðherra. Spurningin um hvort skynsamlegt sé að kjósa beint og milliðalaust um einhver málefni tel ég að sé óháð þeirri aðferð sem við ætlum að nota þegar við kjósum um málefnið. Hvort það er gert á kjörstað eða á Netinu kemur málinu ekki við. Næg tækifæri hafa verið frá stofnun lýðveldisins til að kjósa beint um stór þverpólítísk ágreiningsmál. Þau örfáu málefni sem þó hefur verið kosið um beint hafa öll verið á sviði sveitarstjórna. Fáir myndu telja að um ýkja merkileg mál hafi verið að ræða enda oftast kosið um hundahald eða áfengisútsölur. Niðurstaða
Umræðan um upplýsingatækni í tengslum við kosningar í beinu lýðræði hefur verið til þess eins að þyrla upp ryki sem dregur athyglina frá raunverulegum kjarna málsins. Að baki þessari umræðu liggur aldagömul rökræða um hvort sé betur fallið til að stjórna samfélaginu beint lýðræði Agórunnar eða fulltrúalýðræðið. Kosningar eru aðeins eitt af fjölmörgum verkfærum lýðræðisins og er það mitt mat að upplýsingatæknin sé ekki sú eðlisbreyting sem fylgismenn beins lýðræðis telja hana vera. Ég tel að ég hafi sýnt fram á að upplýsingatæknin sjálf geti orðið hluti af núverandi kosningahögun þ.e. á formlegum kjörstöðum og með embættismönnum kosninganna. Innleiðing rafrænnar kjörskrár tel ég að gæti orðið til einhvers hagræðis fyrir borgarann jafnt sem embættismenn kosninganna. Ættu ekki að vera neinir annmarkar á innleiðingu þess verkfæris ef þess er gætt að eins sé með gögnin á rafrænu sniði farið og pappírskjörskrána. Innleiðing rafræns kjörklefa á almennum kjörstað krefst einungis minniháttar breytinga á lögunum um framkvæmd kosninga (t.d. þarf að fella út ákvæði um að atkvæðaseðill skuli vera úr pappir). Ég tel að netkosningar falli á veigamikilum innri rökum lýðræðis og kosningahefða þegar kosið er til sveitarstjórna, Alþingis eða hærri embætta, eða þegar kosið er beint um einhver mikilvæg mál. Lögð er minni áhersla á lagalegan ramma, hefðir og formsatriði eftir því sem kosningarnar hafa þrengri og léttvægari skírskotun. Á aðalfundum fyrirtækja og fundum félagasamtaka er algengt að kosið sé með handauppréttingu og er ekkert athugavert við það séu allir fundarmenn sáttir við þá högun. En benda má á það að í fundarsköpum er sterk hefð fyrir því að fundarmenn geti farið fram á að kosningar verði leynilegar og skal ávalt verða við þeirri beiðni. Reglur um kosningar hafa mótast af reynslu kynslóðanna og miðast við að tryggja að kosningar fari rétt og heiðarlega fram og að kjósendur geti kosið án utanaðkomandi þrýstings. Sama hversu léttvæg málefni virðast vera, þá er nauðsynlegt að búið sé þannig um hnúta þegar kosið er um málefnið að kosning verði leynileg til að hver kjósandi geti kosið samkvæmt eigin sannfæringu en ekki eins og einhver annar ætlast til að hann kjósi. Þess vegna er varhugavert að nota nýjar aðferðir við kosningar nema að vel athuguðu máli Niðurstaða mín er þar af leiðandi sú að ekkert er því til fyrirstöðu að innleiða rafræna kjörskrá og rafrænan kosningabúnað á kjörstöðum í öllum almennum kosningum svo fremi sem annarri högun sé ekki breytt. Það að kjósa í veigmiklum kosningum (t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslum, kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna) á Netinu tel ég aftur á móti að ég hafi sýnt framá að brjóti eina veigamestu forsenduna um eðlilega framkvæmd kosninga og geti af þeim sökum aldrei orðið að veruleika.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 8.10.2003
Flokkun:
Efnisorð
Tilvísun
Guðbrandur Örn Arnarson. „Upplýsingatækni og beint lýðræði“. Evrópuvefurinn 8.10.2003. http://evropuvefur.is/svar.php?id=70883. (Skoðað 21.11.2024).
Höfundur
Guðbrandur Örn ArnarsonHeimspekingur
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela