Spurning

Glata Íslendingar fullveldinu við inngöngu í ESB?

Spyrjandi

Guðjón Eiríksson

Svar

Í þjóðarétti er gengið út frá þeirri frumforsendu að öll sjálfstæð ríki séu fullvalda. Þau hafi þannig ótakmarkað þjóðréttarhæfi, geti orðið aðilar að hvers kyns réttindum og skyldum að þjóðarétti og þiggi ekki tilkall sitt til þeirrar stöðu frá öðrum þjóðréttaraðilum (það er öðrum ríkjum eða alþjóðastofnunum). Gerist Ísland aðili að ESB mun það þurfa að framselja vissa þætti ríkisvalds til stofnana ESB. Ísland kæmi hins vegar á móti að setningu reglna fyrir allt sambandið og því má segja að fullveldi glatist ekki heldur yrði því deilt með öðrum ríkjum.

***

Segja má að fullveldishugtakið og hugmyndir um fullveldi tengist upphaflega tilkomu þeirrar kröfu í anda upplýsingastefnunnar að það eigi að vera unnt að útskýra hvaðan hið lögmæta ríkisvald kemur hverju sinni. Þannig réttlættu hinir upplýstu einvaldar í Evrópu á 17. og 18. öld oft vald sitt með því að þeir þægju það beint frá Guði. Með þjóðfélagsbreytingum og lýðræðisumbótum á 18. og 19. öld koma til sögu lýðræðiskenningar sem byggjast á því að lögmæti ríkisvaldsins stafi frá samfélagssáttmála eða, í tilviki þjóðríkis, frá þeirri þjóð sem byggir ríkið. Endurspeglast þetta þá eftir atvikum gjarnan ýmist beint eða óbeint í stjórnarskrám viðkomandi ríkja.



Aðildarríki Evrópusambandsins koma saman að setningu laga og reglna fyrir sambandið.

Í þjóðarétti er hins vegar ekki tekin sérstök afstaða til þessa álitaefnis heldur er þar einfaldlega gengið út frá þeirri frumforsendu að öll sjálfstæð ríki séu fullvalda, sem aftur hafi þá þýðingu að þau hafi það sem kallast ótakmarkað þjóðréttarhæfi og áður var nefnt. Fullvalda ríki eru samkvæmt framansögðu aðeins bundin út á við af almennum reglum þjóðaréttarins sem og því sem þau skuldbinda sig til sjálf á alþjóðavettvangi, til dæmis með samningum, en eru ekki formlega sett undir önnur ríki eða alþjóðastofnanir að öðru leyti. Birtist þetta meðal annars í því að fullvalda ríki eru talin vera formlega jafnstæð, óháð raunverulegu vægi þeirra á alþjóðavettvangi, og önnur ríki mega ekki heimildarlaust hlutast til um einkamálaefni ríkisins enda teldist slíkt þá vera þjóðréttarbrot.

Til samanburðar má geta þess að alþjóðastofnanir eru almennt ekki taldar fullvalda líkt og sjálfstæð ríki heldur hafi þær aðeins takmarkað þjóðréttarhæfi, það er að segja þær valdheimildir sem aðildarríkin teljast hafa falið þeim beint eða óbeint með stofnsamningi eða þá síðari samningum eða bindandi gerðum.

Ólíkt flestum þeim alþjóðastofnunum sem Ísland á nú aðild að telst Evrópusambandið vera það sem kallast yfirþjóðleg (e. supranational) alþjóðastofnun. Helgast það einkum af því að þau ríki sem gerast aðilar að ESB verða við það að framselja löggjafarstofnunum ESB vald til að setja reglur á tilteknum sviðum sem samstarfið nær til. Þar að auki fá dómar Evrópudómstólsins skuldbindingargildi í rétti aðildarríkjanna og framkvæmdastjórn ESB öðlast vissar stjórnvaldsheimildir í aðildarríkjunum en þó aðeins á mjög afmörkuðum sviðum. Hvað varðar setningu löggjafar þá einkennist hið yfirþjóðlega eðli Evrópusambandsins öðru fremur af því að tiltekinn ESB-réttur telst hafa það sem kallast:
  • bein lagaáhrif: ESB-rétturinn verður hluti af landslögum aðildarríkja án sérstakrar innleiðingar í landsrétt þess,
  • bein réttaráhrif: einkaaðilar geta byggt bein réttindi sín á viðkomandi ESB-rétti í aðildarríkjunum og
  • forgangsáhrif: ESB-réttur gengur framar landsrétti í rétthæð réttarheimilda.
Hér ber að geta þess að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn), sem gekk í gildi 1. janúar 1994 (sbr. lög nr. 2/1993), hefur í megindráttum en með nokkurri einföldun viðlíka þýðingu og aðild að ESB, en þó aðeins eins langt og gildissvið EES-samningsins nær, það er að segja einkum til svonefnds innri markaðar og tengdra sviða. Meginmunurinn á EES og ESB er hins vegar sá að EES-samningurinn tekur ekki til mikilvægra sviða þar sem stofnanir ESB fara með valdheimildir fyrir hönd aðildarríkja, svo sem á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar, eða þar sem ESB-ríkin eiga í mikilvægu samstarfi svo sem á sviði utanríkis- og varnarmála. Auk þess koma fulltrúar aðildarríkja að EES utan ESB ekki með virkum hætti að setningu sameiginlegra reglna.

Gerist Ísland aðili að ESB mun það líkt og önnur aðildarríki ótvírætt þurfa að framselja vissa þætti ríkisvalds til stofnana ESB. Á móti kemur hins vegar að fulltrúar Íslands fengju þá aðild að þeim sömu stofnunum ESB sem fara með þær valdheimildir fyrir hönd allra aðildarríkja, og kæmi þar með að setningu reglna fyrir allt sambandið. Vísast væri þá nær sanni að segja að fullveldi yrði þannig deilt með öðrum ríkjum, en því ekki glatað.

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvað er fullveldi, og munu Íslendingar glata því við aðild að ESB?
Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Frosti Sigurjónsson 14.9.2011

Þegar tvö jafn stór ríki ákveða að "deila fullveldi sínu" þá mætti hugsanlega líta svo á að þau hafi ekki tapað því í raun.

En þegar smáríki deilir fullveldi sínu með stórríki má vera ljóst að smáríkið hefur eftir það glatað fullveldi sínu í raun. Því vegna hlutfallslegrar smæðar hefur það óveruleg áhrif á ákvarðanir sem það þarf að lúta.

Einnig þarf að velta því fyrir sér hvort hægt sé að afturkalla framsalið auðveldlega, eða hvort það sé mjög erfitt. Því erfiðari sem afturköllun er, því varanlegra er fullveldisframsalið í raun.

Þótt hægt sé að ganga úr ESB er það erfitt því við inngönguna falla t.d. niður allir fríverslunarsamningar Íslands við önnur ríki. Aðild opnar á ýmis eignatengsl sem ekki verður undið ofanaf þótt gengið sé út. Ólíklegt er að ESB vilji gera góðan samning við útgönguríki, nema það vilji hvetja fleiri ríki til útgöngu. Að lokum, hafi aðildarríki tekið upp evru er ekki aftur snúið. Allar vísbendingar um útgöngu myndu leiða til fjármagnsflótta og kreppu í því landi.

Vegna smæðar Íslands og örðugleika við útgöngu er því varlegra að reikna með því að fullveldisframsal verði verulegt og varanlegt, komi til aðildar.

Pétur Dam Leifsson 30.11.2011

Að gefnu tilefni er rétt að árétta að ályktun mín, um að aðild Íslands að ESB fæli í sér að fullveldi yrði deilt fremur en að því væri glatað, byggir á því sem ég vil kalla formlega og hlutlæga greiningu. - Það er sú einfalda staðreynd að með aðild Íslands að ESB yrðu viss fullveldisréttindi látin öðrum í té en að sama skapi kæmi til hlutdeild í fullveldisréttindum sem ekki voru fyrir hendi áður. Ég tek hér hins vegar enga afstöðu til þess hvort aðild Íslands að umræddri alþjóðastofnun sé fýsileg með hliðsjón af hagsmunum Íslands. Það var ekki viðfangsefnið hér (samanber spurninguna sem fyrir lá) og er álitaefni sem hver og einn verður að gera upp við sig þegar viðkomandi telur sig hafa nægar forsendur til að mynda sér skoðun á því. Það hef ég, eins og svo margir aðrir reikna ég með, ekki gert enn sem komið er. Að sama skapi er ljóst út frá formlegri og hlutlægri greiningu að sérhvert fullvalda ríki sem er aðili að ESB getur nú yfirgefið sambandið. Hversu raunhæft er að ætla að slíkt gerist eða hvað slíkt gæti þá falið í sér er allt annað mál en fyrir því höfum við engin eiginleg fordæmi (nema helst í tilviki Grænlands sem taldist sem slíkt ekki eiginlegt aðildarríki og því naumast hægt að álykta mikið út frá því). Ég vona að lokum að umræðan um þessi mál geti í öllu falli orðið upplýsandi og málefnaleg þannig að við getum sem flest myndað okkur rökstuddar skoðanir.