Spurning

Maastricht-skilyrðin

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Maastricht-skilyrðin (e. Maastricht criteria, formlega kölluð convergence criteria eða viðmiðanir um samleitni) eru skilyrðin sem ríki þarf að fullnægja til að geta tekið upp evru sem gjaldmiðil. Þau voru innleidd með Maastricht-sáttmálanum árið 1992.

Efnahagsleg samleitni er talin nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að taka upp evru með árangursríkum hætti. Til að tryggja þessa samleitni þurfa þátttökuríkin í Efnahags- og myntbandalaginu að uppfylla ákveðin efnahagsleg skilyrði. Skilyrðin lúta að meginþáttum efnahagsmála: verðbólgu, vöxtum, stöðugleika í gengismálum auk afkomu hins opinbera og skuldum þess.
  • Verðstöðugleiki. Verðbólga skal ekki vera meira en 1,5 prósentum hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur ESB-löndum er hafa hagstæðustu verðbólguþróunina.
  • Vaxtamunur. Nafnvextir langtímaskuldabréfa skulu ekki vera meira en 2 prósentum hærri en langtímavextir í þeim þremur ESB-löndum er hafa hagstæðustu verðbólguþróunina.
  • Stöðugleiki í gengismálum. Ríki skal hafa verið aðili að gengissamstarfi Evrópu (ERM II) í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar. Gjaldmiðill ríkisins má ekki sveiflast um meira en ±15% í kringum það miðgildi sem ákvarðað er í ERM II.
  • Afkoma hins opinbera. Halli á rekstri hins opinbera má ekki vera meiri en sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu (VLF).
  • Skuldir hins opinbera. Skuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en sem nemur 60% af VLF eða að skuldahlutfallið stefni nægilega hratt að því marki ef það er hærra en 60%.

Heimild:
Við þetta svar er ein athugasemd Fela athugasemd

Guðmundur Ásgeirsson 28.1.2012

Gaman væri að fá yfirlit yfir hvort og hvenær þessi skilyrði hafa verið uppfyllt hér á landi, sem og í evruríkjunum sjálfum.