Spurning

Ráðið

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Ráð Evrópusambandsins (e. Council of the European Union, einnig kallað ráðherraráðið (e. Council of Ministers) eða ráðið (e. Council)) fer með löggjafarvald í sambandinu ásamt Evrópuþinginu og samræmir stefnu og aðgerðir aðildarríkjanna í fjölmörgum málaflokkum. Ráðið hefur aðsetur í Brussel þar sem það fundar reglulega en í apríl, júní og október eru fundir þess haldnir í Lúxemborg.

Ráðherraráðið er alltaf skipað einum ráðherra frá hverju aðildarríki. Ráðið fundar í ólíkum samsetningum eftir viðfangsefnum. Þannig funda landbúnaðarráðherrar um landbúnaðarmál, umhverfismálaráðherrar um umhverfismál og svo framvegis. Síðan Lissabon-sáttmálinn gekk í gildi árið 2009 eru samsetningar ráðsins eftirfarandi:

  • Almenna ráðið (e. General Affairs Council).
  • Utanríkismálaráðið (e. Foreign Affairs Council).
  • Efnahags- og fjármálaráðið (e. Economic and Financial Affairs Council).
  • Dóms- og innanríkismálaráðið (e. Justice and home Affairs Council).
  • Samgöngu-, fjarskipta- og orkuráðið (e. Transport, Telecommunications and Energy Council).
  • Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðið (e. Agriculture and Fisheries Council).
  • Umhverfismálaráðið (e. Environment Council).
  • Ráð menntunar, ungmenna, menningar og íþrótta (e. Education, youth, culture and sport Council).
  • Atvinnumála-, félagsmála, heilsu- og neytendamálaráðið (e. Employment, Social Policy, Health and Consumer Affairs Council).
  • Samkeppnisráðið (e. Competitiveness (internal market, industry, research and space) Council).

Aðildarríkin skiptast á að fara með formennsku í ráðinu í sex mánuði í senn. Þrjú samliggjandi formennskuríki koma sér saman um stefnu næstu 18 mánaða. Þegar þetta er skrifað, í febrúar 2012, fer Danmörk með formennskuna og mun Kýpur taka við 1. júlí 2012. Formennskuríkið undirbýr og sér um fundarstjórn á flestum ráðherrafundum. Það tryggir samfelldni og samræmi í þróun stefnu ESB og er fulltrúi ráðsins í samskiptum þess við aðrar stofnanir sambandsins.

Ráðið hefur sér til halds og trausts yfir 150 starfshópa og nefndir sérfræðinga frá aðildarríkjunum sem undirbúa þau mál sem liggja fyrir ráðinu. Þessir aðilar vinna að tæknilegum úrlausnaratriðum og koma þeim á framfæri nefndar fastafulltrúa aðildarríkjanna (fr. Comité des représentants permanents, COREPER), en í henni eiga sæti sendiherrar aðildarríkjanna gagnvart ESB. Flest mál eru leyst á fundum COREPER og sérfræðinganefndanna og þarfnast því einungis formlegs samþykkis ráðsins. Þau mál sem ekki tekst að leysa af COREPER eru tekin til umfjöllunar í ráðinu.

Hjá aðalskrifstofu ráðsins (e. General Secretariat) fer stjórnsýsla ráðsins fram. Þar starfa um 3500 manns undir aðalframkvæmdastjóra ráðs ESB (e. Secretary General) sem er skipaður af leiðtogaráðinu. Aðalskrifstofan starfar náið með formennskuríki ráðsins hverju sinni.

Ráðið tekur ákvarðanir eftir þremur leiðum í samræmi við sáttmála sambandsins og eru þær háðar því hvaða málefni er til umræðu:
  • Með einföldum meirihluta (51% atkvæða) þegar um ræðir atriði er varða málsmeðferð.
  • Með auknum meirihluta (73,9% atkvæða) þegar ákvarðanir varða innri markaðinn, efnahagsmál og viðskipti. Aðildarríkin hafa þá misjafnlega mörg atkvæði íbúafjölda þeirra, allt frá 3 upp í 29.
  • Með einróma samþykki (100% atkvæða) þegar ákvarðanir varða utanríkis- og varnarmál, samvinnu í dóms- og lögreglumálum og skattamál.

Ákvarðanir ráðsins eru í langflestum tilfellum teknar á grundvelli tillagna frá framkvæmdastjórninni og í samráði við Evrópuþingið, ýmist í samræmi við svokallaða almenna lagasetningarmeðferð eða sérstaka lagasetningarmeðferð.

Þann 1. nóvember 2014 munu taka gildi nýjar reglur um ákvarðanatöku í ráðinu en um þessar breytingar hefur verið fjallað í svari við spurningunni Nákvæmlega hverju breytir Lissabon-sáttmálinn um áhrif smáríkja innan ráðs ESB á næstu árum?

Almenningur getur fylgst með umræðum og atkvæðagreiðslum um frumvörp í ráðherraráðinu. Ennfremur eru skrifleg gögn ráðherranna öllum aðgengileg á vefsíðu ráðs Evrópusambandsins.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.2.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Ráðið“. Evrópuvefurinn 9.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60019. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela