Eru til fordæmi fyrir því að aðildarríki ESB hafi fengið varanlegar undanþágur frá ákvæðum Lissabon-sáttmálans?
Spyrjandi
Viktor Hrafn Hólmgeirsson
Svar
Þónokkrar undanþágur voru veittar frá ákvæðum Lissabon-sáttmálans sem var undirritaður 13. desember 2007 og gekk í gildi 1. desember 2009. Þar er um að ræða undanþágur frá ákvæðum sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi (Charter of Fundamental Rights), ákvæðum á sviði skattastefnu, og loks málefna er varða fjölskylduna og hlutleysi ríkis. Þá urðu breytingar á undanþágum Bretlands, Írlands og Danmerkur á sviði innanríkis- og dómsmála. Bretland og Pólland sömdu um undanþágu frá ákvæðum sáttmála ESB um grundvallarréttindi. Í bókun við Lissabon-sáttmálann (Protocol on the application of the Charter of Fundamental Rights of the European Union to Poland and to the United Kingdom) kemur þannig fram að hann veitir hvorki Evrópudómstólnum né neinum öðrum dómstóli eða úrskurðaraðila í Póllandi eða Bretlandi aukið úrlausnarvald um það hvort lög og stjórnsýslufyrirmæli, venjur eða aðgerðir ríkjanna tveggja samrýmist þeim grundvallarréttindum, því frelsi og þeim meginreglum sem hann áréttar. Sömuleiðis er ekkert í sáttmálanum sem skapar lagaleg réttindi sem gilda í Póllandi eða Bretlandi, nema að því marki sem ríkin tvö hafa veitt slík réttindi í landslögum sínum. Að því marki sem ákvæði sáttmálans vísa til landslaga og venja gilda þau aðeins um Pólland eða Bretland að því leyti sem þau réttindi og meginreglur, sem hann hefur að geyma, eru viðurkennd í lögum og venjum ríkjanna tveggja. Forseti Tékklands krafðist þess að Tékkland yrði einnig undanskilið frá ákvæðum sáttmálans um grundvallarréttindi og Leiðtogaráðið samþykkti þá kröfu. Tékkar höfðu einkum áhyggjur af því að sáttmálinn gæti leitt af sér eignakröfur frá Þjóðverjum sem voru hraktir frá Tékklandi eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Tékklandi verður þannig bætt við áðurnefnda bókun næst þegar breytingar verða gerðar á Lissabon-sáttmálanum, en breytingar á sáttmálum sambandsins fara fram samhliða inngöngu nýs ríkis.Írland hafnaði Lissabon-sáttmálanum árið 2008 og settist aftur að samningaborðinu í kjölfarið. Eitt af því sem ríkið samdi sérstaklega um var að tryggt yrði að Lissabon-sáttmálinn takmarkaði ekki fullveldi Írlands þegar kemur að skattastefnu, málefnum fjölskyldunnar og hlutleysi ríkisins. Hvað varðar málefni fjölskyldunnar var Írum mest í mun að viðhalda banni við fóstureyðingum, sem eru bannaðar á Írlandi, ef undanskildar eru barnshafandi konur sem gætu verið í lífshættu ef meðgöngu er haldið áfram. Danmörk, Bretland og Írland fengu margs konar undanþágur frá samstarfi á sviði lögreglu- og dómsmála sem voru innleiddar í Evrópurétt með Amsterdam-sáttmálanum árið 1999. Þar á meðal eru málefni hælisleitenda og innflytjenda, og mál er varða vegabréfsáritanir. Samkvæmt Lissabon-sáttmálanum er ríkjunum nú frjálst að taka þátt í þeim aðgerðum á sviði innanríkis- og dómsmála sem þau kjósa hverju sinni. Írland hyggst endurskoða sína stefnu í málaflokknum árið 2012. Heimildir og mynd:
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur27.6.2011
Flokkun:
Efnisorð
Lissabon-sáttmáli undanþágur grundvallarréttindi skattastefna fjölskyldumálefni hlutleysi Bretland Pólland Tékkland Írland fóstureyðingar hælisleitendur vegabréf Amsterdam-sáttmáli
Tilvísun
Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Eru til fordæmi fyrir því að aðildarríki ESB hafi fengið varanlegar undanþágur frá ákvæðum Lissabon-sáttmálans?“. Evrópuvefurinn 27.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60081. (Skoðað 28.1.2025).
Höfundur
Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef