Spurning

Efnahags- og myntbandalagið

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Efnahags- og myntbandalagið (e. Economic and Monetary Union, EMU) er samstarf aðildarríkja Evrópusambandsins í efnahags- og peningamálum. Formleg ákvörðun um stofnun EMU var tekin af ráði ESB í lok árs 1991 og voru ákvæði um samstarfið innleidd í sáttmála sambandsins með Maastricht-sáttmálanum árið 1992. Samstarfið átti sér þó langan aðdraganda en hugmyndir um samruna í peningamálum aðildarríkjanna voru þegar á lofti í lok sjötta áratugar tuttugustu aldar. Ýmsar efnahagslegar og pólitískar ástæður hindruðu hins vegar framkvæmd þeirra á þeim tíma.

Meginhvati myntsamstarfsins var að koma í veg fyrir óæskileg áhrif gengissveiflna á viðskipti milli ríkja. Eftir að innri markaðurinn og fjórfrelsið urðu að veruleika, með Einingarlögunum (e. Single European Act) árið 1987, óx þeirri skoðun ásmegin að gengissveiflur samræmdust ekki markmiðum innri markaðarins. Flest aðildarríki ESB höfðu átt í formlegu gengissamstarfi (e. exchange rate mechanism, ERM) allt frá árinu 1979 á grundvelli svonefnds peningakerfis Evrópu (e. European Monetary System, EMS). Samstarfið hafði góð áhrif á stöðugleika í gengisþróun en leiddi á hinn bóginn til þess að gjaldmiðlar aðildarríkjanna voru í reynd bundnir gengi þýska marksins og því undir hæl peningamálastefnu þýska seðlabankans.

Í Maastricht-sáttmálanum, sem gekk í gildi árið 1993, var kveðið á um hvernig staðið skyldi að undirbúningi Efnahags- og myntbandalagsins. Þar á meðal voru útlistuð þau efnahagslegu skilyrði, svokölluð Maastricht-skilyrði sem ríki þurftu að uppfylla áður en þau gætu tekið þátt í lokaáfanga EMU (þriðja áfanga) og tekið upp sameiginlega mynt.

Leiðin að upptöku sameiginlegrar myntar var farin í þremur áföngum:
  • Fyrsti áfanginn (e. stage I) hófst árið 1990 og stóð til ársloka 1993. Þá var samvinna aðildarríkjanna í efnahagsmálum efld og síðustu höftum á flæði gjaldeyris og fjármagns milli ríkjanna aflétt.
  • Annar áfanginn (e. stage II) kom til framkvæmda í ársbyrjun 1994 þegar Evrópska peningamálastofnunin (e. the European Monetary Institute, EMI), forveri Seðlabanka Evrópu, tók til starfa. Hún lagði grunninn að auknu samstarfi seðlabanka aðildarríkjanna í peningamálum.
  • Þriðji áfanginn (e. stage III) hófst formlega í byrjun árs 1999 þegar þau ríki sem höfðu uppfyllt Maastricht-skilyrðin fólu Seðlabanka Evrópu stjórn sameiginlegrar peningamálastefnu (e. monetary policy) og gengi gjaldmiðla þátttökuríkjanna var endanlega fest við sameiginlega mynt, evruna (€). Í upphafi var evran eingöngu notuð sem bókhaldsmynt en þann fyrsta janúar 2002 hófst dreifing evruseðla og -myntar og evran varð lögeyrir í þátttökuríkjunum.

Ellefu ríki tóku þátt í þriðja áfanganum þegar hann hófst árið 1999, Finnland, Írland, Holland, Belgía, Lúxemborg, Frakkland, Þýskaland, Austurríki, Spánn, Portúgal og Ítalía. Tveimur árum síðar var Grikkland talið hafa uppfyllt Maastricht-skilyrðin og fékk því aðild að þriðja áfanganum. Evran var því innleidd sem lögeyrir samtímis í þessum tólf löndum árið 2002. Þrjú ríki, Danmörk, Svíþjóð og Bretland, hafa kosið að taka ekki þátt í þriðja áfanganum. Af þeim löndum sem gengu í ESB við stækkanirnar árið 2004 og 2007 hafa fimm ríki þegar uppfyllt Maastricht-skilyrðin og tekið upp evru sem gjaldmiðil. Þau eru Slóvenía, Kýpur, Malta, Slóvakía og Eistland.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur17.2.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Efnahags- og myntbandalagið“. Evrópuvefurinn 17.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60058. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela