Spurning

Hvenær og hvers vegna var NATO stofnað og hvaða tilgangi gegnir það í dag?

Spyrjandi

Hilmar Þór, Hafdís Hafsteinsdóttir, Benedikt Oddsson, Sigurgeir Thoroddsen, Guðmundur Magnússon

Svar

Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO) var stofnað árið 1949 af tólf ríkjum í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu. Stofnsáttmáli bandalagsins, sem var undirritaður 4. apríl 1949, kveður á um að NATO-ríkin skuldbinda sig til að "standa vörð um frelsi, sameiginlega arfleifð og borgaraleg gildi þjóða sinna, sem byggð eru á lögmálum lýðræðis, einstaklingsfrelsis og réttarríkisins." Með aðild að NATO heita bandalagsríkin því fyrst og fremst að aðstoða hvert annað ef á þau er ráðist.

Upprunalegur tilgangur NATO var að stemma stigu við þeirri hættu sem talin var stafa af Sovétríkjunum og ásælni þeirra til vesturs. Árið 1955 var Varsjárbandalagið stofnað til móts við NATO. Á tímum kalda stríðsins skiptist norðurhluti heimsins því í tvær hernaðarblokkir; NATO með Bandaríkin í fararbroddi og Varsjárbandalagið undir forystu Sovétríkjanna.


Höfuðstöðvar NATO í Brussel í Belgíu.

Með falli Sovétríkjanna og upplausn Varsjárbandalagsins var ógnin, sem NATO var upprunalega stofnað til að verjast, ekki lengur fyrir hendi og töldu margir að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri þess. NATO var þó ekki lagt niður en hlutverk þess átti eftir að taka töluverðum breytingum á næstu árum.

Á tíunda áratug síðustu aldar brutust út óeirðir í Suðaustur-Evrópu í kjölfar þess að Júgóslavía liðaðist í sundur en hvorki EvrópusambandiðSameinuðu þjóðirnar voru í stakk búin til að bæla þær niður. NATO skarst því í leikinn á Balkanskaga og það leiddi til hernaðaraðgerða í Bosníu, árið 1995, og Serbíu, árið 1999. Með þessu hóf NATO að starfa utan þess svæðis sem afmarkast af aðildarríkjum þess. Fram til þessa hefur NATO til dæmis einnig lokið aðgerðum í Írak, Líbíu, Makedóníu og Súdan.

Frá árinu 1999 hefur NATO jafnframt stækkað til austurs og hafa tólf ríki sem áður lutu stjórn Sovétríkjanna gerst aðilar að bandalaginu. Þegar þetta er skrifað eru 28 ríki aðilar að NATO.

Hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001 mörkuðu ákveðin tímamót fyrir bandalagið. Þá samþykktu aðildarríki NATO í fyrsta sinn að virkja 5. grein stofnsáttmála bandalagsins sem kveður á um að árás á eitt bandalagsríki jafngildi árás á þau öll. Bandaríkin vildu þó í fyrstu ekki að NATO tæki þátt í stríðinu í Afganistan og var það ekki fyrr en árið 2003 sem bandalagið tók formlega við störfum alþjóðafriðargæslunnar ISAF, sem starfaði á vegum Sameinuðu þjóðanna. Rúmlega tíu árum síðar, þegar þetta er skrifað, hefur NATO ekki tekist að koma á friði þar í landi og stendur verkefnið enn yfir.

Um 100 þúsund einstaklingar starfa að verkefnum á vegum NATO víðs vegar í heiminum og koma þeir úr röðum her-, flota- og flugsveita auk borgaralegra liðsmanna aðildarríkja NATO. Í dag vinna sérsveitir NATO að aðgerðum í Afganistan, Kósóvó, við Miðjarðarhafið og í Sómalíu. NATO sér einnig um eldflaugavarnakerfi fyrir Evrópu og Norður-Ameríku og fæst við nútímavandamál eins og tölvuárásir.

Heimildir og mynd:

Hafdís spurði: Hvað er NATO og hvað gerir það?. Benedikt spurði: Getur einhver sagt mér eitthvað um NATO?

Sigurgeir spurði: Hvað getið þið sagt mér um NATO? og Guðmundur spurði: Hvað er NATO? og Hvað getið þið sagt almennt um NATO?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 6.12.2013

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvenær og hvers vegna var NATO stofnað og hvaða tilgangi gegnir það í dag?“. Evrópuvefurinn 6.12.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=18240. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela