Svar
Svarið við þessari spurningu fer eftir því hvaða mælikvarði er notaður á „efnahagslegan ávinning“. Hér verður notast við raunhagvöxt á mann, það er breytingar á landsframleiðslu á mann. Síðan evran var tekin upp árið 1999 hefur raunhagvöxtur á mann dregist saman í evrulöndunum. Óvíst er hins vegar hvort evrunni sé þar beinlínis um að kenna. – Vert er að vekja athygli á því að hægt er að mæla efnahagslegan ávinning á annan hátt, svo sem með því að taka tillit til verðbólgu og atvinnuleysis. Þegar hagkerfi eru borin saman er hins vegar mjög algengt að notast sé við landsframleiðslu á mann og verður það því gert hér.
***
Eitt af því sem spáð var að mundi gerast við upptöku evrunnar var að hagvöxtur í þátttökulöndunum ykist. Ástæðan var meðal annars talin sú að enginn vafi yrði lengur um óvissuþætti á borð við gengissveiflur. Þá var þess vænst að viðskipti milli evrulandanna á sameiginlega markaðinum mundu aukast, vextir yrðu samhverfir og lægri og allt hefði þetta jákvæð áhrif á hagvöxt. Sem dæmi um væntingarnar má nefna grein Pereira (1999) í riti Seðlabanka Portúgal þar sem því var gert skóna að upptaka evru mundi auka langtímahagvöxt á mann þar í landi úr 3,1% á ári í 3,5%.
Árlegur hagvöxtur á mann í evrulöndunum 17. Gögn frá OECD. |
Það olli því mörgum heilabrotum þegar hagvöxtur í evrulöndunum dróst saman skömmu eftir innleiðingu evrunnar á millibankamarkaði árið 1999, en seðlar og mynt leystu eldri gjaldmiðla af hólmi 1. janúar 2002 (sjá mynd).
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins færði rök fyrir því árið 2004, að lítill hagvöxtur strax eftir upptöku evrunnar hafi orsakast af ytri áföllum, sem komu evrusamstarfinu ekki við. Á meðal þessara ytri áfalla var hrun internetbólunnar og olíuverðshækkanir árið 2000. En vandamálið hvarf ekki á braut þótt hagvöxtur ykist aftur tímabundið. Síðan árið 2008 hefur hagvöxtur á mann í evrulöndunum verið langt fyrir neðan sögulegt meðaltal.
Meðalhagvöxtur á mann í mismunandi evrulöndum fyrir og eftir upptöku evrunnar á millibankamarkaði árið 1999. Gögn frá OECD. Ath. önnur tímabil í tilviki Grikklands. |
Spurningin sem eftir stendur er hvort hagvöxtur á mann hafi verið svo lítill sem raun ber vitni
vegna evrunnar, en um það eru menn ekki sammála. Til að mynda hefur verið bent á að evran hafði ekkert með fall bandaríska húsnæðismarkaðarins að gera en margir vilja rekja upphaf núverandi efnahagsvandræða til þess. Þá hefur hagvöxtur í löndum utan evrusvæðisins einnig dregist saman frá árinu 2008 og það kemur evrunni sáralítið við. Barrell og fleiri héldu því jafnframt fram snemma árs 2008, að evrópska myntsamstarfið, sem innheldur bæði evrulöndin og önnur Evrópusambandslönd, „hafi á heildina litið haft jákvæð áhrif á hagvöxt og atvinnustig“ þótt áhrifin hafi verið sterkari í kjarnalöndum svæðisins (Barrell, 2008).
Aðrir, svo sem Vernengo og Pérez-Caldentay (2012), segja að evrukrísan sé afleiðing misvægis milli kjarna- og jaðarlanda (e. core/periphery countries) evrusvæðisins, sem væri innbyggt í evrusamstarfið. Ekki aðeins kæmi evran í veg fyrir að lönd, sem þyrftu á því að halda, gætu fellt gengi eigin gjaldmiðils og sloppið þannig, í það minnsta tímabundið, undan mestu vandræðunum heldur væri upphaf kreppunnar í Evrópu beinlínis evru-módelinu að kenna.
Enn aðrir hafa leitað skýringa á slökum hagvexti í umgjörðinni um evrusamstarfið en ekki beinlínis í innleiðingu sameiginlegrar myntar. Þar er helst að nefna
Maastricht-sáttmálann sem kveður á um skilyrðin fyrir því að aðildarríki Evrópusambandsins megi taka upp evru sem lögeyri.
Á meðal þeirra
Maastricht-skilyrða sem af mörgum eru talin vera til vandræða er krafan um að halli á ríkisfjárlögum sé ekki umfram 3% og að opinberar skuldir megi ekki vera meiri en 60% af vergri landsframleiðslu. Þetta valdi því til dæmis að hið opinbera geti ekki að vild notað tímabundna efnahagssveiflujafnara á borð við atvinnuleysisbætur. Maastricht-sáttmálinn og Maastricht-skilyrðin séu því helsta ástæðan fyrir því að evrusamstarfið virðist hafa dregið úr hagvexti. Það sé hins vegar Maastricht-sáttmálanum að kenna en ekki evrusamstarfinu sem slíku, það er sameiginlegum gjaldmiðli.
Niðurstaðan er því sú að síðan evran var tekin upp árið 1999 hefur hagvöxtur á mann í evrulöndunum dregist saman. Enginn dregur það í efa. Menn eru hins vegar ekki sammála um hvort hægt sé að kenna evrunni um lakari hagvöxt. Þá má heldur ekki gleyma því, sem tekið var fram í upphafi, að hægt er að mæla efnahagslegan ávinning á annan hátt en með breytingum á hagvexti á mann.
Ábending ritstjóra: Í skýrslu Seðlabanka Íslands
Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum er fjallað nokkuð ítarlega um efnahagsþróunina á evrusvæðinu í
öðrum kafla skýrslunnar.
Heimildir:
Upprunaleg spurning:
Eru til traustar rannsóknir á því hvort efnahagslegur ávinningur hafi verið af evrusamstarfinu fyrir þau ríki sem eiga aðild að því?