Spurning
Norður-Atlantshafsbandalagið, NATO
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Norður-Atlantshafsbandalagið (e. North Atlantic Treaty Organisation, NATO) var stofnað árið 1949. Stofnaðilar voru Bandaríkin, Belgía, Bretland, Danmörk, Frakkland, Holland, Ísland, Ítalía, Kanada, Lúxemborg, Noregur og Portúgal; samtals 12 ríki í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu. Tilgangurinn var að stemma stigu við þeirri hættu sem talin var stafa af Sovétríkjunum og ásælni þeirra til vesturs. Eftir lok kalda stríðsins og hrun Sovétríkjanna var ógnin, sem NATO var upprunalega stofnað til að verjast, ekki lengur fyrir hendi og töldu margir að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri þess. NATO var þó ekki lagt niður en hlutverk þess átti eftir að taka töluverðum breytingum á næstu árum. Nánar er fjallað um NATO og breytt hlutverk þess í svari við spurningunni Hvenær og hvers vegna var NATO stofnað og hvaða tilgangi gegnir það í dag? Höfuðstöðvar NATO eru staðsettar í Brussel í Belgíu þar sem um 4 þúsund einstaklingar starfa og eru þær vettvangur samráðs og samstarfs milli aðildarríkjanna. Þar að auki starfa um 100 þúsund einstaklingar að verkefnum á vegum NATO víðs vegar í heiminum og koma þeir úr röðum her-, flota- og flugsveita auk borgaralegra liðsmanna aðildarríkja NATO. Núverandi framkvæmdastjóri NATO er Daninn Anders Fogh Rasmussen sem tók við störfum árið 2009. Bandaríkin skipa herliðsforingja NATO (e. chief military officer) og því hefur skapast hefð fyrir því að framkvæmdastjóri bandalagsins sé frá Evrópu. Framkvæmdastjórinn er skipaður með fremur óformlegum hætti þar sem diplómatískir fulltrúar ræða sín á milli um framkvæmdastjóraefni þar til komist er að sameiginlegri niðurstöðu um ákveðinn aðila. Hann er venjulega skipaður til fjögurra ára í senn en aðildarríkin geta beðið hann um að starfa lengur ef samhljóða samþykki liggur fyrir. Allar ákvarðanir sem eru teknar á vettvangi bandalagsins þurfa einróma samþykki aðildarríkjanna. Þegar þetta er skrifað eru 28 ríki í bandalaginu. Sex stækkanir hafa átt sér stað frá stofnun: Grikkland og Tyrkland gerðust aðilar árið 1952, Þýskaland árið 1955, Spánn árið 1982, Pólland, Tékkland og Ungverjaland árið 1999, Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Rúmenía, Slóvakía og Slóvenía árið 2004 og Albanía og Króatía árið 2009. Auk þess hefur NATO stofnað til tvíhliðasamskipta við fjöldamörg ríki víðs vegar um heiminn.Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur22.6.2012
Flokkun:
Efnisorð
NATO Sovétríkin kalda stríðið aðildarríki varnarbandalag Belgía framkvæmdastjóri herliðsforingi höfuðstöðvar
Tilvísun
Evrópuvefur. „Norður-Atlantshafsbandalagið, NATO“. Evrópuvefurinn 22.6.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60066. (Skoðað 3.12.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela