Spurning

Hvert verður hlutverk Seðlabanka Íslands ef við göngum í ESB og tökum upp evru?

Spyrjandi

Sólrún Jónsdóttir

Svar

Ef Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu og tæki upp evru í kjölfarið myndi Seðlabanki Íslands ekki lengur reka sjálfstæða peningastefnu. Hlutverk seðlabankans yrði að fara með framkvæmd sameiginlegrar peningamálastefnu evrusvæðisins, eftir þeim reglum og ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi Seðlabanka Evrópu. Nýr gjaldmiðill yrði tekinn í notkun og krónan lögð niður. Seðlabanki Íslands myndi sjá um prentun evruseðla og myntsláttu í samræmi við útreiknaðan hlut Seðlabanka Íslands í heildarhlutafé Seðlabanka Evrópu. Bankastjóri Seðlabanka Íslands myndi einnig eiga sæti í bankaráði og aðalráði Seðlabanka Evrópu. Seðlabanki Íslands myndi að öðru leyti halda áfram að sinna ýmsum verkefnum sem hann sinnir nú þegar.

***

Seðlabanki Evrópu (e. European Central Bank, ECB) ber ábyrgð á sameiginlegri peningamálastefnu evruríkjanna og seðlabankar þeirra sjá um að framkvæma fyrirmæli hans. Þeir sinna störfum sínum í samræmi við reglur og viðmiðanir sem ákveðnar eru á vettvangi bankaráðs Seðlabanka Evrópu og fylgja leiðbeiningum sem framkvæmdastjórn Seðlabanka Evrópu veitir þeim hverju sinni. Allar ákvarðanir varðandi peningamálastefnu evruríkjanna eru því teknar á vettvangi Seðlabanka Evrópu og framkvæmdar með dreifstýrðum (e. decentralised) hætti í hverju evruríki fyrir sig.

Fjármálastöðugleiki er áfram í höndum seðlabanka og fjármálaeftirlita evruríkjanna en krafa er gerð um upplýsingaflæði á milli ríkjanna. Seðlabankastjórar evruríkjanna sinna mikilvægu hlutverki við upplýsingagjöf. Þeir eiga sæti í bankaráði Seðlabanka Evrópu ásamt stjórnarmönnum í framkvæmdastjórn bankans. Bankaráðið fundar mánaðarlega en þar eru helstu ákvarðanir um peningamálastefnu evrusvæðisins teknar.


Seðlabanki Íslands.

Helstu verkefni seðlabanka evruríkjanna eru eftirfarandi:
  • Að framkvæma sameiginlegu peningamálastefnu evrusvæðisins.
  • Að annast útgáfu og dreifingu evruseðla og -myntar.
  • Að stýra rekstri gjaldeyrisforða Seðlabanka Evrópu, sem felur í sér framkvæmd og uppgjör markaðsviðskipta til að stuðla að aukinni fjárfestingu í gjaldeyrisforða Seðlabanka Evrópu.
  • Að stjórna eigin gjaldeyrisforða. Fyrirhugaðar aðgerðir seðlabankanna á þessu sviði eru háðar samþykki bankaráðs Seðlabanka Evrópu ef talið er að slíkar aðgerðir geti haft áhrif á gengi og lausafjárstöðu innanlands og ef þær fara yfir ákveðin viðmiðunarmörk sem Seðlabanki Evrópu hefur sett.
  • Að reka og hafa eftirlit með fjármálamörkuðum og greiðslumiðlun. Seðlabankar evruríkjanna stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þar með töldu greiðslukerfi innanlands og við útlönd, og aðhafast sem liður í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Evrópu (TARGET 2), sem gerir upp greiðslufyrirmæli í evrum. Sumir þeirra stýra einnig uppgjörskerfum fyrir verðbréf.
  • Að safna saman tölfræðilegum gögnum fyrir Seðlabanka Evrópu sem krefst ítarlegra upplýsinga um efnahags- og fjármálastöðu aðildarríkjanna til að geta ákveðið hvernig staðið skuli að framkvæmd peningastefnunnar. Seðlabankar evruríkjanna veita Seðlabanka Evrópu einnig gögn um stöðu innlendra fjármálastofnana sem byggja á hagskýrslum um peningamál, greiðslujöfnuð og fjármál sem og ársreikningum.
  • Að aðstoða Seðlabanka Evrópu við útgáfu og þýðingu efnahagsgreininga og rita.

Seðlabönkum evruríkjanna er einnig heimilt að halda áfram að gegna öðru hlutverki fyrir heimaland sitt telji bankaráð Seðlabanka Evrópu það ekki vera í andstöðu við markmið og verkefni evrusvæðisins. Seðlabankar evruríkjanna sinna því áfram almennum störfum og framkvæma almenn peningaviðskipti, annast bankaviðskipti ríkissjóða sinna og eru bankar lánastofnana. Flestir seðlabankar evruríkjanna hafa einnig eftirlit með innlendum fjármálastofnunum, en sums staðar er eftirlitið í höndum sérstakra stofnana eins og tíðkast á Íslandi (sbr. Fjármálaeftirlitið).

Heimildir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela