Spurning

Hvers vegna lækka verðtryggð lán ekki þegar verðbólga lækkar?

Spyrjandi

Sigurjón Gunnarsson
Hrönn Steingrímsdóttir og fleiri

Svar

Verðtryggð lán á Íslandi hækka í takti við vísitölu neysluverðs. Sé verðbólga mikil þá hækkar vísitalan hratt og þá lánin líka. Sé verðbólga lítil þá hækkar vísitalan hægt og lánin sömuleiðis. Lánin geta líka lækkað vegna verðtryggingar en til þess að það gerist þá er ekki nóg að verðbólga minnki eða lækki, verðlagið sjálft verður að lækka. Það er kallað verðhjöðnun. Á tímabili verðhjöðnunar fara verðlagsvísitölur eins og vísitala neysluverðs lækkandi.

Verðhjöðnun er ekki algeng á Íslandi en þó hafa komið einstaka mánuðir þar sem vísitala neysluverðs hefur lækkað. Þá hafa verðtryggð lán jafnframt lækkað, það er verðbætur verið neikvæðar. Þetta gerðist síðast í mars 2007, í kjölfar breytinga á virðisaukaskatti og þar áður í nóvember 2006.

Þegar horft er til lengri tíma hefur verðbólgan hins vegar haft vinninginn og verðlag farið hækkandi. Fara þarf alveg aftur til sjötta áratugs síðustu aldar til að finna dæmi um verulega verðhjöðnun sem náði yfir heilt ár. Mest varð lækkunin frá desember 1958 til sama mánaðar 1959 eða 7,84%. Þá lækkaði verðlag um rúm 3% frá október 1952 til sama mánaðar árið á eftir. Örlítil verðhjöðnun varð einnig árið 1948. Þar áður lækkaði forveri vísitölu neysluverðs um tæp 5% frá desember 1942 til sama mánaðar 1943. Árið 1943 var vitaskuld mjög óvenjulegt ár vegna heimsstyrjaldarinnar síðari.

Þetta var þó allt fyrir verðtryggingu lána, sem ekki var leyfð fyrr en með svokölluðum Ólafslögum árið 1979. Eftir það hefur aðeins einu sinni orðið verðhjöðnun þegar horft er til heils árs en hún var þó óveruleg. Frá október 1993 til nóvember 1994 varð örlítil verðhjöðnun, vísitala neysluverðs lækkaði úr 170,8 í 170,7 stig eða um 0,06%.

Lán í erlendri mynt eru alla jafna ekki verðtryggð en þá breytast afborganir og höfuðstóllinn, í íslenskum krónum, með breytingum á gengi krónunnar gagnvart viðkomandi mynt. Veikist krónan þá hækka afborganirnar og höfuðstóllinn, mælt í krónum, en styrkist krónan, þá lækka þær. Þetta er í raun alveg sambærilegt við það að verðtryggð lán hækka ef verðlag hækkar en lækka ef verðlag lækkar.

Upprunalegu spurningarnar hljóðuðu svona:
Er ekki andstætt náttúrulögmálunum að haga því þannig að verðtrygging sé aðeins til hækkunar lána, en ekki einnig til lækkunar þegar vel árar? Annars er ekki til neins að hlakka að komi betri tíð. (Sigurjón Gunnarsson)

Ég er með húsbréfalán með verðtryggingu og 5,1% vöxtum. Ef verðbólga hækkar hækka eftirstöðvar á láninu mínu. Ef verðbólga lækkar, þá lækkar ekki höfuðstóllinn. Á myntkörfuláni sveiflast höfuðstóll eftir gengi, ef króna styrkist lækka eftirstöðvar. Spurningin er af hverju lækka ekki eftirstöðvar á húsbréfum ef verðbólga lækkar? (Hrönn Steingrímsdóttir og fleiri)

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela