Svar
Skammstöfunin CAP stendur fyrir
Common Agricultural Policy eða
Sameiginlega landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Hún var frá upphafi einn af hornsteinum sambandsins og fyrsta stefnumótunarverkefnið sem var alfarið á forsvari þess. Undir hana féll lengi vel mikill hluti af útgjöldum sambandsins. Jafnframt hefur þetta verkefni verið afar umdeilt og stefnan sætt mikilli gagnrýni.
***
Upphaflega landbúnaðarstefnan á rætur sínar að rekja til Vestur-Evrópu eftirstríðsáranna, þar sem samfélög höfðu verið eyðilögð af stríðsrekstri og skortur var á mat. Á þessum tíma fór hvert ríki sínar eigin leiðir til að rétta af landbúnaðinn í sínu landi og flestar brutu aðferðirnar í bága við hugmyndina um sameiginlegan evrópskan markað með frjálsri samkeppni, sem þá var í pípunum. Sameiginlega landbúnaðarstefnan kom þannig til sögunnar sem málamiðlun milli aðildarríkjanna og var nauðsynleg til þess að
Efnahagsbandalag Evrópu (EBE) gæti orðið að veruleika.
Fimm árum eftir stofnun EBE, árið 1962, gekk sameiginlega landbúnaðarstefnan í gildi. Markmið hennar komu fram í 33. gr.
Rómarsáttmálans (39. gr Lissabon-útgáfunnar) en þau eru:
- að auka framleiðni í landbúnaði og tryggja sem hagkvæmasta nýtingu framleiðsluþátta;
- að tryggja viðunandi lífskjör í landbúnaði;
- að sjá til þess að stöðugleiki ríki á mörkuðum;
- að tryggja vöruframboð og
- að sjá til þess að neytendur fái vörur á sanngjörnu verði.
Sameiginlega landbúnaðarstefnan byggist á þremur grundvallarþáttum:
- sameiginlegum markaði með samræmdu verðlagi og frjálsu flæði landbúnaðarvara á milli aðildarríkjanna;
- mismunun vara innan EBE og utan (e. community preference), sem byggist á sameiginlegum tollum;
- fjárhagslegu samtryggingarkerfi.
Til þess að ná þessum markmiðum kveður sáttmálinn á um að koma skuli á sameiginlegu skipulagi landbúnaðarmarkaða í aðildarríkjunum. Eftir því um hvaða afurðir er að tefla felst skipulagið ýmist í sameiginlegum samkeppnisreglum, samræmingu á ólíku markaðsskipulagi aðildarríkjanna eða sameiginlegum markaði. Áhrifamesta tækið sem ESB ræður yfir til að ná markmiðum landbúnaðarstefnunnar er stofnun sameiginlegra markaða með tilteknar landbúnaðarvörur. Slíkir markaðir eru til meðal annars fyrir kornmeti, mjólk, sykur, hrísgrjón, nautakjöt og banana.
Frá upphafi gegndi
Þróunar- og ábyrgðarsjóður evrópsks landbúnaðar (European Agricultural Guidance and Guarantee Fund, EAGGF) lykilhlutverki í framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. Sjóðurinn var settur á stofn árið 1962 og skipt í tvær deildir árið 1964, annars vegar Þróunardeild (Guidance Section) og hins vegar Ábyrgðadeild (Guarantee Section). Árið 2005 var sjóðnum skipt í tvo aðskilda sjóði. Annars vegar er
Ábyrgðarsjóður evrópsks landbúnaðar (European Agricultural Guarantee Fund, EAGF), sem fjármagnar beinar greiðslur til bænda og önnur markaðsinngrip (fyrri stoðin), og hins vegar
Dreifbýlisþróunarsjóður evrópsks landbúnaðar (European Agricultural Fund for Rural Development, EAFRD), sem fjármagnar dreifbýlisþróunaráætlun aðildarríkjanna (seinni stoðin). Sjóðurinn er fjármagnaður með tollum á innfluttar landbúnaðarvörur og framlögum frá aðildarríkjunum.
Á sjötta og sjöunda áratugnum var allt kapp lagt á að auka framleiðni landbúnaðarins til að tryggja neytendum stöðugt framboð vara á viðráðanlegu verði. Þetta var gert með margvíslegum
verðstuðningi (e. price support), svo sem fyrirfram ákveðnu
íhlutunarverði (e. intervention price), innflutningstollum og útflutningsbótum, þar sem heimsmarkaðsverð var iðulega lægra en markaðsverð EBE. Þannig var tryggt að evrópskir bændur væru samkeppnishæfir á heima- og heimsmarkaði, þrátt fyrir að framleiðslukostnaður þeirra væri hærri en víða annars staðar. Svo „vel“ tókst til að á áttunda áratugnum fór að bera á óæskilegum afleiðingum stefnunnar: offramleiðslu, óhóflegum útgjöldum, óhagræði við framleiðslu og neikvæðum umhverfisáhrifum. Síðan þá hefur sameiginlega landbúnaðarstefnan verið tekin til endurskoðunar hvað eftir annað, meðal annars til að draga úr þessum óæskilegu áhrifum.
Almennt má segja að þær breytingar sem orðið hafa á landbúnaðarstefnunni síðan á níunda áratugnum séu í áttina frá hefðbundnum markaðsstjórnunartækjum til margvíslegs stuðnings við framleiðendur eftir nýrri og beinni leiðum. Til dæmis hafa verið teknar upp
beingreiðslur til bænda, óháðar framleiðslumagni, og aukin áhersla verið lögð á stuðning við umhverfis- og byggðamál. Um þetta má lesa í svari við spurningunni:
Er endurskoðun landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem samið var um 1992 enn ólokið? Einnig má líta á sérstakan stuðning ESB við norðlæg svæði í Svíþjóð og Finnlandi sem dæmi um byggðastefnu sambandsins, sjá svarið við spurningunni:
Hvað er átt við með heimskautalandbúnaði í umræðunni um ESB?
Heimildir og mynd: