Spurning

Sérstök lagasetningarmeðferð

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Flestar lagagerðir Evrópusambandsins eru samþykktar með almennri lagasetningarmeðferð þar sem Evrópuþingið og ráðið hafa sama vægi í löggjafarferlinu. Í sérstökum tilvikum er afleidd löggjöf ESB hins vegar samþykkt af hálfu ráðsins með þátttöku Evrópuþingsins eða, í örfáum tilfellum, af hálfu Evrópuþingsins með þátttöku ráðsins, og kallast þetta sérstök lagasetningarmeðferð (e. special legislative procedure) (2. mgr. 289. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (SSE)). Sérstakri lagasetningarmeðferð er einnig beitt þegar samþykkja þarf lagagerðir að frumkvæði hóps aðildarríkja eða Evrópuþingsins, að fengnum tilmælum frá Seðlabanka Evrópu eða að beiðni dómstóls Evrópusambandsins eða Fjárfestingarbanka Evrópu (4. mgr. 289. gr. SSE).

Sérstakar lagasetningarmeðferðir skiptast í samráð og samþykki eftir því í hvaða málaflokk ný löggjöf fellur:
  • Samráð (e. consultation) er ein tegund sérstakrar lagasetningarmeðferðar og felst í því að Evrópuþingið gefur álit á lagafrumvarpi áður en ráðið samþykkir það. Evrópuþingið getur samþykkt slík lagafrumvörp, hafnað þeim eða lagt fram breytingartillögur áður en þau eru samþykkt á vettvangi ráðsins. Ráðið er ekki skuldbundið til að fara eftir áliti eða breytingartillögum Evrópuþingsins en sú krafa er gerð að ráðið bíði eftir áliti Evrópuþingsins áður en það tekur ákvörðun í tilteknum málaflokkum. Samráðs við Evrópuþingið þarf til að mynda að gæta þegar ný löggjöf er tekin upp á sviði samkeppnismála og innri markaðarins eða þegar ráðstafanir er varða almannatryggingar og félagslega vernd eru samþykktar. Einnig þarf samráð við Evrópuþingið þegar dómstól Evrópusambandsins er falin lögsaga í ágreiningsmálum um beitingu gerða sem samþykktar eru á grundvelli sáttmálanna og mynda evrópskan hugverkarétt eða við breytingu stofnsamþykktar Fjárfestingarbanka Evrópu. Samráð krefst hreins meirihluta þingmanna við atkvæðagreiðslu.
  • Samþykki (e. consent) er önnur tegund sérstakrar lagasetningarmeðferðar sem veitir Evrópuþinginu og ráðinu neitunarvald. Hlutverk Evrópuþingsins eða ráðsins er þá að samþykkja lagafrumvarp eða hafna því án þess að geta lagt fram breytingartillögur og er stofnununum gert að fara eftir ákvörðunum hvors annars. Samþykki meirihluta þingmanna Evrópuþingsins þarf til að mynda þegar árleg fjárlög sambandsins eru sett eða þegar sameiginleg stefna í utanríkis- og öryggismálum og öryggis- og varnarmálum er ákveðin. Einnig þarf samþykki Evrópuþingsins þegar nýtt ríki gerist aðili að Evrópusambandinu eða ef ríki vill segja sig úr sambandinu, þegar aðildarríki er beitt viðurlögum vegna alvarlegra og/eða síendurtekinna brota á ákvæðum samninganna og við gerð tiltekinna alþjóðasamninga. Samþykki ráðsins þarf hins vegar við setningu reglugerða, að frumkvæði Evrópuþingsins, varðandi skyldur þingmanna og umboðsmanns Evrópuþingsins eða þegar dómstóll Evrópusambandsins setur sér starfsreglur.

Sérstök lagasetningarmeðferð er því frábrugðin almennri lagasetningarmeðferðar vegna þess að Evrópuþingið eða ráðið fara ekki sameiginlega með lagasetninguna (sbr. 19 gr., 21 gr., 64 gr., 113 gr., 115 gr., 127 gr., 192 gr., 223 gr., 311-312 gr. sáttmálans um starfshætti ESB) eða vegna þess að framkvæmdastjórnin hefur ekki frumkvæðið að nýrri löggjöf heldur önnur stofnun eða hópur aðildarríkja (sbr. 228. gr., 308. gr. og 349. gr. SSE).
Við þetta svar er engin athugasemd Fela